Helstu atriði ársreiknings
Hagnaður Landsbankans á árinu 2024 nam 37,5 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 33,2 milljarða króna á árinu 2023. Arðsemi eigin fjár var 12,1% á árinu 2024 eftir skatta, samanborið við 11,6% arðsemi árið áður.

Kennitölur | 31.12.2024 | 31.12.2023 |
---|---|---|
Hagnaður ársins | 37.508 | 33.167 |
Hreinar vaxtatekjur | 57.197 | 57.559 |
Hreinar rekstrartekjur | 79.703 | 73.848 |
Arðsemi eigin fjár eftir skatta | 12,1% | 11,6% |
Eiginfjárhlutfall alls | 24,3% | 23,6% |
Samtals MREL fjármögnun | 38,2% | 37,9% |
Samtals undirskipuð MREL fjármögnun | 25,5% | 23,6% |
Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna | 2,7% | 3,0% |
Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) | 32,4% | 33,7% |
Heildarlausafjárþekja | 164% | 181% |
Lausafjárþekja EUR (LCR FX til og með 2022) | 951% | 1499% |
Heildareignir | 2.181.759 | 1.960.776 |
Hlutfall útlána til viðskiptamanna af innlánum | 147,1% | 155,5% |
Meðaltal ársverka | 811 | 849 |
Ársverk í árslok | 822 | 817 |
Allar upphæðir eru í milljónum króna |
Landsbankinn náði öllum sínum helstu markmiðum á árinu 2024, hvort sem þau lúta að þjónustu við viðskiptavini, fjárhag eða rekstri. Hagnaður nam 10,6 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi og 37,5 milljörðum króna yfir árið í heild. Arðsemi eiginfjár á ársgrundvelli var 12,1% sem er umfram markmið bankans. Fjórði ársfjórðungur var einn sá besti í sögu bankans.
Á síðustu tíu árum hafa heildareignir bankans aukist um 1.083 milljarða króna og eigið fé um 74 milljarða króna, samhliða arðgreiðslum til eigenda samtals að upphæð 192 milljarðar króna. Kostnaður við rekstur bankans hefur verið stöðugur, stöðugildum hefur fækkað samhliða aukinni tæknivæðingu og rekstrarkostnaður sem hlutfall af stöðu heildareigna, sem er algengur mælikvarði á hagkvæmni banka, hefur aldrei verið lægri.
Eiginfjárhlutfall bankans í lok árs 2024 var 24,3% en var 23,6% í lok árs 2023. Bankinn er með sterka eiginfjárstöðu og er eiginfjárhlutfall 390 punktum yfir 20,4% kröfu eftirlitsaðila.
Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) á árinu 2024 var 32,4%, samanborið við 33,7% á árinu 2023.
Á árinu 2024 var vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna 2,7% samanborið við 3,0% árið áður.
Hreinar vaxtatekjur námu 57,2 milljörðum króna samanborið við 57,6 milljarða króna 2023.
Hreinar þjónustutekjur Landsbankans námu 11,4 milljörðum króna árið 2024 samanborið við 11,2 milljarða króna á árinu 2023. Aðrar rekstrartekjur voru 11,1 milljarður króna samanborið við 5,1 milljarð króna á árinu 2023.
Rekstrarreikningur
Hagnaður Landsbankans á árinu 2024 nam 37,5 milljörðum króna eftir skatta.
Hreinar vaxtatekjur námu 57,2 milljörðum króna á árinu 2024 samanborið við 57,6 milljarða króna árið 2023. Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna lækkar úr 3,0% í 2,7%.
Hreinar þjónustutekjur námu 11,4 milljörðum króna á árinu 2024 samanborið við 11,2 milljarða króna á árinu 2023.
Hrein virðisrýrnun fjáreigna á árinu var neikvæð um 2,8 milljarða króna á árinu. Stór hluti er tengdur náttúruhamförum í Grindavík. Vanskil eru enn lág.
Aðrar rekstrartekjur voru um 11,1 milljarður króna á árinu 2024 samanborið við 5,1 milljarð króna árið 2023 en þar vegur þyngst hækkun á gangvirði hlutabréfa.
Rekstrarreikningur | 2024 | 2023 | Breyting | % |
---|---|---|---|---|
Hreinar vaxtatekjur | 57.197 | 57.559 | -362 | -1% |
Hreinar þjónustutekjur | 11.405 | 11.153 | 252 | 2% |
Hrein virðisbreyting | -2.772 | -3.120 | 348 | -11% |
Aðrar rekstrartekjur og (gjöld) | 13.873 | 8.256 | 5.617 | 68% |
Rekstrartekjur samtals | 79.703 | 73.848 | 5.855 | 8% |
Laun og launatengd gjöld | -16.534 | -15.866 | -668 | 4% |
Annar rekstrarkostnaður | -10.202 | -10.092 | -110 | 1% |
Skattur á heildarskuldir fjármálafyrirtækja | -2.597 | -2.290 | -307 | 13% |
Rekstrargjöld samtals | -29.333 | -28.248 | -1.085 | 4% |
Hagnaður fyrir skatta | 50.370 | 45.600 | 4,770 | 10% |
Tekjuskattur | -12.862 | -12.433 | -429 | 3% |
Hagnaður ársins | 37.508 | 33.167 | 4.341 | 13% |
Allar upphæðir eru í milljónum króna |
Rekstrargjöld á árinu 2024 voru 29,3 milljarðar króna samanborið við 28,2 milljarða króna á árinu 2023. Þar af voru laun og launatengd gjöld 16,5 milljarðar króna og aukast um 4,2% á milli ára, einkum vegna samningsbundinna hækkana. Annar rekstrarkostnaður var 10,2 milljarðar króna á árinu 2024 í samanburði við 10,1 milljarð króna á árinu 2023.
Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) fyrir árið reiknast 32,4%. K/T hlutfallið sýnir hlutfall rekstrarkostnaðar bankans á móti hreinum rekstrartekjum, að undanskildum virðisbreytingum fjáreigna. Stöðugildum í samstæðu bankans fjölgaði um 5 á árinu 2024, úr 817 í 822.
Efnahagsreikningur
Heildareignir Landsbankans námu 2.181,8 milljörðum króna í árslok 2024 og stækkaði efnahagsreikningurinn um 11%, eða 221 milljarð, á milli ára.
Eignir (m.kr.) | 31.12.2024 | 31.12.2023 | Breyting | % |
---|---|---|---|---|
Sjóður og innstæður í Seðlabanka | 129.981 | 75.350 | 54.631 | 73% |
Markaðsskuldabréf | 139.104 | 148.182 | -9.078 | -6% |
Hlutabréf | 32.644 | 19.012 | 13.632 | 72% |
Útlán og kröfur á lánastofnanir | 39.346 | 54.101 | -14.755 | -27% |
Útlán og kröfur á viðskiptavini | 1.807.437 | 1.630.894 | 176.543 | 11% |
Aðrar eignir | 33.247 | 33.237 | 10 | 0% |
Samtals | 2.181.759 | 1.960.776 | 220.983 | 11% |
Helsta breyting á eignahlið Landsbankans á árinu 2024 var kröftugur útlánavöxtur en útlán til viðskiptavina jukust um 11%, eða um 176,5 milljarða króna. Útlán til fyrirtækja jukust um 109 milljarða króna og útlán til einstaklinga um 68 milljarða króna. Verðtryggð lán aukast um 208 milljarða króna.
Sjóður og innstæður í Seðlabanka hækkuðu um 54,6 milljarða króna á milli ára og námu í árslok 2024 alls 130 milljörðum króna.
Hlutabréfaeignir bankans jukust um 13,6 milljarða króna á árinu. Útlán og kröfur á lánastofnanir lækkuðu um 14,8 milljarða á árinu og voru í árslok 39,3 milljarðar króna.
Skuldir og eigið fé (m.kr.) | 31.12.2024 | 31.12.2023 | Breyting | % |
---|---|---|---|---|
Skuldir við lánastofnanir og Seðlabanka | 11.989 | 29.968 | -17.979 | -60% |
Innlán frá viðskiptavinum | 1.228.444 | 1.048.537 | 179.907 | 17% |
Lántaka | 529.150 | 513.687 | 15.463 | 3% |
Aðrar skuldir | 47.538 | 44.654 | 2.884 | 6% |
Víkjandi lántaka | 39.989 | 20.176 | 19.813 | 98% |
Eigið fé | 324.649 | 303.754 | 20.895 | 7% |
Samtals | 2.181.759 | 1.960.776 | 220.983 | 11% |
Innlán frá viðskiptavinum eru stærsti hluti fjármögnunar bankans. Heildarinnlán námu 1.228,4 milljörðum króna í lok árs 2024 og jukust um 180 milljarða króna, eða 17% á milli ára. Innlán frá heimilum jukust um 97 milljarða á árinu 2024.
Innlánin eru að miklu leyti óverðtryggð og óbundin. Innlán frá fjármálafyrirtækjum lækkuðu á árinu um 18 milljarða og voru í árslok 12 milljarðar króna.
Fjármögnun gekk vel á árinu og aukið hefur verið við fjölbreytni í lántöku. Heildarskuldabréfaútgáfa jókst um 35 milljarða króna á árinu 2024.
Í apríl 2024 tilkynnti alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings (S&P) um hækkun á lánshæfiseinkunn Landsbankans. Hækkunin nam einu þrepi og hækkaði lánshæfismatið úr BBB/A-2 með jákvæðum horfum í BBB+/A-2 með stöðugum horfum. Í tilkynningu S&P kom m.a. fram að matið endurspegli væntingar um að Landsbankinn muni viðhalda leiðandi stöðu á íslenskum markaði og reksturinn verði áfram traustur. S&P staðfesti lánshæfismat bankans í nóvember 2024, ásamt því að breyta horfum úr stöðugum í jákvæðar. Lánshæfiseinkunn Landsbankans er því BBB+/A-2 með jákvæðum horfum. Bætt lánshæfi styrkir enn frekar aðgengi bankans að innlendum og erlendum fjármálamörkuðum.
Markaðsfjármögnun bankans hefur einkum verið í formi alþjóðlegrar EMTN-skuldabréfaútgáfu og útgáfu sértryggðra skuldabréfa á innlendum og erlendum markaði. Bókfært virði þessarar fjármögnunar hækkaði um 15,5 milljarða króna á árinu 2024. Í árslok 2024 námu óveðtryggðar erlendar skuldabréfaútgáfur í evrum, norskum og sænskum krónum samtals 227,6 milljörðum króna. Skuldabréfaútgáfa bankans á erlendum mörkuðum gekk vel á árinu og endurspegla eftirspurn og útgáfukjör þeirra gott aðgengi bankans að erlendum fjármagnsmörkuðum.
Eigið fé Landsbankans í árslok 2024 var 324,6 milljarðar króna samanborið við 303,8 milljarða króna í árslok 2023. Heildareignir námu 2.181,8 milljörðum króna í árslok 2024, og stækkaði efnahagsreikningurinn um 11%, eða um 221 milljarða króna á árinu.
Aðalfundur Landsbankans 2024, sem haldinn var 19. apríl 2024, samþykkti tillögu bankaráðs um að greiða arð til hluthafa vegna reikningsársins 2023 sem næmi 0,70 krónum á hlut og að arðgreiðslan yrði tvískipt. Fyrri arðgreiðslan, 0,35 krónur á hlut, var greidd til hluthafa þann 24. apríl 2024 en sú síðari, 0,35 krónur á hlut, var greidd þann 16. október 2024. Arðgreiðslurnar námu í heild 16,5 milljörðum króna og jafngilda um 50% af hagnaði ársins 2023.
Aðalfundur bankans 2024 endurnýjaði heimild bankans til kaupa á eigin hlutum sem næmu allt að 10% af nafnverði hlutafjár Landsbankans. Markmiðið með endurkaupunum er að lækka eigið fé bankans og gefa hluthöfum um leið tækifæri til að selja hluti sína með gegnsæjum hætti. Heimildin gildir fram að aðalfundi á árinu 2025.
Bankaráð hyggst leggja til við aðalfund Landsbankans 2025, sem er á dagskrá þann 19. mars nk., að greiddur verði arður til hluthafa í samræmi við arðgreiðslustefnu bankans sem nemur um 50% af hagnaði ársins 2024. Við útreikning á eiginfjárhlutföllum samstæðunnar í lok árs 2024 hefur þegar verið tekið tillit til þessarar fyrirsjáanlegu arðsúthlutunar.
Í október 2024 birti skilavald Seðlabanka Íslands nýjustu ákvörðun sína vegna lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar (MREL) fyrir Landsbankann. MREL-ákvörðun skilavaldsins felur í sér að bankinn þarf ávallt að uppfylla 30,9% MREL-kröfu, sem hlutfall af áhættugrunni bankans.
Markmið bankans er að viðhalda eiginfjárhlutfalli alls yfir 22,0% á hverjum tíma og vera í hæsta flokki fyrir áhættuvegið eiginfjárhlutfall, eins og það er ákvarðað og metið af viðeigandi lánshæfismatsfyrirtækjum.
Lausafjárstaða
Lausafjár- og fjármögnunarhlutföll eru vel umfram lögbundnar kröfur og innri áhættumörk bankans. Lausafjárstaða bankans er sterk í lok árs 2024. Hlutfall heildarlausafjárþekju var 164%, 133% í íslenskum krónum og 951% í evrum. Lausafjáreignir námu 303,5 milljörðum króna í lok árs 2024.
Lausafjárforði (m. kr.) | Lausafjárvirði 31.12.2024 | Lausafjárvirði 31.12.2023 | Breyting | % |
---|---|---|---|---|
Sjóður og innstæður í Seðlabanka | 123.972 | 73.451 | 50.521 | 68,8% |
Markaðsskuldabréf og önnur verðbréf veðhæf hjá Seðlabanka Íslands | 54.348 | 74.450 | -20.102 | -27,0% |
Erlend ríkisskuldabréf með 0% áhættuvog | 85.313 | 75.457 | 9.856 | 13,1% |
Hágæða lausafjáreignir | 263.633 | 223.358 | 40.275 | 18,0% |
Útlán og kröfur á fjármálafyrirtæki | 39.824 | 54.316 | -14.492 | -26,7% |
Heildarlausafjárforði | 303.457 | 277.674 | 25.783 | 9,3% |
Meginmælikvarði lausafjáráhættu til skamms tíma er lausafjárþekjuhlutfall (e. liquidity coverage ratio (LCR)) sem mælir hlutfall hágæða lausafjáreigna af nettó heildarútflæði á næstu 30 dögum miðað við tilteknar álagsaðstæður.
Heildarlausafjárþekja var 164% í lok árs 2024 en Seðlabankinn gerir kröfu um að hlutfallið sé að lágmarki 100%. Lausafjárþekja í evrum var á sama tíma 951% en Seðlabankinn gerir kröfu um að það hlutfall sé að lágmarki 80% fyrir evru. Lausafjárþekja í íslenskum krónum var 133% í lok árs 2024 en Seðlabankinn gerir kröfu um að hlutfallið sé 50%.
Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.