Traust samskipti og nýjar lausnir í viðskiptum

Viðskiptavinir tileinkuðu sér nýjar lausnir og áhersla var lögð á að efla samskipti með aukinni nýtingu sjálfsafgreiðslulausna og öflugri fræðslu. Hátt vaxtastig, þrálát verðbólga og væntingar um áframhaldandi mikla verðbólgu og erfiðar samningaviðræður á vinnumarkaði næstu misseri höfðu mikil áhrif á markaðsaðstæður á árinu 2023.

Kona með hesta

Líklegt er að það verði sveiflur á mörkuðum framan af ári. Kjaraviðræður eru stór áhrifaþáttur enda veigamikill þáttur í þróun verðbólgu og vaxtastig í landinu. Eins verður áhugavert að fylgjast með þróun mála hjá Marel og Alvotech.

Aukning á eignum í stýringu

Meginmarkmið Eignastýringar og miðlunar er að styðja viðskiptavini bankans til að ávaxta og verja fjármuni sína. Eins og alltaf er áhersla á eignadreifingu og unnið í samræmi við heimildir í fjárfestingarstefnum. Ávöxtunartölur fjárfestingarstefna einkabankaþjónustu voru jákvæðar á árinu og uxu eignir í stýringu umtalsvert.

Sterk gjaldeyrisvelta

Gjaldeyrisvelta hélst sterk og voru tekjur vegna gjaldeyrisviðskipta á pari við metárið 2022. Viðskiptavinir tileinkuðu sér nýja lausn sem sett var í loftið í upphafi árs, en Landsbankinn er fyrsta íslenska fjármálafyrirtækið til að bjóða viðskiptavinum að eiga gjaldeyrisviðskipti í sjálfsafgreiðslu, þ.e. fá tilboð í gjaldeyrisviðskipti.

Í gjaldeyrisviðskiptum í 45 ár 

„Þegar ég hóf störf hjá Landsbankanum í júní árið 1978 var ég nýstúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og hafði í raun bara áhuga á að starfa hjá bankanum í stuttan tíma. Ég þáði starf í bankanum á Akureyri en ætlaði síðan alltaf að læra að verða sjúkraþjálfari.

Ég læt af störfum fyrir Landsbankann eftir nokkuð fjölbreyttan feril í bankaþjónustu. Samt er rauði þráðurinn sá að ég hef unnið við gjaldeyri alla mína tíð en starfið hefur þróast verulega í áranna rás. 

Aukum samskipti við viðskiptavini í gegnum sjálfsafgreiðslulausnir

Áhersla verður áfram lögð á að kynna þjónustuframboð Landsbankans í rekstri lífeyrissjóða og þjónustum. Eins munum við áfram kynna B2B-tengingu inn í bókhaldskerfi viðskiptavina  en Landsbankinn er fyrstur innlendra fjármálafyrirtækja til að bjóða upp á sjálfvirkt flæði verðbréfaviðskiptagagna inn í bókhald viðskiptavina.  

Aukning hefur verið í skráningu á nýjum aðilum í beinan markaðsaðgang og höfum við tengst nýjum erlendum aðilum sem fjárfesta á markaði.

Gott framboð á áhugaverðri fræðslu

Viðburðir og fræðsla fyrir viðskiptavini og starfsfólk hafa verið vel sótt og fengið góðan hljómgrunn. Auk viðburða birtum við ýmsar fræðslugreinar sem tengjast verðbréfaviðskiptum á Umræðuvef bankans.

Sjóðastýringarfyrirtækið LGT Capital Partners, sem er mjög framarlega í sjálfbærum fjárfestingum, kynnti vöruframboð sitt og aðferðafræði við eignastýringu, hvernig þau nýta gögn til að meta UFS-þætti í þágu beinna fjárfestinga og eignasafna í stýringu. Landsbankinn hefur átt í farsælu samstarfi við LGT CP undanfarin ár og geta viðskiptavinir bankans fjárfest í fjölbreyttu úrvali sjóða félagsins.

Landsbankinn og LGT CP heimsóttu einnig viðskiptavini og lífeyrissjóði til að kynna hlutabréfasjóðinn LGT Sustainable Equity Fund Global. Sá sjóður leggur áherslu á alþjóðleg hlutabréf og sérstakt tillit er tekið til UFS-þátta í fjárfestingum sjóðsins.

Þá var aðferðafræði LGT CP við samþættingu UFS-þátta kynnt starfsfólki Landsbankans og sjóðstjórum Landsbréfa á sérstöku námskeiði.

Fleiri viðskiptavinir í lífeyrissparnaði

Nýjum viðskiptavinum í lífeyrissparnaði hélt áfram að fjölga á árinu og var aukningin um 6% frá fyrra ári. Áfram var lögð áhersla á að bæta þjónustu við viðskiptavini m.a. með nýjungum í sjálfsafgreiðslu. Einn af sigrum ársins 2023 var uppfærsla á lífeyrissparnaði í appinu sem felur í sér breytta framsetningu á yfirliti og færslum ásamt tveimur nýjum síðum sem sýna nánari upplýsingar um þróun inneignar á skyldu- og viðbótarlífeyrissparnaði.  

Breytingar á réttindatöflum og samþykktum Íslenska lífeyrissjóðsins tóku gildi 1. janúar 2023 og endurspegla nýjar dánar- og eftirlifendatöflur sem gefnar voru út af fjármála- og efnahagsráðuneytinu í lok árs 2021. Töflurnar byggja á tillögum Félags íslenskra tryggingarstærðfræðinga. Grundvallarbreyting frá fyrra reiknigrundvelli er að lífslíkur eru nú taldar mismunandi eftir fæðingarári. Þar sem gert er ráð fyrir að sjóðurinn muni greiða lífeyri lengur til þeirra sem yngri eru fer réttindaöflun lækkandi með hækkun fæðingarárs.

Helstu breytingar á samþykktum sjóðsins lúta að því að samsetning iðgjalds sem greitt er í skyldulífeyrissparnað breytist þar sem hlutur samtryggingar í öllum útgreiðsluleiðum hækkar.

Fólk á hjóli

Blandaðir sjóðir í fararbroddi

Rekstur Landsbréfa hf., dótturfélags bankans, gekk vel á árinu 2023, þrátt fyrir krefjandi aðstæður á mörkuðum og þá einkum innanlands framan af ári. Verðbólga fór vaxandi á árinu og vextir hækkuðu umtalsvert. Síðustu vikur ársins tók að rofa til á mörkuðum, þar sem væntingar voru um  vaxtahækkunarferli væri að ljúka auk þess sem fjárfestar töldu sig hafa betri sýn á stöðu tveggja stærstu félaga í kauphöllinni, Marel og Alvotech, en nokkur óvissa hafði verið tengd þeim félögum framan af ári.

Rekstur Landsbréfa er í grófum dráttum tvíþættur, þ.e. sjóðastýring og svo eignastýring. Á sviði sjóðastýringar má segja að ávöxtun sjóða Landsbréfa hafi verið góð með tilliti til markaðsaðstæðna og eins í samanburði við samkeppnisaðila. Skuldabréfasjóðir skiluðu góðri ávöxtun á árinu og sömu sögu má segja um erlenda hlutabréfasjóði Landsbréfa á meðan ávöxtun á innlendum hlutabréfamarkaði var síðri. Þrátt fyrir það skiluðu hlutabréfasjóðir Landsbréfa góðum árangri í samanburði við samkeppnisaðila.

Blandaðir sjóðir Landsbréfa, þ.e. sjóðir sem fjárfesta bæði í innlendum og erlendum hlutabréfum og skuldabréfum, skiluðu mjög góðum árangri á árinu og voru í fararbroddi á íslenskum sjóðamarkaði.

Landsbréf ráku í árslok alls 41 sjóð, bæði verðbréfasjóði og sérhæfða sjóði. Sjóðaframboð Landsbréfa er mjög breitt og þar er hægt að finna fjárfestingarkosti sem henta langflestum fjárfestum.

Á árinu voru tveir nýir sjóðir stofnaðir, framtakssjóðurinn FW Horn slhf. og Landsbréf - Eignadreifing varfærin hs. sem er sérhæfður sjóður fyrir almenna fjárfesta sem gert er ráð fyrir að komi í sölu á fyrsta fjórðungi 2024.

Þessu til viðbótar tóku Landsbréf hf. á árinu yfir rekstur framtakssjóðsins TF II slhf. að beiðni hluthafa, en hann hafði áður verið rekinn af öðru rekstrarfélagi.  Ávöxtun á eignasöfnum í eignastýringu var einnig góð. Eignastýring Landsbréfa sinnir eingöngu eignastýringarverkefnum fyrir viðskiptivini Landsbankans, en þar á meðal eru lífeyrissjóðir í rekstri bankans.

Það er gömul saga og ný að virk og ábyrg stýring með góðri eignadreifingu skiptir miklu máli við ávöxtun fjármuna. Þar eru Landsbréf í fararbroddi og starfsfólk félagsins leggur metnað sinn í að standa undir því trausti sem þúsundir sjóðfélaga hafa sýnt Landsbréfum með því að fjárfesta í sjóðum félagsins.

Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur