Öflugur stuðningur um allt land
Við tökum þátt í margvíslegum verkefnum sem stuðla að uppbyggingu og framþróun í samfélaginu. Stefna bankans er að hafa jákvæð áhrif á samfélagið og við horfum til þess að styðja við íþróttastarf, menningu og listir til viðbótar við sjálfbærni, góðgerðarmál og menntamál. Við birtum víðtækan fróðleik um efnahagsmál og leggjum áherslu á fræðslu og umræðu um fjármál í þeim tilgangi að efla fjárhagslega heilsu og hreyfa við umræðunni.

Sjóðir og styrkir
Tilgangurinn með styrktarsjóðum bankans er að veita brautargengi verkefnum sem eru líkleg til að efla íslenskt samfélag. Sérstakar dómnefndir, skipaðar fagfólki sem stendur að hluta eða öllu leyti utan bankans, fara yfir umsóknirnar og er umsóknarferlið gagnsætt og faglegt.

Samfélagssjóður og námsstyrkir
Samfélagssjóður Landsbankans gegnir lykilhlutverki í stuðningi okkar við samfélagið. Árið 2024 voru veittir námsstyrkir að upphæð 6 milljónir króna og samfélagsstyrkir að upphæð 15 milljónir króna, alls 21 milljón króna. Frá árinu 2011 hafa hátt á fimmta hundrað verkefna fengið samfélagsstyrki úr sjóðnum og nema styrkirnir samtals rúmlega 225 milljónum króna. Samfélagsstyrkirnir styðja verkefni á ýmsum sviðum, þar á meðal á sviði mannúðarmála, menningar og lista, menntunar, rannsókna og vísinda, forvarnar- og æskulýðsstarfs og á sviði umhverfismála og náttúruverndar.
Sjálfbærnisjóður
Fimm áhugaverð verkefni hlutu styrk úr Sjálfbærnisjóði Landsbankans, alls að upphæð 10 milljónir króna. Verkefnin eiga það öll sameiginlegt að hafa jákvæð áhrif á umhverfið og stuðla að frekari sjálfbærni í atvinnulífi og samfélaginu öllu. Sérstök áhersla hefur verið á orkuskipti við úthlutun styrkjanna og styðja þeir við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, þ.e. markmið númer 13 um aðgerðir í loftslagsmálum og númer 8 um góða atvinnu og hagvöxt.
Sameinaður sjóður til framtíðar
Frá og með árinu 2025 verður Sjálfbærnisjóðurinn innlimaður í Samfélagssjóðinn. Sú breyting verður einnig á að horfið verður frá því að leggja sérstaka áherslu á orkuskiptin við mat á sjálfbærniverkefnum. Í staðinn verður áhersla lögð á að styrkja metnaðarfull verkefni á sviði sjálfbærni til jafns við aðra þætti.
Hvatasjóður HR og Landsbankans
Sjóðurinn var settur á laggirnar árið 2023 og árið 2024 voru í annað sinn veittir styrkir úr honum. Markmið sjóðsins er að jafna aðgengi að námi við HR með því að styrkja nemendur sem eiga sér annað móðurmál en íslensku til grunnnáms við háskólann. Við stofnun Hvatasjóðsins voru heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna höfð að leiðarljósi og þá sérstaklega fjórða markmiðið: „Menntun fyrir öll“. Styrkhafar þurfa ekki að greiða skólagjöld HR fyrsta skólaárið og er styrkurinn greiddur af Landsbankanum.
Menning og listir
Stuðningur við fjölbreytta menningarviðburði, hátíðir og tónlistarfólk sameinar jákvæð áhrif bankans á samfélagið og viðleitni til að veita listum og menningu í landinu virkan stuðning.

HönnunarMars
Landsbankinn er stoltur styrktaraðili HönnunarMars og tekur þátt í hátíðinni með ýmsum hætti. Í ár stóðum við fyrir ýmsum viðburðum í bankanum í Reykjastræti, m.a. fræðslufundi um fjármögnun hönnunar. Sýningin fatahönnuðir framtíðarinnar var lifandi sambland tísku, tónlistar, arkítektúr og viðskipta, þar sem framúrstefnulegum hugmyndum og fatahönnun var fagnað. Í aðdraganda hátíðarinnar heimsóttum við auk þess sjö hönnuði til að fá innsýn í verkefnin sem þau voru að vinna og birtum myndbönd frá heimsóknunum.
Hinsegin dagar
Við styðjum réttindabaráttu hinsegin fólks en Landsbankinn hefur verið stoltur bakhjarl Hinsegin daga í Reykjavík frá upphafi. Á árinu hlutu níu atriði styrk úr Gleðigöngupotti Hinsegin daga og Landsbankans, sem styður einstaklinga og smærri hópa við undirbúning og framkvæmd atriða í Gleðigöngunni.
Menningarnótt
Við höfum verið máttarstólpi Menningarnætur frá upphafi og erum bakhjarl hátíðarinnar. Með sérstökum Menningarnæturpotti, sem við stöndum að í samvinnu við Höfuðborgarstofu, er frumlegum hugmyndum veitt brautargengi. Í ár fengu 24 spennandi verkefni styrki úr Menningarnæturpotti Landsbankans og Reykjavíkurborgar. Við buðum líka gestum og gangandi upp á spennandi listaverkagöngur í Reykjarstræti 6 og stóðum ásamt nágrönnum okkar að fjölbreyttri dagskrá við Hörputorg.
Stofnun Árna Magnússonar
Árið 2024 lauk verkefninu „Í fótspor Árna Magnússonar í Vesturheimi“ sem Landsbankinn hefur stutt. Markmið verkefnisins var að skrá handrit í opinberum söfnum og einkaeigu í Kanada og Bandaríkjunum í gagnagrunn á vefsíðunni handrit.is. Aðgangur að gagnagrunninum hefur nú verið opnaður og þar koma þúsundir mynda af íslenskum handritum og bréfum í Kanada og Bandaríkjunum fyrir sjónir almennings í fyrsta sinn. Vefurinn verður aðgengilegur bæði á íslensku og ensku og tryggir aðgang fræðimanna að upplýsingum um íslensk handrit í Vesturheimi og eflir möguleika á samanburðarrannsóknum.
Aldrei fór ég suður
Við erum einn af aðalbakhjörlum rokkhátíðarinnar Aldrei fór ég suður sem haldin er á Ísafirði hverja páska. Landsbankinn hefur stutt hátíðina allt frá árinu 2010. Með því viljum við leggja okkar af mörkum til að efla grasrótarstarf í íslenskri tónlist.
Ljósanótt
Landsbankinn er einn af aðalstyrktaraðilum Ljósanætur, svokallaður ljósberi. Hátíðin hefur verið haldin í Reykjanesbæ síðan árið 2000. Þátttaka almennings í viðburðahaldi hefur aukist jafnt og þétt og er það eitt af markmiðum hátíðarinnar að hún sé vettvangur fyrir fólk til að skapa og skemmta sér og öðrum.
Útrás
Veturinn 2024-2025 stendur Landsbankinn, ásamt Hörpu, Tónlistarborginni Reykjavík og Rás 2, fyrir tónleikaröð sem tileinkuð er grasrót íslenskrar tónlistar, þvert á tónlistarstefnur. Tónleikaröðin bætir aðgengi grasrótar og ungs fólks í öllum tónlistargreinum að aðstöðu og áheyrn, auk þess að efla fjölbreytni. Markmiðið er einnig að tónlistaráhugafólk geti fengið að heyra fjölbreytta nýja íslenska tónlist flutta við kjöraðstæður í tónlistarhúsi þjóðarinnar.
Listaverkavefur Landsbankans
Á Menningarnótt í ár opnuðum við nýjan og glæsilegan listaverkavef Landsbankans. Tilgangurinn með honum er að gera sem flestum kleift að njóta listaverka bankans og er sjónum í fyrstu beint að þeim verkum sem eru í húsakynnum bankans við Reykjastræti 6. Vefinn gerði Sara Karen Þórisdóttir, vefritstjóri hjá Landsbankanum, en gerð vefsins er hluti af lokaverkefni hennar í meistaranámi í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands.
Nýsköpun og fræðsla
Við birtum fjölda fræðslugreina um fjármál einstaklinga á Umræðunni og fjölbreytta aðra fræðslu á vefnum okkar. Við nýtum í síauknum mæli samfélagsmiðla til að koma fræðslunni til stærri hóps og deildum fræðsluefni á Facebook og Instagram, auk þess sem við birtum ýmsar upplýsingar á TikTok.

Fjármálafræðsla
Við leggjum okkar af mörkum til að efla fjármálafræðslu og -læsi og heimsækjum framhaldsskóla með það mið fyrir augum að efla fjármálaskilning nemenda. Fræðsluheimsóknirnar standa öllum framhaldsskólum til boða og eru skipulagðar í samstarfi við fulltrúa þeirra.
Við tökum einnig virkan þátt í verkefninu Fjármálavit, sem er námsefni í fjármálafræðslu fyrir nemendur í eldri bekkjum grunnskóla. Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) og Landssamtök lífeyrissjóða (LL) standa að verkefninu í samstarfi við aðildarfélögin.
Gulleggið
Við erum styrktaraðili Gulleggsins sem er árleg frumkvöðlakeppni á vegum Klak – Icelandic Startups. Meginmarkmið keppninnar er að skapa vettvang fyrir athafnafólk til að öðlast þjálfun og reynslu í mótun nýrra viðskiptahugmynda og rekstri fyrirtækja. Samhliða keppninni er þátttakendum boðið upp á námskeið, ráðgjöf og aðstoð sérfræðinga við allt frá mótun hugmyndar til áætlanagerðar og þjálfunar í samskiptum við fjárfesta. Í ár var efstu 10 teymunum einnig boðið að halda lyftukynningar fyrir starfsfólk bankans í Reykjastræti.
Forritarar framtíðarinnar
Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar er samfélagsverkefni sem hefur það hlutverk að efla og auka áhuga á forritun og hagnýtingu á tækni í skólum landsins. Sjóðurinn styrkir skóla til að senda kennara sína á námskeið í forritunar- og tæknikennslu, styður kaup á minni tækjum til slíkrar kennslu ásamt því að gefa notaðan tölvubúnað. Landsbankinn er einn af bakhjörlum sjóðsins.
Fræðslufundir
Bankinn hefur staðið fyrir fræðslufundum um ýmis málefni víðs vegar um land. Hátt í 200 manns sóttu vel heppnaðan fund í Reykjastræti um hvernig hægt er að stækka fyrirtæki. Fundir um netöryggi og lífeyrismál hafa einnig verið vel sóttir, sem og um fasteignamarkaðinn og endurfjármögnun. Sérstakir fundir um sparnað, húsnæðismál, lífeyrismál og netöryggi voru einnig haldnir á pólsku, við góðar undirtektir.
Íþróttir og æskulýðsstarf
Við leggjum okkur fram við að styðja íþróttalíf og æskulýðsstarf um allt land. Útibú bankans gera það með beinum samstarfssamningum, auk þess sem við tökum þátt í ýmis konar samstarfi á landsvísu. Í slíku samstarfi leggjum við áherslu á stuðning við barna- og unglingastarf.

Skólahreysti
Við erum aðalbakhjarl Skólahreysti og leggjum keppninni lið af krafti. Markmið Skólahreysti er að hvetja börn til þátttöku í alhliða íþróttaupplifun sem byggð er á grunnforsendum almennrar íþróttakennslu og þar sem keppendur vinna að mestu leyti með eigin líkama í þrautum. Keppnin var haldin í tuttugasta sinn árið 2024. Mjótt var á munum í ár en á endanum stóð lið Flóaskóla uppi sem sigurvegari.
Friðriksmótið í skák
Sterkasta hraðskákmót ársins, Friðriksmót Landsbankans – Íslandsmótið í hraðskák, var haldið í húsakynnum bankans við Reykjastræti 6 í desember. Landsbankinn og Skáksamband Íslands hafa staðið fyrir Friðriksmótinu sem haldið er til heiðurs Friðriki Ólafssyni, fyrsta stórmeistara Íslands, í rúma tvo áratugi. Íslandsmótið í atskák fór einnig fram í Bankanum vinnustofu, sem er í Landsbankahúsinu á Selfossi, í desember.
Knattspyrnusamband Íslands
Við erum bakhjarl Knattspyrnusambands Íslands. Landsbankinn styrkir uppbyggingarstarf íslenskrar knattspyrnu um land allt, öll yngri landslið og A-landslið karla og kvenna.
Undanfarin ár höfum við veitt háttvísiverðlaun Landsbankans og KSÍ á mótum yngri flokka um allt land. Með veitingu verðlaunanna viljum við hvetja til háttvísi og heiðarlegrar framkomu hjá leikmönnum og annarra er að mótunum koma.
Samstarf við stofnanir
Öflugt samstarf Landsbankans við atvinnulífið miðar að því að stuðla að aukinni verðmætasköpun, samkeppni og bættum lífskjörum.

Félagsstofnun stúdenta og Stúdentaráð HÍ
Farsælt samstarf hefur verið á milli okkar og Félagsstofnunar stúdenta (FS) annars vegar og Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) hins vegar. Saman höfum við staðið fyrir ýmsum verkefnum og viðburðum, m.a. fræðsluviðburðinum Fyrirtækið ég! sem haldinn var á Háskólatorgi.
Lánatryggingasjóðurinn Svanni
Við erum bakhjarl Svanna - lánatryggingasjóðs kvenna. Svanni veitir lán með lánatryggingum til fyrirtækja í meirihlutaeigu kvenna og er ætlað að efla atvinnulíf og hvetja til nýsköpunar. Svanni hefur verið í samstarfi við Landsbankann um lánafyrirgreiðslu um árabil.
Háskólasjóður Eimskipafélagsins
Háskólasjóður Eimskipafélags Íslands ákvað árið 2024 að verja 134,4 milljónum króna í styrki til doktorsnema við Háskóla Íslands. Sjóðurinn er í umsjá Landsbankans. Hann var stofnaður til minningar um Vestur-Íslendinga og til að styðja við stúdenta í rannsóknartengdu námi við HÍ. Stjórn Rannsóknasjóðs HÍ annast úthlutun úr sjóðnum en stjórn Háskólasjóðsins ákvarðar fjárhæð styrkja á hverju ári. Frá því að farið var að greiða styrki úr sjóðnum með reglubundnum hætti árið 2006 nemur heildarúthlutun styrkja rúmum 1,8 milljörðum króna, en þar af voru greiddar 500 milljónir króna til byggingar Háskólatorgs á árunum 2006 og 2007.
Klasasamstarf í ferðaþjónustu
Við höfum verið aðili að klasasamstarfi í ferðaþjónustu frá upphafi samstarfsins árið 2012. Að klasasamstarfinu standa lykilfyrirtæki á sviði ferðaþjónustu, opinberir aðilar og fyrirtæki sem styðja við eða eiga samstarf við greinina. Helsta markmið þess er að auka samkeppnishæfni og verðmætasköpun innan ferðaþjónustunnar.
Íslenski sjávarklasinn
Á árinu hóf bankinn samstarf við Íslenska sjávarklasann. Samstarfið miðar að því að styðja við aukna verðmætasköpun í bláa hagkerfinu. Áhersla verður lögð á stuðning við nýsköpunarfyrirtæki sem vinna að lausnum á þeim áskorunum sem rótgrónari fyrirtæki standa frammi fyrir, auk þess að styðja við frumkvöðla. Landsbankinn kemur að verkefninu sem styrktaraðili, auk þess sem sjávarútvegsteymi bankans mun styðja við frumkvöðla með handleiðslu og ráðgjöf.
Krýsuvíkursamtökin
Líkt og undanfarin ár veitti Landsbankinn styrki til góðs málefnis í nafni allra þeirra fyrirtækja sem hlutu viðurkenningu Creditinfo sem Framúrskarandi fyrirtæki. Að þessu sinni rann styrkurinn, fjórar milljónir króna, til Krýsuvíkursamtakanna.
Starf og útgáfa Greiningardeildar
Greiningardeild bankans fjallar um þróun efnahagsmála, heldur úti öflugri útgáfu með ýmsum hætti, m.a. á vef bankans og í hlaðvarpi, auk þess sem haldnir eru fundir, innan bankans sem utan. Deildin gegnir lykilhlutverki við að móta sýn bankans á þróun og horfur í efnahagslífinu.

Öflug efnahagsgreining og útgáfa
Hagsjá er vefrit með stuttum pistlum sem gefnir eru út eftir atvikum, oftast 1-3 sinnum í viku. Hagsjáin er birt á vefnum, send á fjölmennan póstlista og er iðulega til umfjöllunar í fjölmiðlum. Í pistlunum er fjallað um stöðu efnahagsmála, ríkisfjármála, fasteignamarkaðinn, verðbólguhorfur, ferðaþjónustuna og fleira, rýnt í nýjustu hagtölur hverju sinni og gefnar út spár. Í Vikubyrjun, vefplaggi sem Hagfræðideildin gefur út hvern mánudag, er gerð grein fyrir stöðunni á mörkuðum og vikan sem leið gerð upp, auk þess sem farið er yfir það sem fram undan er á sviði efnahagsmála, birtingu á hagtölum, uppgjörum fyrirtækja og fleira. Mánaðarlegt fréttabréf Greiningardeildar er ítarlegt yfirlit yfir stöðuna og horfurnar í efnahagsmálum og kemur út bæði á íslensku og ensku. Á árinu hafa hagfræðingar bankans einnig skrifað fræðslugreinar á vef bankans og umræðugreinar í dagblöð.
Hlaðvarp um efnahagsmál
Í hlaðvarpi Landsbankans er fjallað um efnahagsmál á mannamáli. Viðfangsefnin eru sniðin að því sem er í brennidepli hverju sinni og á árinu 2024 var fjallað um vaxtaákvarðanir, verðbólguþróun og fleira. Þá var farið ítarlega yfir þjóðhags- og verðbólguspár Greiningardeildar í kjölfar útgáfu. Umfjölluninni er ætlað að vekja áhuga á efnahagsmálum og miðla upplýsingum um þau á aðgengilegan hátt.
Hagspá Greiningardeildar
Stærsti viðburður Greiningardeildar á árinu var útgáfa og kynning á hagspá fyrir árin 2024-2027. Spáin var kynnt fyrir fullum sal í Silfurbergi í Hörpu, á fundi sem var einnig streymt, og hagspáin gefin út samhliða á vefnum. Að lokinni kynningu á hagspánni flutti James Ashley, hagfræðingur og forstöðumaður stefnumála og ráðgjafalausna fyrir Evrópu, Miðausturlönd, Afríku og Asíu hjá eignastýringu Goldman Sachs, erindi um stöðu og horfur á mörkuðum. Viðburðinum lauk með pallborðsumræðum þar sem forstjórar fjögurra útflutningsfyrirtækja ræddu um tækifæri og áskoranir í útflutningi.
Virk í samfélagsumræðunni
Við héldum áfram að vera sýnileg og virk í samfélagsumræðunni. Við leggjum okkar af mörkum til að efla umræðu um efnahagsmál, fjármál og annað sem er ofarlega á baugi í samfélaginu.

Varnir gegn netsvikum
Við höfum sinnt fræðslu um netöryggi af krafti um árabil. Á árinu skrifuðum við fræðslugreinar fyrir eigin miðla auk þess sem sérfræðingar bankans mættu í viðtöl og voru áberandi í umræðunni. Við stóðum fyrir fjölda fræðslufunda um netöryggi, m.a. í bankanum í Reykjastræti, í Reykjanesbæ, á Akureyri og Selfossi. Sérfræðingur bankans flutti einnig erindi á ráðstefnu á vegum Öldrunarráðs Íslands, veitti starfsfólki á velferðarsviði Reykjavíkurborgar fræðslu og heimsótti félagsheimili og þjónustuíbúðir aldraðra. Í ár kynntum við einnig svikavakt sem er opin alla daga vikunnar frá kl. 9.00-23.00. Þar aðstoðar starfsfólk bankans viðskiptavini að bregðast við svikatilraunum af ýmsu tagi.
Aðgengi að bankaþjónustu
Sérstöku léni sem tileinkað er pólsku var bætt við vef Landsbankans á árinu, landsbankinn.pl. Landsbankaappið er alfarið á þremur tungumálum: íslensku, ensku og pólsku. Við höldum áfram að bjóða ýmislegt annað efni á ensku og pólsku, m.a. í þeim tilgangi að stuðla að jöfnu aðgengi að fjármálaþjónustu og -fræðslu. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að birta áríðandi skilaboð, svo sem um netsvik, á öllum þremur tungumálum samhliða. Með því að bjóða upp á aðgengilegt efni á fleiri tungumálum stuðlum við að inngildingu, aukum fjölbreytileika og eflum skilning.
Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.