Landsbanki nýrra tíma

Kjarninn í stefnu Landsbankans, Landsbanki nýrra tíma, er hugmyndin um gagnkvæmt traust og mannlega sýn á bankaviðskipti. Við viljum nýta alla kosti tækninnar án þess að glata því mannlega í okkar starfi. Samhliða þessu endurspeglar stefnan kraft til umbreytinga og framþróunar.

Fólk úti í náttúru

Innleiðing stefnunnar hófst í ársbyrjun 2021. Landsbanki nýrra tíma styður með beinum hætti við tilgang Landsbankans sem er að vera traustur banki fyrir farsæla framtíð. Sú setning fangar vel kjarna bankans og á rætur sínar að rekja allt til stofnunar Landsbanka Íslands árið 1886.

Traust

Gildi Landsbankans er traust og er það lykilþáttur í allri starfsemi bankans, hvort sem horft er til samskipta við viðskiptavini, birgja, samstarfsfólk eða átt er við rekstur bankans og almenna starfsemi. Viðskiptavinir geta treyst því að við séum til staðar og að rekstur bankans sé í öruggum höndum.

Stoðir stefnunnar 

Stefnan er studd af fjórum traustum stoðum sem byggja undir þá grunnþætti sem nauðsynlegir eru til að ná framúrskarandi árangri til framtíðar.

Stefnustoð 1: Jákvæð áhrif
Stefnustoð 2: Ánægðir viðskiptavinir
Stefnustoð 3: Stöðug framför
Stefnustoð 4: Við elskum árangur

Jákvæð áhrif. Landsbankinn er hluti af umhverfi sínu, íslensku samfélagi. Við leggjum ríka áherslu á að vera jákvætt hreyfiafl um allt land og stuðla að farsælli framtíð lands og þjóðar. Jákvæð áhrif bankans eru mæld með þátttöku í samfélaginu, arðgreiðslum og árangri í sjálfbærnivinnu.

Traustur rekstur á að skila bankanum jöfnum og góðum hagnaði og styðja við reglulegar arðgreiðslur. Verði tillaga bankaráðs til aðalfundar árið 2024 samþykkt munu arðgreiðslur bankans til eigenda á árunum 2013-2024 samtals nema 191,7 milljörðum króna. Landsbankinn er í fremsta flokki í UFS-áhættumati alþjóðlega greiningarfyrirtækisins Sustainalytics með hverfandi áhættu, sem er einn besti árangur banka í Evrópu. Á undanförnum árum hefur hlutfall grænnar fjármögnunar aukist og er nú 26,6% af heildarlántöku. Bankinn er traustur bakhjarl íþrótta-, æskulýðs- og framþróunarstarfs og við höfum á sl. þremur árum veitt um 450 milljónir kr. í styrki til slíkrar starfsemi.

Ánægðir viðskiptavinir. Hér er áherslan á að einfalda viðskiptavinum lífið og fanga jafnframt mannlega þáttinn í þjónustu Landsbankans. Við finnum stöðugt leið til að gera enn betur og leysa áskoranir á farsælan hátt. Í því felst frumkvæði og það hugarfar sem Landsbanki nýrra tíma byggir á. Við setjum ánægju viðskiptavina í fyrsta sæti og viljum bjóða upp á aðgengilega og örugga bankaþjónustu hvar og hvenær sem er.

Vörumerki bankans er sterkt og mælist í sérflokki. Fólk finnur að við erum betri saman og fjölgun viðskiptavina og auknar þjónustutekjur bera þess merki. Okkar viðskiptavinir eru þeir ánægðustu á bankamarkaði og við leggjum áherslu á koma til móts við þarfir þeirra og finna leiðir við hæfi. Við nýtum styrkleika alls starfsfólks með því að tengja saman Þjónustuverið og útibú um land allt. Þannig veitum við viðskiptavinum bestu þjónustuna og höfum á sama tíma jákvæð áhrif á landsvísu.

Stöðug framför. Stöðugur og traustur rekstur ásamt góðum efnahag eru forsenda þess að skapa rými til framfara þar sem starfsemin verður stöðugt snjallari.

Nýjungar í tækni nýtast ekki einvörðungu í þróun á þjónustu fyrir viðskiptavini heldur einnig í að treysta rekstur bankans og tryggja með sem bestum hætti stöðugleika í fjármálaþjónustu. Traustur rekstur snýst að miklu leyti um það sem ekki sést en er engu að síður undirstaða og forsenda fyrir framþróun. Þessi hluti byggir ekki síst á metnaði og jákvæðu hugarfari til breytinga. Á bak við góðan árangur stendur öflugur hópur starfsfólks sem sinnir mikilvægum verkefnum tengdum rekstri, skilvirkni, framþróun, gæðum, fjármögnun, uppgjöri, eftirliti og fleiri ómissandi þáttum.

Við elskum árangur. Vinnustaðurinn á að vera umhverfi þar sem aðstæður til framúrskarandi árangurs fyrir viðskiptavini og starfsfólk eru sem bestar. Við elskum árangur vísar í persónulegan árangur en líka sameiginlegan árangur sem jákvæður og lausnamiðaður hópur starfsfólks þvert á bankann nær og birtist í framúrskarandi þjónustu. Fyrirtækjamenningin er árangursdrifin með hagsmuni viðskiptavina, samfélags, samstarfsfólks og eigenda í huga.

Flutningar í Reykjastræti 6 hafa gengið vel. Eftir flutningana er 80% starfsfólks bankans undir sama þaki á vinnustað framtíðarinnar. Markmið sem sett voru um hagræðingu og nútímalega vinnuaðstöðu sem stuðlar að betri samvinnu og styður við árangursdrifna menningu hefur verið náð.

Skýr markmið til stuðnings stefnu

Styrkur Landsbankans felst í starfsfólkinu, sterkri menningu, góðri ímynd og orðspori. Hann felst í viðskiptasamböndum og hversu vel hefur tekist að ná til viðskiptavina. Styrkurinn felst líka í traustum efnahag sem getur staðið af sér áföll.  

Forsenda árangurs er að allir stefni í sömu átt. Landsbanki nýrra tíma liggur til grundvallar viðskiptaáætlun bankans hverju sinni og er rauði þráðurinn í  því sem bankinn tekur sér fyrir hendur. Skýr lykilmarkmið, studd með áhersluverkefnum, markvissri framkvæmd og vel ígrunduðum ákvörðunum með langtímahagsmuni að leiðarljósi skila sér í traustum banka fyrir farsæla framtíð. 

Þetta er Landsbanki nýrra tíma. 

Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur