Ávarp bankastjóra

Rekstur Landsbankans gekk vel á árinu 2024 og bankinn náði öllum helstu markmiðum sínum, hvort sem þau lúta að þjónustu við viðskiptavini, fjárhag eða rekstri.  

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri

Eins og uppgjörið ber með sér var 2024 gott rekstrarár hjá bankanum og fjórði ársfjórðungur var sterkur. Arðsemi eiginfjár á ársgrundvelli var 12,1% sem er umfram markmið bankans og kostnaðarhlutfallið hefur aldrei verið lægra, eða 32,4%.  

Við leggjum mikla áherslu á að veita framúrskarandi þjónustu, bæði í gegnum appið og aðrar tæknilausnir sem og í útibúum um allt land. Kannanir sýna aukna ánægju með þjónustuna sem er okkur hvatning til að gera enn betur.  

Góð rekstrarafkoma bankans byggir á traustum grunni. Á síðustu tíu árum hafa heildareignir bankans aukist um 1.083 milljarða króna og eigið fé um 74 milljarða króna, samhliða arðgreiðslum til eigenda samtals að upphæð 192 milljarðar króna. Kostnaður við rekstur bankans hefur verið stöðugur, stöðugildum hefur fækkað samhliða aukinni tæknivæðingu og rekstrarkostnaður sem hlutfall af stöðu heildareigna hefur lækkað stöðugt.

Með öðrum orðum er aukin stærðarhagkvæmni í rekstri bankans, stærð hans hefur tvöfaldast, sem jafngildir 32% aukningu að raungildi, og kostnaður hefur á sama tíma lækkað um 25% að raungildi.

Stærðarhagkvæmnin stuðlar að því að bankinn getur boðið mjög samkeppnishæf kjör til viðskiptavina en um leið náð arðsemismarkmiðum sínum. 

Styðjum við fjárfestingar og verðmætasköpun 

Sterk staða bankans skilar sér meðal annars út í samfélagið með aukinni útlánagetu en alls nam útlánaaukning ársins 177 milljörðum króna og var um 60% aukningarinnar vegna útlána til fyrirtækja. Landsbankinn er sem fyrr umfangsmesti lánveitandinn til byggingariðnaðarins og hélt sterkri stöðu í útlánum til sjávarútvegs, þrátt fyrir harða samkeppni frá erlendum lánastofnunum sem geta boðið betri kjör í erlendum gjaldmiðlum í krafti enn meiri stærðarhagkvæmni, lægri fjármagnskostnaðar og lægri skatta. Áhersla okkar á að bæta þjónustu við lítil og meðalstór fyrirtæki bar góðan árangur og við sjáum mörg tækifæri á þeim markaði.  

Gott ár í fjármögnun 

Aukin útlán hvíla á traustri fjármögnun, ekki síst á auknum innlánum sem jukust um 180 milljarða króna á árinu. Góð kjör og stafræn þjónusta í fremstu röð spila þar lykilhlutverk. Á árinu fjölgaði viðskiptavinum sem spara í appi, og njóta þannig bestu kjara á óbundnum reikningum, um 39% og nú nýta um 59.000 einstaklingar sér þessa hagstæðu og einföldu sparnaðarleið. Fjármögnun á erlendum og innlendum verðbréfamörkuðum gekk sömuleiðis vel og er rétt að nefna sérstaklega útgáfu á víkjandi forgangsbréfum en um var að ræða fyrstu slíka útgáfu hjá íslenskum banka. Vel heppnaðar skuldabréfaútgáfur staðfesta sterka stöðu bankans sem endurspeglaðist einnig í hækkun á lánshæfismati. Við teljum allar forsendur vera fyrir frekari styrkingu lánshæfismatsins á næstu misserum. 

Bankinn var áfram virkur í útgáfu grænna skuldabréfa á erlendum mörkuðum en tvær grænar skuldabréfaútgáfur hækkuðu hlutfall erlendrar fjármögnunar upp í 61% á árinu. Landsbankinn gaf út uppfærða sjálfbæra fjármálaumgjörð staðfesta af Sustainalytics í byrjun ársins og voru grænu útgáfurnar í samræmi við þá umgjörð. Sjálfbærni er stór þáttur í rekstri bankans og við vinnum að því að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins.

Mikilvægasta leiðin til að hafa jákvæð áhrif liggur í lánveitingum til fyrirtækja sem eru að ná árangri í sjálfbærni. Við vinnum að staðfestu á vísindalegum markmiðum (e. Science Based Targets initiative) og vitum að þegar viðskiptavinir okkar ná árangri, nær Landsbankinn og samfélagið allt árangri. 

Kraftmikill vöxtur í þóknanatekjum 

Vaxtamunur bankans fór lækkandi á árinu, í lækkandi vaxtaumhverfi, og hreinar vaxtatekjur drógust lítillega saman. Á hinn bóginn var vöxtur í þóknanatekjum, ekki síst vegna góðs árangurs í færsluhirðingu bankans sem hefur stimplað sig rækilega inn. Á árinu komu 757 ný fyrirtæki í færsluhirðingu til okkar, þar af mörg af stærstu smásölufyrirtækjum landsins. Færsluhirðingin hefur aukið breiddina í þjónustu bankans, stuðlað að aukinni ánægju viðskiptavina og gefið bankanum ný sóknarfæri á fyrirtækjamarkaði en tæplega 40% af fyrirtækjunum sem komu í færsluhirðingu voru ekki í neinum viðskiptum við okkur áður. 

Kaup bankans á TM munu sömuleiðis gefa bankanum mörg sóknartækifæri, bæði meðal fyrirtækja og einstaklinga. Við teljum að samþætting banka- og tryggingastarfsemi komi sér vel fyrir viðskiptavini, sé hagkvæm og feli í sér mörg tækifæri, eins og reynslan af slíkum rekstri víða í Evrópu hefur sýnt. Um leið munu kaupin fjölga tekjustoðum og styðja við arðsemi til framtíðar. Það er ekki síst markviss stefna bankans undanfarin ár, að bjóða viðskiptavinum um allt land framúrskarandi þjónustu, bæði með því að vera á staðnum og í gegnum frábært app og aðrar tæknilausnir, sem skapar tækifæri fyrir bankann og TM. 

Mikil eftirspurn eftir verðtryggðum íbúðalánum 

Á árinu lauk fastvaxtatímabili hjá um 3.800 lántökum sem höfðu fest vexti á óverðtryggðum lánum á meðan þeir voru hvað lægstir, en við það hækkaði greiðslubyrði oft á tíðum verulega. Við fylgdumst vel með stöðu þessa hóps og hringdum í alla sem stóðu frammi fyrir þessum breytingum til að bjóða þeim ráðgjöf um möguleika í stöðunni. Til að draga úr greiðslubyrðinni færðu margir sig yfir í verðtryggð íbúðalán. Á sama tíma var töluvert um að fólk sem hafði verið með íbúðalán hjá öðrum lánveitendum færði sig yfir til Landsbankans. Eftirspurn eftir verðtryggðum lánum jókst því verulega.  

Þessi sveifla yfir í verðtryggð lán skapaði ákveðnar áskoranir á efnahagsreikningi bankans. Verðtryggð útlán eru að mestu fjármögnuð með útgáfu á verðtryggðum skuldabréfum og verðtryggðum innlánum. Í apríl 2024 var staðan sú að kjörin sem voru í boði á verðtryggðri skuldabréfaútgáfu höfðu versnað og fremur lítill vöxtur hafði verið í verðtryggðum innlánum.  

Breytingar sem koma sér betur fyrir viðskiptavini 

Í ljósi hækkandi fjármögnunarkostnaðar var ákveðið að breyta framboði á verðtryggðum lánum í stað þess að grípa eingöngu til vaxtahækkana til að mæta dýrari fjármögnun. Við styttum lánstímann og hættum að bjóða lán með jöfnum greiðslum, nema fyrir fyrstu kaupendur. Við teljum að þessar breytingar hafi komið viðskiptavinum betur en vaxtahækkanir.

Þau kjör sem bankinn býður eru sem fyrr mjög samkeppnishæf og raunar er það svo að kjörin á verðtryggðum íbúðalánum bankans eru með þeim bestu sem bjóðast.

Farsæl viðskipti við Eyri Invest og Marel 

Meðal helstu tíðinda í íslensku viðskiptalífi á liðnu ári var yfirtaka JBT á Marel. Landsbankinn hefur lengi, í gegnum Eyri Invest, átt óbeinan eignarhlut í Marel sem rekja má til endurfjármögnunar Eyris Invest árið 2009. Virði eignarhlutarins í Eyri hefur sveiflast mikið á undanförnum árum og stundum haft töluverð áhrif á uppgjör bankans, en á heildina litið hefur aðkoma bankans að Marel og Eyri verið afar farsæl. 

Jákvæð áhrif á íslenskt samfélag 

Langflestir viðskiptavinir okkar nota Landsbankaappið til að sinna bankaerindum sínum. Appið er þjált í notkun, býður upp á ýmsa möguleika sem hvergi eru í boði annars staðar og mælingar sýna mikla ánægju hjá notendum. Það er líka í stöðugri þróun og alls gáfum við út 33 uppfærslur af appinu á síðasta ári.

Samhliða áherslu á framþróun í appinu og öðrum tæknilausnum, leggjum við áfram rækt við mannlega þáttinn. Landsbankinn er með góð tengsl við viðskiptavini um allt land, jafnt við einstaklinga og fyrirtæki, og einstaklega öflugt þjónustunet.

Við erum með 35 útibú og afgreiðslur um allt land og á árinu lögðum við enn meiri áherslu á að gera starfsfólki víða um land kleift að vinna verkefni sem eru óháð staðsetningu. Árangurinn er ótvíræður og birtist meðal annars í styttri afgreiðslu- og biðtíma en einnig í aukinni ánægju starfsfólks sem er ánægt með fjölbreytt og krefjandi verkefni. Næstu verkefni bankans verða að skapa öflugt samstarf við TM og setja kraft í næstu tækniáskorun, sem er notkun gervigreindar. Við munum áfram skila góðum árangri fyrir eigendur bankans, styðja viðskiptavini og hafa jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Landsbankinn er traustur banki fyrir farsæla framtíð og árangur bankans undanfarin ár sýnir og sannar að með traustu og metnaðarfullu starfsfólki er allt hægt. 

Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur