Fyrirtækjum í alhliða viðskiptum hefur fjölgað með tilkomu færsluhirðingar og er 33% af fyrirtækjum sem koma í færsluhirðingu nýir viðskiptavinir bankans.
Við stofnun deildarinnar þurfti að ráðast í breytingu á ýmsum kerfum og innviðum til að styðja við mikinn vöxt vörunnar. Okkur hefur tekist að byggja upp öflugt teymi sem býr yfir mikilli reynslu í færsluhirðingu og hefur vaxið og dafnað á árinu. Þessa yfirgripsmiklu reynslu nýtum við til þess að bjóða upp á mikla ráðgjöf í störfum okkar, enda umhverfi færsluhirðingar tæknilegt og oft á tíðum flókið.
Starfsemi færsluhirðingar er um margt frábrugðin annarri starfsemi á Fyrirtækjasviði bankans þar sem um er að ræða sölu á vöru og þjónustu auk þess sem framboð vörunnar byggist á samstarfi við erlenda sem innlenda samstarfsaðila.
Það sem er skemmtilegast við færsluhirðinguna er að hún er nýsköpun. Öll svið bankans hafa komið að verkefninu með einum eða öðrum hætti. Útkoman er vara og þjónusta sem styrkir framboð bankans í heild sinni þar sem öll greiðslutengd þjónustu er nú á einum stað.
Viðskiptavinir geta nú lesið öll helstu gögn úr færsluhirðingu beint inn í bókhald með B2B-kerfi Landsbankans. Um er að ræða bæði uppgjörsyfirlit og færsluyfirlit sem tryggja gott utanumhald í bókhaldi. Í þeim eru tæmandi upplýsingar á borð við samningsnúmer, færslutegundir, dagsetningar, myntir og aðrar mikilvægustu upplýsingar.
Vefþjónustan einfaldar til mikilla muna afstemmingu bókhalds og sparar mörg handtök. Með gögnunum geta viðskiptavinir líka byggt eigin stjórnendaskýrslur og tölfræðigreiningar, útbúið til dæmis söluyfirlit sem sýnir þróun milli tímabila, bæði í tölulegum töflum og með myndrænum hætti.
Gögnin má nota til kennitölugreininga, s.s. greininga á veltu á sölustað, sölufjölda, meðalfjárhæð, frávikagreiningar, árstíðasveiflur og þannig má áfram telja. Bókhaldskerfin samstilla sig sjálf við bankann eins oft og þurfa þykir. Eins geta viðskiptavinir útbúið eigin leitarvélar með þessum sömu vefþjónustum. Við erum fyrsti bankinn sem veitir þessa þjónustu hérlendis.“