Metnaður og þróun í mannauðsmálum

Mannauðsmál eru samofin öllum verkefnum og árangri Landsbankans. Metnaður og vöxtur starfsfólks myndar grunninn að þeirri árangursdrifnu vinnustaðamenningu sem einkennir bankann.  

Starfsfólk Landsbankans

Við leggjum áherslu á að byggja upp eftirsóknarverðan og góðan vinnustað fyrir ólíka aldurshópa með ólíkan bakgrunn og reynslu. Mannauðsmælikvarðar eru hluti af árangursmælikvörðum bankans og við fylgjumst með, mælum og endurskoðum reglulega hvernig okkur miðar til að tryggja að vinnustaðurinn sé í takt við þarfir og kröfur nútíma vinnustaða. Við settum okkur ný markmið og á árinu var lögð áhersla á að fylgjast með starfsánægju og upplifun starfsfólks á því hvort það upplifi sig sem hluti af teymi. Það er ánægjulegt að á árinu náðust öll sett mannauðsmarkmið.

Starfsþróun og fræðsla 

Fjölbreytt fræðsla fyrir starfsfólk og viðskiptavini hefur sem fyrr verið í forgrunni og er samofin daglegu starfi bankans. Sérstök áhersla hefur verið lögð á fræðslumál og upplýsingagjöf samhliða áframhaldandi uppbyggingu á góðu starfsumhverfi og vinnustaðamenningu. 

Samkeppni um starfsfólk er mikil og ýmsar rannsóknir sýna að áhersla á mikilvægi fræðslu og starfsþróunar skili ávinningi og árangri í samkeppni um hæft starfsfólk. Fræðsluáætlanir bankans eru byggðar á þarfagreiningum og góðu samstarfi við m.a. Regluvörslu, Lögfræðiþjónustu, Rekstraráhættu og viðskiptalausnir sviða til að tryggja framboð á nauðsynlegri fræðslu sem styður við þekkingu, hæfni og endurmenntun starfsfólks í fjármálafyrirtæki.  

Landsbankinn Reykjastræti

Metnaðarfull fræðsluáætlun og framboð fræðslu 

Aukinn hraði í síbreytilegu starfsumhverfi nútímans kallar á nýja hæfni og breytta nálgun. Sérsniðin fræðsla hefur verið þróuð til að mæta þörfum tiltekinna markhópa innan bankans, stjórnendaþjálfun var umfangsmikil og starfsþróunar- og mentoraverkefni var sett á laggirnar. Allt starfsfólk ætti að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í fræðsludagskránni þar sem skráning er valkvæð. Framboðið spannar sérhæfða, starfstengda færni, persónulega færni og allt þar á milli. Form fræðslunnar var jafnframt fjölbreytt og byggði t.d. á stuttum fyrirlestrum, vinnustofum, námskeiðum og rafrænni fræðslu. 

Markviss markaðssetning fræðslu með sérstökum aðgerðum til að auka sýnileika, skilning og áhuga á fræðslu innan bankans setti svip sinn á fræðslustarfið 2024. Sú markaðssetning, breytingarnar á fræðslustarfi, innleiðing á nýju fræðslukerfi og nýtt húsnæði í Reykjastræti hafði samverkandi áhrif á góðan árangur við að efla fræðslumenninguna á árinu og grósku í fræðsluframboði.

Fræðsla til framtíðar

„Það hefur alltaf verið mikill áhugi á fræðslu og lærdómi í bankanum en síðastliðið ár höfum við tekið fræðslumálin enn fastari tökum. Með skipulagsbreytingu í Mannauði fékk deildin Fræðsla og þróun nýtt hlutverk. Nú leggjum við enn meiri áherslu en áður á að tengja fræðsluframboðið við stefnu bankans þannig að hún styðji lykilmarkmið hans og sé í takt við raunverulegar þarfir í rekstrinum.

Virkni í fræðslu 

Það er óhætt að segja að starfsfólk bankans hafi tekið virkan þátt í fræðslu á árinu en sé litið til fræðslu sem er ekki skyldufræðsla sóttu 94% starfsfólks sér fræðslu. Starfsfólk sótti að meðaltali 5 fræðsluerindi hjá bankanum á árinu.

Sé litið til ársins 2023 kemur í ljós að virkni hefur aukist töluvert á milli ára en virkni í fræðslu árið 2023 var 63%. Framboð fræðslu var einnig mun meira árið 2024 en árið áður. 

Við leggjum áherslu á að allt starfsfólk hafi jöfn tækifæri til þátttöku í fræðslu. Sé litið til kynjaskiptingar má sjá að þátttaka í fræðslu annarri en skyldufræðslu er jöfn á milli kvenna og karla, eða 94%. 

Mat á virkni í fræðslu tekur til valkvæðra fræðsluviðburða og rafrænnar fræðslu sem er á fræðsludagskrá hjá bankanum. Tekið skal fram að í þessum tölum er ekki tekið mið af fræðslu sem er sótt annað.

Ánægja og árangur á vinnustaðnum 

Í síbreytilegu umhverfi er mikilvægt að huga stöðugt að þróun á stefnu í mannauðsmálum. Undanfarin ár hefur verið unnið að mörgum verkefnum sem snúa að umbótum í vinnuumhverfi sem auðveldar okkur að vinna saman þvert á einingar og hafa þannig jákvæð áhrif á upplifun starfsfólks og árangur. Við leggjum sömuleiðis mikla áherslu á samveru og samvinnu starfsfólks enda erum við sannfærð um að öflugt og uppbyggilegt félagslíf hafi jákvæð áhrif á verkefni og auðveldi okkur að leysa málin saman. Í bankanum er virkt félagsstarf og margir hópar starfræktir af starfsfólki til viðbótar við skipulagt félagsstarf bankans og viðburði. Þátttaka starfsfólks í félagsstarfi er mikil og liðsandinn góður, enda sýna kannanir að 90% starfsfólks telur sig vera vel metið sem hluta af teymi. 

Við vinnum reglulegar greiningar á upplifun starfsfólks á vinnustaðnum, starfsánægju og viðhorfi þess til stjórnenda og yfirstjórnar. Almennt er þátttaka starfsfólks í könnunum mjög góð, eða á bilinu 80-90%, og niðurstöðurnar eru nýttar til stöðugra umbóta og þróunar.   

Þættir sem snúa að starfsánægju og öðrum þáttum starfsumhverfis eru mældir í fjórum könnunum með mismunandi áherslum yfir árið. Niðurstöður kannana í ár hafa verið góðar og heildaránægja og helgun hefur aukist. Ákveðinn mælikvarði á ánægju starfsfólks er að kanna hvort það mæli með vinnustaðnum sem frábærum vinnustað og 88% starfsfólks er mjög eða nokkuð sammála þeirri fullyrðingu. Ef talin er þörf á frekari greiningu er hún unnin ýmist með samtölum við hópa eða styttri viðbótarkönnunum.  

Sveigjanlegt og nútímalegt starfsumhverfi 

Við leggjum áherslu á gagnkvæman sveigjanleika þar sem þarfir einkalífs og starfs fara saman og að aðbúnaður og aðstaða sé eins og best verður á kosið. Í Reykjastræti 6, sem bankinn flutti inn í á vormánuðum 2023, var innleitt svokallað verkefnamiðað vinnuumhverfi sem felur í sér að starfsfólk velur sér starfsstöð sem hentar verkefnum hverju sinni. Hluti af þessu vali er starfsstöð utan vinnustaðar, ef verkefni bjóða upp á það. Reynslan af þessu fyrirkomulagi hefur verið góð. Niðurstöður kannana benda til þess að starfsfólk kunni vel að meta þennan sveigjanleika og 87% starfsfólks er mjög eða nokkuð sammála því að vinnusvæði auðveldi þeim samstarfið.   

Heilsueflandi vinnustaður 

Rík hefð er í bankanum fyrir þátttöku í ýmsum verkefnum sem snúa að heilsueflingu. Lýðheilsuverkefni eins og Hjólað í vinnuna og Lífshlaupið hafa verið vettvangur margra til að gera hreyfingu og umhverfisvænar samgöngur að hluta af lífsstíl sínum. Þátttaka í þessum verkefnum hefur verið mjög góð og hefur bankinn um margra ára bil fengið viðurkenningar fyrir góða þátttöku. Að auki eru góð tækifæri til líkamsræktar á vinnustað, hollur og fjölbreyttur matur í boði í mötuneyti bankans í hádeginu og vinnuaðstæður eru heilsusamlegar. Starfsfólk hefur auk þess kost á íþróttastyrk og samgöngustyrk sem hvetur til notkunar á umhverfisvænum samgöngumáta. Bankinn býður starfsfólki upp á árlegt heilsufarsmat og gott aðgengi að læknis- og sálfræðiþjónustu. Við teljum þetta mikilvægan hluta af því að hlúa að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsfólks sem styður við árangur bæði í leik og starfi. 

Starfsfólk Landsbankans

Fjölbreytni og jafnrétti 

Við höfum um árabil lagt áherslu á jafnréttismál og unnið eftir skýrri jafnréttisstefnu og -áætlun. Hjá okkur hefur allt starfsfólk jöfn tækifæri til starfsþróunar og hver einstaklingur er metinn að verðleikum. Mismunun sem byggir á kyni, kynþætti, kynhneigð, trúarbrögðum eða þjóðerni er aldrei liðin. Bankinn hefur verið jafnlaunavottaður frá upphafi árs 2019. Markmið Landsbankans er að til lengri tíma litið sé launamunur sem næst 0%, en þó aldrei meiri en 2,5%. Á árinu eru gerðar fjórar mælingar á launamun kynja og var hann 1,6% konum í óhag bæði í upphafi og lok árs. 

Á árinu var óskað eftir sjálfboðaliðum í vinnuhóp sem fékk það hlutverk að endurskoða jafnréttisáætlun og rýna almennt í jafnréttismál í bankanum. Hópurinn skilaði af sér tillögum að jafnréttis- og fjölbreytnistefnu sem verða grunnur að endurskoðaðri jafnréttisstefnu bankans.     

Við erum með skýra viðbragðsáætlun við einelti, kynbundnu áreiti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi (EKKO). Allt starfsfólk fær reglubundna fræðslu um málefnið og vinnustofur eru haldnar fyrir stjórnendur bankans. Vitund starfsfólks og stjórnenda um málefnið hefur aukist með reglubundinni miðlun upplýsinga og skyldufræðslu og fagleg úrvinnsla mála hefur verið tryggð. Starfsfólki býðst að ræða við óháðan ytri fagaðila ef upp koma erfið mál. Mæling á tíðni atvika, upplifana og tilkynninga er hluti af árlegri vinnustaðagreiningu.  

Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur