Löggjöfin leiðir til þess að auðveldara er að bera saman sjálfbærniupplýsingar sem fyrirtæki birta, því nú eru komnar skilgreiningar sem gera þær samanburðarhæfar. Þetta kallar á aukið samtal og samstarf á milli fjármálastofnana og þeirra viðskiptavina vegna þess að til þess að ná settum markmiðum í loftslagsmálum þurfum við öll að vinna saman. Og samanburðarhæfar upplýsingar gera okkur kleift að meta hvort útlán uppfylli skilyrði flokkunarreglugerðarinnar.
Í mínu starfi hjá bankanum tek ég þátt í undirbúningi og vinn með sviðum bankans að því að innleiða þessa nýju löggjöf og þau tæknilegu viðmið sem henni fylgja. Það er mikilvægt að upplifun starfsfólks og viðskiptavina verði eins einföld og þægileg og mögulegt er, þar sem tæknilegu kröfurnar eru mjög ítarlegar og geta auðveldlega stuðlað að neikvæðri upplifun ef ekki er rétt haldið á spilunum. Það er því brýnt að vel takist til.
Grænt og umhverfisvænt húsnæði
Núna í janúar 2024 lauk bankinn við að uppfæra sjálfbæru fjármálaumgjörðina sína með hliðsjón af flokkunarkerfi Evrópusambandsins eins og kostur er. Það er því miður ekki hægt að uppfæra alla flokka umgjarðarinnar samkvæmt kröfum flokkunarkerfisins þar sem ekki er búið að skilgreina hvernig allar innlendar atvinnugreinar passa inn í flokkunarkerfið.
Uppfærslan tekur mið af nýjustu drögum að staðli ESB fyrir græn skuldabréf (e. EU Green Bond Standard) og því er hverfandi þörf á að við munum þurfa að uppfæra hana þegar staðallinn tekur gildi. Aðrar breytingar eru m.a. þær að í uppfærðri fjármálaumgjörð er mögulegt að skilgreina hvað telst vera umhverfisvænt eða grænt íbúðarhúsnæði, út frá aðferðafræði sem bankinn hefur sett saman.
900 milljónir evra í grænum skuldabréfum
Bankinn hefur gefið út 900 milljónir evra í grænum skuldabréfum. Viðtökur hafa verið góðar og talsverð umframeftirspurn frá fjárfestum. Það er því mikilvægt að halda vel utan um upplýsingar um útgáfurnar, miðla þeim áfram og tryggja að bankinn geti sýnt fram á að hann sé að lána til verkefna sem uppfylla skilyrði fyrir grænni fjármögnun og samtímis meta möguleika á frekari útgáfum.
Ég hef einnig haft umsjón með útreikningum á fjármagnaðri losun frá lána- og eignasafni bankans með PCAF-aðferðafræðinni. Landsbankinn hefur verið virkur þátttakandi í PCAF frá því að hann varð meðlimur árið 2019 og í dag er ég fulltrúi bankans sem varaformaður í PCAF Nordic sem er undirhópur PCAF í Evrópu. Núna um áramótin voru um 40 fjármálafyrirtæki á Norðurlöndunum hluti af PCAF Nordic og þeim fjölgar stöðugt. Hópurinn miðlar upplýsingum sín á milli og myndar vinnuhópa til að þróa aðferðafræðina áfram með hliðsjón af nærumhverfinu. Bankinn gaf út sína aðra PCAF-skýrslu á árinu 2023 og var um leið einn af þeim fyrstu í heiminum sem fékk takmarkaða endurskoðun (e. limited assurance) á hana.
Meðal annarra verkefna er þátttaka í vinnu bankans að því að setja sér vísindaleg markmið um að draga úr kolefnislosun frá starfseminni út frá nálgun Science Based Targets initiative (SBTi).
Þetta eru svona stærstu verkefnin sem ég vinn að í sjálfbærniteyminu innan bankans en eins og gengur og gerist eru fjölmörg önnur verkefni sem detta inn reglulega, enda sjálfbærni á mikilli hraðferð og í eðli sínu mjög víðfeðm. Hún heldur manni því vel á tánum og vinnan er lifandi og fjölbreytt.“