Helstu atriði ársreiknings

Hagnaður Landsbankans á árinu 2023 nam 33,2 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 17,0 milljarða króna á árinu 2022. Arðsemi eigin fjár var 11,6% á árinu 2023 eftir skatta, samanborið við 6,3% arðsemi árið áður.

Reykjastræti 6
Kennitölur31.12.202331.12.2022
Hagnaður eftir skatta33.16716.997
Hreinar vaxtatekjur57.55946.464
Hreinar rekstrartekjur73.84853.253
Arðsemi eigin fjár eftir skatta11,6%6,3%
Eiginfjárhlutfall alls23,6%24,7%
Eiginfjárgrunnur og hæfar skuldbindingar (e. MREL)37,9%40,4%
Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna3,0%2,7%
Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T)33,7%46,8%
Heildarlausafjárþekja181%134%
Lausafjárþekja EUR (LCR FX til og með 2022)1499%351%
Heildareignir1.960.7761.787.024
Hlutfall útlána til viðskiptamanna af innlánum155,5%159,6%
Meðaltal ársverka849843
Ársverk í árslok817813
Allar upphæðir eru í milljónum króna

Landsbankinn skilaði traustri afkomu á árinu 2023. Bankinn er vel fjármagnaður, kostnaðarhlutfallið er með því lægsta sem gerist í bankaþjónustu í heiminum og bankinn hefur sterka arðgreiðslugetu. Góð afkoma var af öllum þáttum starfseminnar og arðsemi eiginfjár var 11,6% sem er umfram langtíma arðsemismarkmið bankans. Hærri ávöxtun á lausafé, viðsnúningur á hlutabréfamörkuðum, útlánaaukning og breytt samsetning efnahags eru meginskýringarnar á auknum hagnaði frá fyrra ári. Það er ánægjulegt að sjá að þrátt fyrir hátt vaxtastig á landinu helst vaxtamunur heimila stöðugur.

Eiginfjárhlutfall bankans í lok árs 2023 var 23,6% en var 24,7% í lok árs 2022. Eiginfjárkrafa bankans lækkaði úr 20,7% í 20,2% frá árslokum 2022 til 2023.

Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) á árinu 2023 var 33,7%, samanborið við 46,8% á árinu 2022.

Á árinu 2023 var vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna 3,0% samanborið við 2,7% árið á undan.

Hreinar vaxtatekjur námu 57,6 milljörðum króna samanborið við 46,5 milljarða króna 2022.

Hreinar þjónustutekjur Landsbankans námu 11,2 milljörðum króna árið 2023 samanborið við 10,6 milljarða króna á árinu 2022. Aðrar rekstrartekjur voru jákvæðar um 5,1 milljarð króna samanborið við neikvæðar rekstrartekjur upp á 3,8 milljarða króna á árinu 2022.

Rekstrarreikningur

Hagnaður Landsbankans á árinu 2023 nam 33,2 milljörðum króna eftir skatta.

Hreinar vaxtatekjur námu 57,6 milljörðum króna á árinu 2023 samanborið við 46,5 milljarða króna árið 2022. Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna nam 3,0% en var 2,7% árið áður.

Hreinar þjónustutekjur námu 11,2 milljörðum króna á árinu 2023 samanborið við 10,6 milljarða króna á árinu 2022.

Hrein virðisrýrnun fjáreigna á árinu var neikvæð um 3,1 milljarð króna, þar af er 1,7 milljarða króna safnframlag vegna óvissu um fjárhagslegar afleiðingar náttúruhamfaranna á Reykjanesi. Í árslok 2022 var virðisaukning fjáreigna jákvæð upp á 2,5 milljarða króna. Breytinguna á milli ára má helst rekja til vanefnda og áðurnefndra náttúruhamfara, auk þess sem árið 2022 var virðisaukning vegna viðsnúnings á safnframlagi eftir að dregið hafði úr efnahagslegri óvissu vegna Covid-19.

Aðrar rekstrartekjur voru um 8,3 milljarðar króna á árinu 2023 samanborið við neikvæðar rekstrartekjur upp á 6,3 milljarða króna árið 2022. Þar vegur þyngst hækkun á gangvirði skráðra verðtryggðra markaðsskuldabréfa.

Rekstrarreikningur20232022Breyting%
Hreinar vaxtatekjur57.55946.46411.09524%
Hreinar þjónustutekjur11.15310.6235305%
Hrein virðisbreyting-3.1202.473-5.593-226%
Aðrar rekstrartekjur og (gjöld)8.256-6.30714.563-231%
Rekstrartekjur samtals73.84853.25320.59539%
Laun og launatengd gjöld-15.866-14.474-1.39210%
Annar rekstrarkostnaður-10.092-9.289-8039%
Skattur á heildarskuldir fjármálafyrirtækja-2.290-2.097-1939%
Rekstrargjöld samtals-28.248-25.860-2.3889%
Hagnaður fyrir skatta45.60027.39318.20766%
Tekjuskattur-12.433-10.396-2.03720%
Hagnaður ársins33.16716.99716.17095%
Allar upphæðir eru í milljónum króna

Rekstrargjöld á árinu 2023 voru 28,2 milljarðar króna samanborið við 25,9 milljarða króna á árinu 2022. Þar af voru laun og launatengd gjöld 15,9 milljarðar króna og aukast þau um 9,6% milli ára, einkum vegna samningsbundinna hækkana. Annar rekstrarkostnaður var 10,1 milljarður króna á árinu 2023 samanborið við 9,3 milljarða króna á árinu 2022.

Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) fyrir árið reiknast 33,7%. K/T hlutfallið sýnir hlutfall rekstrarkostnaðar bankans á móti hreinum rekstrartekjum, að undanskildum virðisbreytingum fjáreigna. Stöðugildum í samstæðu bankans fjölgaði um 4 á árinu 2023, úr 813 í 817.

Efnahagsreikningur

Heildareignir Landsbankans námu 1.960,8 milljörðum króna í árslok 2023 og stækkaði efnahagsreikningurinn um 9,7%, eða 173,8 milljarða króna, á milli ára.

Eignir (m.kr.)31.12.202331.12.2022Breyting%
Sjóður og innstæður í Seðlabanka75.35042.21633.13478%
Markaðsskuldabréf148.182125.26522.91718%
Hlutabréf19.01219.106-940%
Útlán og kröfur á lánastofnanir54.10128.62125.48089%
Útlán og kröfur á viðskiptavini1.630.8941.544.36086.5346%
Aðrar eignir33.23727.4565.78121%
Samtals1.960.7761.787.024173.75210%

Helstu breytingar á eignahlið Landsbankans á árinu 2023 voru að útlán til viðskiptavina jukust um 5,6%, eða um 86,5 milljarða króna. Útlán til viðskiptavina aukast um 6%, eða 87 milljarða króna. Útlán til fyrirtækja jukust um 63 milljarða króna á árinu 2023 en vegna gengisáhrifa að fjárhæð 5,5 milljarða króna er heildaraukning útlána á árinu 58 milljarðar króna. Útlán til einstaklinga jukust um 29 milljarða króna og þar af íbúðalán um 26 milljarða króna, eða um 4%.

Útlánavöxtur á árinu 2023 var hóflegur á sama tíma og vanskil og vandalán eru áfram nálægt sögulegu lágmarki.

Sjóður og innstæður í Seðlabanka hækkuðu um 33,1 milljarð króna á milli ára og námu í árslok 2023 alls 75 milljörðum króna.

Markaðsskuldabréfaeign bankans stækkaði um 22,9 milljarða króna á árinu. Útlán og kröfur á lánastofnanir hækkuðu um 25,5 milljarða króna á árinu og voru í árslok 54,1 milljarður króna.

Skuldir og eigið fé (m.kr.)31.12.202331.12.2022Breyting %
Skuldir við lánastofnanir og Seðlabanka29.9686.63423.334352%
Innlán frá viðskiptavinum1.048.537967.86380.6748%
Lántaka513.687476.86436.8238%
Aðrar skuldir44.65434.8199.83528%
Víkjandi lántaka20.17621.753-1.577-7%
Eigið fé303.754279.09124.6639%
Samtals1.960.7761.787.024173.75210%

Innlán frá viðskiptavinum eru stærsti hluti fjármögnunar bankans. Heildarinnlán námu 1.048,5 milljörðum króna í lok árs 2023 og jukust um 80,7 milljarða króna, eða 8,3%, á milli ára. Innlán frá heimilum jukust um 72 milljarða króna á árinu 2023.

Innlánin eru að miklu leyti óverðtryggð og óbundin. Innlán frá fjármálafyrirtækjum hækkuðu á árinu um 23,3 milljarða króna og voru í árslok 30,0 milljarðar króna.

Í nóvember 2023 staðfesti S&P óbreytta lánshæfiseinkunn BBB/A-2 fyrir Landsbankann en horfur breytast úr stöðugum í jákvæðar. Jákvæðar horfur endurspegla væntingar S&P til þess að efnahagsleg áhætta (e. economic risk) hjá bönkum hér á landi fari minnkandi.

Markaðsfjármögnun bankans hefur einkum verið á formi alþjóðlegrar EMTN-skuldabréfaútgáfu og útgáfu sértryggðra skuldabréfa á innlendum og erlendum markaði. Bókfært virði þessarar fjármögnunar hækkaði um 34 milljarða króna á árinu 2023. Skuldabréfaútgáfa bankans á erlendum mörkuðum gekk vel á árinu og endurspeglar eftirspurn og útgáfukjör þeirra betra aðgengi bankans eftir nokkuð bakslag í aðgengi smærri útgefenda að alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum í kjölfar Covid-faraldursins.

Eigið fé Landsbankans í árslok 2023 var 303,8 milljarðar króna samanborið við 279,1 milljarð króna í árslok 2022. Heildareignir námu 1.960,8 milljörðum króna í árslok 2023 og stækkaði efnahagsreikningurinn um 9,7%, eða um 173,8 milljarða króna, á árinu.

Aðalfundur Landsbankans 2023, sem haldinn var 23. mars, samþykkti tillögu bankaráðs um að greiða arð til hluthafa vegna reikningsársins 2022 sem næmi 0,36 krónum á hlut og að arðgreiðslan yrði tvískipt. Fyrri arðgreiðslan, 0,18 krónur á hlut, var greidd til hluthafa þann 29. mars 2023 en sú síðari, 0,18 krónur á hlut, var greidd þann 20. september 2023. Arðgreiðslurnar námu í heild 8,5 milljörðum króna eða jafngildi 50% af hagnaði ársins 2022.

Aðalfundurinn 2023 endurnýjaði jafnframt heimild bankans til kaupa á allt að 10% af nafnverði hlutafjár Landsbankans. Heimildin gildir fram að aðalfundi ársins 2024.

Bankaráð hyggst leggja til við aðalfund Landsbankans 2024, sem er á dagskrá þann 20. mars næstkomandi, að greiddur verði arður til hluthafa í samræmi við arðgreiðslustefnu bankans sem nemur um 16,5 milljörðum króna. Við útreikning á eiginfjárhlutföllum samstæðunnar í lok árs 2023 hefur þegar verið tekið tillit til þessarar fyrirsjáanlegu arðsúthlutunar.

Í október 2023 birti skilavald Seðlabanka Íslands nýjustu árlegu ákvörðun sína um MREL-kröfu fyrir Landsbankann. Ákvörðunin felur í sér að bankinn þarf ávallt að viðhalda að lágmarki 21,6% MREL fjármögnun, sem hlutfall af áhættugrunni bankans. Bankinn gerir einnig ráð fyrir að skilavaldið muni, á síðari hluta ársins 2024, kynna til leiks kröfu um undirskipan, sem verði að lágmarki 13,5% af áhættugrunni bankans.

Lausafjárstaða

Lausafjár- og fjármögnunarhlutföll eru vel umfram lögbundnar kröfur og innri áhættumörk bankans. Lausafjárstaða bankans er sterk í lok árs 2023. Hlutfall heildarlausafjárþekju var 181%, 129% í íslenskum krónum og 1.499% í evrum. Lausafjáreignir námu 277,7 milljörðum króna í lok árs 2023.

Lausafjárforði (m. kr.)Lausafjárvirði 31.12.2023Lausafjárvirði 31.12.2022 Breyting%
Sjóður og innstæður í Seðlabanka73.45141.83831.61375,6%
Markaðsskuldabréf og önnur verðbréf veðhæf hjá Seðlabanka Íslands74.45075.180-730-1,0%
Erlend ríkisskuldabréf með 0% áhættuvog75.45740.06335.39488,3%
Hágæða lausafjáreignir223.358157.08166.27742,2%
Útlán og kröfur á fjármálafyrirtæki54.31628.70425.61289,2%
Heildarlausafjárforði277.674185.78591.88949,5%

Meginmælikvarði lausafjáráhættu til skamms tíma er lausafjárþekjuhlutfall (e. liquidity coverage ratio (LCR)) sem mælir hlutfall hágæða lausafjáreigna af nettó heildarútflæði á næstu 30 dögum miðað við tilteknar álagsaðstæður.

Heildarlausafjárþekja var 181% í lok árs 2023 en Seðlabankinn gerir kröfu um að hlutfallið sé að lágmarki 100%. Lausafjárþekja evru (EUR) var á sama tíma 1.499% en Seðlabankinn gerir kröfu um að það hlutfall sé að lágmarki 80% fyrir evru. Lausafjárþekja í íslenskum krónum var 129% í lok árs 2023 en Seðlabankinn gerir kröfu um að hlutfallið sé 50%.

Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur