Fjármögnun

Fjármögnun Landsbankans grundvallast á þremur meginstoðum: Innlánum frá viðskiptavinum, fjármögnun á markaði og eigin fé. Lánshæfiseinkunn Landsbankans er metin BBB/A-2 með jákvæðum horfum af S&P Global Ratings.

Lánshæfismat Landsbankans línurit

Innlán frá viðskiptavinum

Stærstur hluti fjármögnunar Landsbankans er í formi innlána frá viðskiptavinum sem námu 1.049 milljörðum króna í árslok 2023 og eru að mestu leyti óverðtryggð og óbundin. Innlán frá viðskiptavinum jukust um 81 milljarð króna á árinu. Verðtryggð innlán námu 180 milljörðum króna í lok árs 2023 og hækkuðu um 20 milljarða króna frá fyrra ári.

Fjármögnun á markaði

Óveðtryggð skuldabréfaútgáfa á erlendum mörkuðum og erlendar lántökur

Skuldabréfaútgáfur í erlendri mynt eru veigamesta stoðin í fjármögnun bankans á markaði. EMTN-skuldabréfarammi bankans er tveir milljarðar evra að stærð og var stækkaður úr 1,5 milljörðum evra á árinu 2017. Fyrstu skref í útgáfum undir rammanum voru tekin árið 2015 og hefur bankinn verið reglulegur útgefandi á erlendum skuldabréfamörkuðum frá þeim tíma. Á árinu 2021 birti bankinn sjálfbæra fjármálaumgjörð með vottun frá Sustainalytics.

Bankinn fékk lán frá Norræna fjárfestingarbankanum í janúar í tengslum við nýbyggingu bankans við Austurbakka. Lánsfjárhæðin er 40 milljónir Bandaríkjadala og er til fimmtán ára.

Skuldabréf að fjárhæð 300 milljónir evra voru á gjalddaga í maí 2023.

Í ágúst gaf bankinn út skuldabréf til tveggja ára að fjárhæð 1.000 milljónir norskra króna og til tveggja ára að fjárhæð 450 milljónir sænskra króna.

Bankinn gaf út græn skuldabréf að fjárhæð 300 milljónir evra í september til 3,5 ára og var um að ræða þriðju grænu skuldabréfaútgáfu bankans í evrum. Samhliða útgáfunni bauðst bankinn til að kaupa til baka skuldabréf í evrum á gjalddaga í maí 2024 sem leiddi til endurkaupa að fjárhæð 132 milljónir evra.

Bankinn gekk frá öðru lánasamkomulagi við Norræna fjárfestingarbankann í desember að fjárhæð 75 milljónir Bandaríkjadala til sjö ára.

Í árslok 2023 námu óveðtryggðar erlendar skuldabréfaútgáfur samtals 241 milljarði króna og lækkuðu um 13 milljarða króna á árinu.

Sértryggð skuldabréfaútgáfa

Útgáfurammi bankans fyrir sértryggð skuldabréf er 2.500 milljónir evra og var stækkaður úr 250 milljörðum króna á árinu 2022. Samhliða var ramminn uppfærður svo unnt væri að gefa út sértryggð skuldabréf í erlendri mynt undir rammanum auk þess sem ramminn var skráður í kauphöll á Írlandi, Euronext Dublin.

Í mars gaf bankinn út evrópsk sértryggð skuldabréf (úrvals) í evrum, þau fyrstu frá íslenskum banka, að fjárhæð 300 milljónir evra til fimm ára og jók þar með fjölbreytni í fjármögnun bankans enn frekar.

Á árinu 2023 voru regluleg útboð á sértryggðum skuldabréfum þar sem áður útgefnir flokkar voru stækkaðir auk þess sem nýr óverðtryggður flokkur, LBANK CB 29, var gefinn út. Einn flokkur var á gjalddaga á árinu, óverðtryggði flokkurinn LBANK CB 23. Samningar um viðskiptavakt á eftirmarkaði með sértryggð skuldabréf útgefin af bankanum voru endurnýjaðir á árinu.

Sértryggðar skuldabréfaútgáfur bankans námu 268 milljörðum króna í árslok 2023 og nam aukningin 45 milljörðum króna á árinu.

Víxlaútgáfa

Engin víxlaútboð voru haldin á árinu en bankinn hefur sett upp 50 milljarða króna útgáfuramma fyrir víxla og skuldabréf. Engir víxlar voru á gjalddaga á árinu og engir víxlar voru útistandandi í árslok 2023.

Víkjandi útgáfa

Í mars lauk bankinn víkjandi útgáfu að fjárhæð 12 milljarðar króna til tíu ára en með innköllunarheimild að fimm árum liðnum. Útgáfan telst til eiginfjárþáttar 2.

Í september nýtti bankinn heimild til innköllunar víkjandi útgáfu að fjárhæð 100 milljónir evra.

Víkjandi útgáfa undir víxla- og skuldabréfaramma bankans nam 20 milljörðum króna í árslok 2023 og lækkaði um tvo milljarða milli ára.

Hlutafé

Eigið fé bankans nam 304 milljörðum króna í árslok 2023 og hækkaði um 25 milljarða króna á árinu.

Landsbankinn greiddi út arð til hluthafa að fjárhæð 8.504 milljónir króna á árinu 2023.

Eiginfjárhlutfall Landsbankans var 23,6% í árslok 2023.

Lánshæfismat

Frá árinu 2014 hefur lánshæfi Landsbankans verið metið af alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækinu S&P Global Ratings. Í nóvember 2023 var horfum lánshæfismats bankans breytt úr stöðugum í jákvæðar og er lánshæfið nú BBB/A-2 með jákvæðum horfum.

Lánshæfismat S&P Global Ratings
Langtíma BBB
Skammtíma A-2
Horfur Jákvæðar
Útgáfudagur Nóvember 2023

Lánshæfismat á sértryggð skuldabréf

Í janúar 2021 fékk Landsbankinn lánshæfismat á sértryggð skuldabréf útgefin af bankanum frá S&P Global Rating. Í nóvember 2023 var lánshæfismat sértryggðra skuldabréfa sem útgefin eru af bankanum hækkað í A+ með stöðugum horfum.

Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur