Styrkur stuðningur og nýjar lausnir fyrir fyrirtæki

Aldrei hafa fleiri fyrirtæki komið í viðskipti við Landsbankann en á árinu 2023. Við héldum áfram að styðja við öflugt atvinnulíf með öruggri fjármögnun og nýjum stafrænum lausnum. Útlánasafn bankans til fyrirtækja stækkaði um 7,7% á árinu 2023.

Maður

Árið 2023 hófu 3.500 lögaðilar viðskipti, bæði nýir og gamalgrónir. Þar af eru einyrkjar 1.400 talsins.

Þjónustuframboð til fyrirtækja hefur aukist og við leggjum okkur fram við að bjóða einfalda og aðgengilega fjármálaþjónustu, alla á einum stað. Viðskiptavinir okkar stofnuðu fleiri bankareikninga en nokkru sinni fyrr, 38% fleiri en árið á undan, og voru 83% nýrra bankareikninga fyrirtækja stofnaðir í sjálfsafgreiðslu.

Árið 2023 jukust útlán Landsbankans til fyrirtækja um 63 milljarða króna, en vegna gengisáhrifa að fjárhæð 5,5 milljarð króna er heildaraukning um 58 milljarða króna, sem jafngildir 7,7% útlánavexti.

Mestur var vöxtur í fasteignafjármögnun þar sem við vorum sem fyrr umsvifamikil í fjármögnun íbúðabyggingar. Þannig lögðum við okkar af mörkum til að stuðla að auknu framboði á nýju húsnæði fyrir stækkandi samfélag. 

Árið var það stærsta hingað til í útlánum til bíla- og tækjakaupa og var fjármögnun vistvænna bifreiða áberandi.

Markaðshlutdeild bankans á meðal fyrirtækja sem skila ársreikningi var 32,8% og hlutdeild okkar í heildarútlánum til fyrirtækja er um 40%.

Greiðsla

Færsluhirðing

Landsbankinn hleypti af stokkunum eigin færsluhirðingu í febrúar. Með því var þjónusta við fyrirtæki í viðskiptum við bankann aukin til muna og fjölbreytni aukin í starfsemi bankans.

Færsluhirðing Landsbankans tekur við greiðslum í posum og á netinu, styður Apple Pay og Google Pay og býður upp á trausta uppgjörstíma og hentug uppgjörstímabil. Kerfið býður upp á samþættingu posa og netverslunar sem veitir tækifæri til að bæta upplifun viðskiptavina, tengja vildarkerfi og auka tryggð.

Öflugt og öruggt greiðslumiðlunarkerfið býður upp á ýmsa möguleika sem gera reksturinn bæði einfaldari og þægilegri. Nú geta söluaðilar í viðskiptum við bankann haft alla greiðsluþjónustu á einum stað sem skilar sér í betri yfirsýn og hagræðingu í rekstri.

Fljúgandi byrjun hjá færsluhirðingu

Frá því að færsluhirðing hófst á vegum Landsbankans hefur viðskiptavinum fjölgað um allt land og virkir viðskiptavinir eru nú í öllum landshlutum. Við höfum lagt áherslu á þjónustu við lítil og meðalstór fyrirtæki til að byrja með og viðtökur hafa farið fram úr væntingum.

Í færsluhirðingu sem öðru þjónustuframboði leggur Landsbankinn áherslu á að bjóða tæknilega sterka lausn sem eykur sjálfvirkni og gerir fyrirtækjum og þjónustuaðilum fyrirtækja einfalt fyrir þegar kemur að því að tengja greiðslulausnir við kerfi eða aðrar tæknilausnir.

Jákvæðar horfur í sjávarútvegi

Árið 2023 var ár áskorana í sjávarútvegi. Erfiðar aðstæður á mörkuðum erlendis og samdráttur í loðnuveiðum leiddu til lakari afkomu greinarinnar í heild miðað við metárið 2022.

Horfur í sjávarútvegi eru fremur góðar þrátt fyrir erfitt efnahagsástand og minnkandi kaupmátt í helstu viðskiptalöndum okkar, sem kemur til með að hafa áhrif á verð og eftirspurn. Gott ástand er á helstu fiskistofnum og veiðar og vinnsla ganga vel.

Umfang laxeldis í sjó hefur farið vaxandi undanfarin ár. Eldisfyrirtæki tókust á við vaxtaverki sem fylgdu uppbyggingunni, svo sem sjúkdóma, laxasleppingu og tjón vegna veðurs. Þetta hefur leitt til sveiflukenndrar afkomu og orðstír fyrirtækjanna hefur beðið hnekki. Fram undan er áframhaldandi uppbygging þar sem miklu mun skipta hvernig fram verður haldið.

Sem svar við þessum áskorunum hefur landeldi á laxi vaxið fiskur um hrygg og stór áform eru um landeldi, einkum á Reykjanesi og í Ölfusi. Landeldi felur í sér miklar áskoranir enda reynslan ákaflega takmörkuð.

Stefna Landsbankans er að vera eftir sem áður leiðandi í fjármögnun í íslenskum sjávarútvegi. Lán til sjávarútvegs eru um 23% af lánasafni bankans til fyrirtækja og markaðshlutdeild í útlánum er um 35%. Hlutdeild bankans hefur farið vaxandi undanfarin misseri vegna betri sam­keppnis­stöðu. Stefnan er að auka hlutfall sjávarútvegs í lánasafni bankans til fyrirtækja og halda markaðshlutdeild þannig að útlán til greinarinnar aukist samhliða nýjum fjárfestingum.

Ferðamenn við Geysi
Fjöldi ferðamanna og spá til 2026
2019 2.013.200
2020 486.308
2021 687.789
2022 1.696.785
2023 2.224.000
2024 2.300.000*
2025 2.400.000*
2026 2.500.000*
*Spá Hagfræðideildar Landsbankans

Frábært ár í ferðaþjónustu

Ársins 2023 verður minnst sem eins af betri árum í ferðaþjónustunni. Heildarfjöldi ferðamanna var um 2,2 milljónir, sá næstmesti frá byrjun, en fjöldi gistinátta var sá mesti í sögunni. Nýting hjá flugfélögum, hótelum og bílaleigum var með allra besta móti og víða uppselt yfir sumarmánuðina. Haustið fór vel af stað en jarðhræringar á Reykjanesi sköpuðu óvissu.

Afkoman í greininni tók stakkaskiptum, en eftir mjög erfið ár í heimsfaraldrinum og í kjölfar hans hefur orðið mikill viðsnúningur til hins betra. Ársreikningar liggja almennt ekki fyrir en gera má ráð fyrir að afkoma ferðaþjónustunnar hafi verið með besta móti árið 2023 og horfur eru góðar. Áframhaldandi vöxtur kallar á frekari fjárfestingar og ætlar Landsbankinn hér eftir sem hingað til að vera virkur þátttakandi í þeim verkefnum.

Útlitið er bjart en öllum vexti fylgja vaxtaverkir. Mikil­vægt er að taka hæg og örugg skref í rétta átt og fara ekki of geyst. Eins og sagan hefur kennt okkur þá geta veður skipast skjótt í lofti.

Í árslok 2023 eru heildarútlán Landsbankans til ferðaþjónustu 107,9 milljarðar króna en voru 111,1 milljarður króna í árslok 2022. Áætluð markaðshlutdeild Landsbankans er 35% og er stefnan sett á að auka þá hlutdeild.

Áhersla á íbúðarhúsnæði

Eftir umsvifamikil ár á byggingarmarkaði dró heldur úr umsvifum árið 2023. Skýringanna er að leita í mikilli hækkun vaxta sem dregur úr eftirspurn. Húsnæði selst hægar en áður sem gerir verktökum erfiðara um vik að ráðast í næsta verk. Í annan stað er lóðaframboð takmarkað sem hefur einnig áhrif á nýbyggingar. Eftirspurn er enn til staðar og gera má ráð fyrir að kraftur færist í íbúðabyggingu að nýju þegar vextir lækka.

Samkvæmt mati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er árleg þörf fyrir nýjar íbúðir á bilinu 4-4.500 íbúðir næstu fimm árin. HMS gerir ráð fyrir að ríflega 3.000 nýjar íbúðir hafi komið á markaðinn á árinu 2023 en að nýjar íbúðir verði færri árið 2024. Ljóst er því að betur má ef duga skal til að mæta eftirspurn næstu ára.

Landsbankinn hefur verið leiðandi í mannvirkjafjármögnun og hyggst vera það áfram. Lögð er áhersla á fjármögnun íbúðarhúsnæðis fyrir almennan markað og leigumarkað en jafnframt skrifstofu-, verslunar- og þjónustuhúsnæði, s.s. hótel. Stærsti hluti verkefna er eðli málsins samkvæmt á höfuðborgarsvæðinu en einnig hefur verið mikill kraftur í verkefnum í nágrannasveitarfélögum.

Stór byggingarverkefni
63
verkefni
Minni byggingarverkefni
133
verkefni
Íbúðir sem við fjármögnum
3.600
íbúðir

Leiðandi í verslun og þjónustu

Bankinn var á árinu 2023 áfram leiðandi í viðskiptum við fyrirtæki í verslun og þjónustu og stóð þétt við bakið á viðskiptavinum sínum á krefjandi ári. Líkt og fyrri ár bætti bankinn við sig fjölda nýrra viðskiptavina á árinu en vann einnig áfram að spennandi verkefnum með núverandi viðskiptavinum.

Til verslunar og þjónustu telst fjölbreyttur hópur viðskiptavina á sviði smásölu, flutninga, upplýsingatækni og annarrar þjónustu. Undanfarin ár hafa miklar áskoranir mætt þessum greinum eins og breyttar innkaupa- og neysluvenjur auk hækkana á verði hráefnis erlendis frá. Almennt gekk rekstur þessara fyrirtækja vel á árinu og vel dreift lánasafn bankans til fyrirtækja í verslun og þjónustu rennir styrkum stoðum undir útlánasafn bankans til fyrirtækja.

Bíla- og tækjafjármögnun fyrirtækja

Útlán Bíla- og tækjafjármögnunar Landsbankans til kaupa á umhverfisvænni bifreiðum er áfram á góðri siglingu og telur nú tæplega helming af heildarfjárhæð lánasafnsins. Hlutfall nýrra seldra bifreiða sem ganga eingöngu fyrir rafmagni er nú um 47% og að viðbættum umhverfisvænni ökutækjum (tvíorku fólksbílum) er hlutfallið yfir 75% af öllum nýskráðum fólksbifreiðum á árinu 2023. Sú þróun mun halda áfram að endurspeglast í sífellt stærra hlutfalli af lánasafninu.

Áfram gætti mikillar útlánaaukningar til fyrirtækja í ferðaþjónustu í upphafi árs sem rekja mátti til uppsafnaðrar fjárfestingarþarfar margra ferðaþjónustufyrirtækja í kjölfar heimsfaraldurs. Fjöldi ferðamanna jókst verulega frá fyrra ári með tilheyrandi aukningu í greininni. Upp úr miðju ári fór hækkandi vaxtastig að hafa veruleg áhrif á fjárfestingar í bílum og tækjum sem dró úr útlánum til þessa málaflokks.

Heilt yfir var árið 2023 þó það öflugasta frá upphafi í útlánum Bíla- og tækjafjármögnunar og útlánavöxtur umtalsverður. Staða viðskiptavina virðist vera ágæt og vanskil eru í sögulegu lágmarki.

Samtals voru greidd út ný útlán til kaupa á bifreiðum og tækjum fyrir fyrirtæki fyrir 36,6 milljarða króna á árinu sem er 11,1% aukning frá 2022. Útlánasafn fyrirtækja hjá Bíla- og tækjafjármögnun Landsbankans stækkaði á tímabilinu um 17%, úr 37,4 mö.kr. í 43,7 ma.kr.

Meðbyr með Fyrirtækjaráðgjöf bankans

Góður gangur var í Fyrirtækjaráðgjöf bankans á árinu sem lauk mörgum vel heppnuðum verkefnum.

Í upphafi árs hafði Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans umsjón með lokuðu útboði íslenska líftæknifyrirtækisins Alvotech sem seldi hlutabréf að andvirði 137 milljónir Bandaríkjadala. Um mitt ár lauk Alvotech síðan vel heppnuðu útboði á breytanlegum skuldabréfum að andvirði um 100 milljón Bandaríkjadala í lokuðu skuldabréfaútboði og var Fyrirtækjaráðgjöf bankans einnig ráðgjafi félagsins við þá fjármögnun. Loks sá ráðgjöfin um skráninguna breytanlega skuldabréfs félagsins á First North Iceland.

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans hafði einnig umsjón með 13,7 milljarða króna hlutafjáraukningu First Water hf. sem lauk í september. Hlutafjáraukningin var með stærri hlutafjáraukningum óskráðs hlutafélags á Íslandi undanfarin ár. First Water, sem áður hét Landeldi hf., starfrækir seiðaeldisstöð við Hveragerði og áframeldisstöð við Þorlákshöfn, þar sem unnið er að uppbyggingu sjálfbærs laxeldis á landi. Með hlutafjáraukningunni er fjármögnun á uppbyggingu fyrsta áfanga landeldisstöðvar First Water tryggð og spennandi vegferð fram undan hjá félaginu.

Ráðgjöfin hafði umsjón með skráningu Amaroq Minerals á Aðalmarkað Nasdaq Iceland í september. Megináhersla Amaroq er að finna gull og aðra verðmæta málma á Suður-Grænlandi og er markmið þess að byggja upp sjálfbæra námuvinnslu í samstarfi við samfélagið á Grænlandi. Því tengdu var fjárfestadagur félagsins haldinn í nýju húsi Landsbankans á vormánuðum, sem var fjölsóttur og vel heppnaður viðburður.  

Samherji og Síldarvinnslan gengu á árinu frá kaupum Síldarvinnslunnar á helmingshlut í sölufyrirtækinu Ice Fresh Seafood. Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans var ráðgjafi Samherja í viðskiptunum.

Fyrirtækjaráðgjöf bankans hafði umsjón með gerð grunnlýsingar og útgáfuramma fyrir fasteignafélagið Kaldalón og í kjölfar þess sölu á fyrstu víxlaútgáfa félagsins undir nýjum 30 milljarða króna útgáfuramma. Með útgáfu grunnlýsingar hefur Kaldalón nú aðgang að markaðsfjármögnun og stefnir félagið á að vera reglulegur útgefandi á skuldabréfamarkaði næstu misserin.

Í desember lauk almennu hlutafjárútboði Ísfélags hf., elsta starfandi hlutafélags landsins, og var Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans einn af umsjónaraðilum útboðsins. Hlutafjárútboðið heppnaðist afar vel og bárust áskriftir frá fjárfestum að andvirði um 58 milljarðar króna sem samsvaraði tæplega fjórfaldri umframeftirspurn. Ísfélagið er þriðja skráða sjávarútvegsfyrirtækið á markaði og með tilkomu þess er nú um þriðjungur aflaheimilda í íslenskri fiskveiðilögsögu í eigu hlutafélaga sem skráð eru á Aðalmarkað Nasdaq Iceland.

Auk ofangreinds voru ýmis önnur árangursrík verkefni leidd til lykta. Það er útlit fyrir áframhaldandi góðan gang hjá Fyrirtækjaráðgjöf bankans og meðal verkefna sem nú er unnið að er sala á 35% eignarhlut Landsbankans í Keahótelum ehf.

Fólk úti í náttúru

Góður gangur hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum

Á árinu 2023 flutti Fyrirtækjamiðstöð Landsbankans úr Borgartúni 33 í Reykjastræti 6. Á sama tíma var nafni einingarinnar breytt í Lítil og meðalstór fyrirtæki. Í dag er því allt Fyrirtækjasvið Landsbankans á sama stað en þó eru þrír fyrirtækjaráðgjafar áfram staðsettir í útibúi bankans í Borgartúni 33 og taka þar á móti viðskiptavinum.

Á árinu voru líkt og árið áður flest ný útlán til lítilla og meðalstórra fyrirtækja til byggingar­fyrirtækja, í fasteignatengd verkefni og til ferðaþjónustu.

Undanfarin ár hefur gengið vel hjá litlum og meðalstórum byggingarfyrirtækjum líkt og hjá þeim stóru. Aukin eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði og hækkun fasteignaverðs dreif útlánaaukningu til þessara félaga. Þegar líða tók á árið 2023 fóru hækkandi vextir að segja til sín og aðeins fór að bera á samdrætti í sölu íbúða. Salan fór þó aftur í gang þegar reglur um hlutdeildarlán voru rýmkaðar.

Hækkandi vextir hafa einnig valdið því að sum lítil fasteignafélög eru komin í vandræði þar sem leigutekjur dekka ekki lengur afborganir af lánum. Það má yfirleitt leysa með því að færa lán úr óverðtryggðum lánum yfir í verðtryggð þar sem langflestir voru með óverðtryggð lán. Sem betur fer eru flestir með verðtryggða leigusamninga á móti.

Mikill fjöldi ferðamanna hefur komið til landsins á árinu og almennt gengur vel hjá litlum ferðaþjónustufyrirtækjum.

Markmið okkar er að veita litlum og meðalstórum fyrirtækjum framúrskarandi þjónustu. Við leggjum metnað okkar í að tryggja að viðskiptavinir upplifi áfram persónulega þjónustu á sama tíma og við höfum aukið tækifæri þeirra til sjálfsafgreiðslu til muna með frábærum tæknilausnum.

Öll fyrirtæki sem koma í viðskipti við Landsbankann fá tölvupóst þar sem þau eru boðin velkomin í viðskipti og fá grunnupplýsingar um það sem bankinn hefur upp á að bjóða. Á árinu var einnig farið af stað með verkefni þar sem hringt er í nýja viðskiptavini og þeim veitt heildstæð ráðgjöf um þjónustu bankans, auk þess sem þeir eru boðnir velkomnir í viðskipti. Þessi símtöl hafa gefið góða raun og viðskiptavinir sem fá slíka ráðgjöf verða fyrr virkir í viðskiptum og nýta fleiri vörur bankans.

Sjálfbærnimerki Landsbankans rennur sitt skeið

Ekki verða gefin út fleiri sjálfbærnimerki á vegum Landsbankans. Sjálfbærnimerki Landsbankans var sett á laggirnar árið 2021 til þess að gefa fyrirtækjum sem fengu fjármögnun í verkefni sem féllu undir skilgreiningar sjálfbærrar fjármálaumgjarðar bankans kost á að miðla því með tryggum hætti.

Sérstaða merkisins er sú að sjálfbær fjármálaumgjörð Landsbankans er tekin út af þriðja aðila sem staðfestir (e. second-party opinion) að umgjörðin sé í samræmi við viðurkenndar leiðbeiningar ICMA (e. International Capital Market Association) og kröfur markaðarins.

Síðan hefur flokkunarkerfi Evrópusambandsins um sjálfbær verkefni (e. EU Taxonomy) verið innleitt sem skilgreinir á samræmdan máta hvað geti talist vinna að sjálfbærni. Til grundvallar sjálfbærnimerki Landsbankans liggja víðtækari skilgreiningar en felast í flokkunarkerfinu. Landsbankinn hefur verið virkur þátttakandi í samræmdum skilgreiningum og mælingum á sjálfbærni og til þess að valda ekki misskilningi hefur verið tekin ákvörðun að hætta útgáfu sjálfbærnimerkisins. 

Maður í síma

Fyrirtæki tileinka sér stafrænar lausnir

Ein af nýjungum ársins í Landsbankaappinu er möguleikinn á að loka bankareikningi. Sé inneign á reikningi, velur viðskiptavinur annan reikning til að ráðstafa eftirstöðvunum inn á. Sama gildir um skuld, en þá þarf að velja uppgjörsreikning til að gera upp skuldina. Allt sem kann að vera tengt bankareikningnum hættir að virka við lokun, svo sem debetkort. Sömuleiðis falla framvirkar greiðslur og reglulegar millifærslur niður.

Framtakinu var samstundis afar vel tekið enda hagræðið ótvírætt. Um 60% lokana bankareikninga eru núorðið framkvæmdar af viðskiptavinum á eigin spýtur. Við erum fyrsti bankinn til að veita þessa þjónustu í sjálfsafgreiðslu og kemur nýjungin í framhaldi af stofnun bankareikninga í sjálfsafgreiðslu sem við hófum að bjóða upp á árið 2020. 

Fyrirtæki geta nú stofnað reglulegar millifærslur í Landsbankaappinu. Greiðandinn velur milli þess að greiðslurnar séu tímabundnar eða til langframa. Reglulegar greiðslur nýtast vel í fjárstýringu milli eigin bankareikninga eða milli fyrirtækja innan samstæðu.

Notkun fyrirtækja á Landsbankaappinu jókst um rúmlega þriðjung á síðasta ári á meðal stærri fyrirtækja og um 43% á meðal smærri fyrirtækja. Notkun á B2B-kerfi jókst um 12% frá árinu 2022 þegar litið er til fjölda aðgerða. B2B-kerfi Landsbankans er öflug lausn á sviði rafrænna viðskipta sem styttir vinnuferla og eykur hagræði í bókhaldi. B2B veitir rauntímasýn í bók­haldi sem eykur möguleika notanda að taka upp­lýstar ákvarðanir með hliðsjón af sem allra nýjustu gögnunum hverju sinni.

Kostir B2B eru meðal annars:

Minni gagnainnsláttur og minni villuhætta
Styttri aðgerðatími og vinnuferlar
Aukið hagræði í bókhaldi og uppgjöri er flýtt
Einfaldara bókunar- og staðfestingarferli
Betri nýting mannauðs, hagkvæmari tímaráðstöfun og aukin afköst
Með fullnýttum sjálfvirkniaðgerðum má bæta fjárstreymið

Nú geta fyrirtæki framkvæmt erlendar greiðslur í Landsbankaappinu 

Við erum fyrsti bankinn til að bjóða fyrirtækjum erlendar greiðslur í appi. Í leiðinni kynntum við til sögunnar nýja framsetningu á viðtakendum og nýtt aðgerðaflæði við framkvæmd erlendra greiðslna. Þetta er vísirinn að fjölmörgum áframhaldandi breytingum á appi og netbanka fyrirtækja á árinu 2024.  

Enn markvissara eftirlit með erlendum greiðslum 

Við innleiddum nýtt greiðslueftirlitskerfi frá SWIFT sem byggir á rauntímavöktun aðgerða, hindrun greiðsluaðgerða og daglegum skýrslum til starfsfólks bankans. Kerfið auðveldar okkur að afstýra fjársvikum. Það beitir frávikagreiningu byggðri á samanburði sögulegra gagna við rauntímagögn. Á árinu innleiddum við enn fremur nýtt kerfi fyrir viðurlagaskimun (e. sanction screening), sem kannar m.a. hvort greiðslufyrirmæli uppfylli erlent regluverk og alþjóðlega staðla. Bæði þessi kerfi eru til viðbótar öðrum kerfum bankans á þessu sviði. Þetta nýja fyrirkomulag minnkar villuhættu og gerir eftirlitið enn markvissara. 

Erlendum greiðslum fyrirtækja fjölgar um 7% milli ára 

Fyrirtækjum sem nýta erlendar greiðslur fjölgar um 4% milli ára, en mest er aukningin meðal nýstofnaðra og annarra smærri fyrirtækja. Þá fjölgaði greiðslum til útlanda um 7% milli ára. 

Enn gilda viðskiptaþvinganir á rússneska banka vegna innrásarinnar í Úkraínu. Þvinganirnar hafa óveruleg áhrif á greiðslur frá íslenskum fyrirtækjum þar sem umfang þeirra er almennt lítið gagnvart viðkomandi bönkum. 

Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur