Ör þróun í sjálfbærni
Árið 2024 héldum við sjálfbærnidag Landsbankans í þriðja sinn, áætluðum losun gróðurhúsalofttegunda frá útlánum okkar í fjórða skiptið og fengum staðfestingu á vísindalegum losunarmarkmiðum. Úthlutað var úr Sjálfbærnisjóði í þriðja sinn og við héldum áfram að vera í fremstu röð í UFS-áhættumati.

Uppfærð sjálfbærnistefna Landsbankans
Sjálfbærnistefna Landsbankans er innleidd í starfsemi allra sviða bankans, skilgreinir helstu áherslur bankans í sjálfbærni og lýsir því hvernig við hyggjumst tileinka okkur þær í starfseminni. Stefnan fjallar um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, loftslagsmál, félagslega þætti, stjórnarhætti, UFS-áhættumat, ábyrgar fjárfestingar og ábyrgar lánveitingar.
Til að ná árangri er nauðsynlegt að setja sér markmið, í sjálfbærnimálum eins og öðru. Við setjum okkur krefjandi markmið sem við endurskoðum með reglulegu millibili en markmiðin byggja á sjálfbærnistefnu bankans. Upplýsingagjöf Landsbankans er einnig tengd sjálfbærnimarkmiðunum, en við miðlum upplýsingum um gang mála, bæði með gagnsæi og fræðslu að leiðarljósi. Núverandi sjálfbærnimarkmið eru átta og skiptast í flokkana sjálfbærni, umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti. Markmiðin eru birt á vef bankans með ársuppgjörinu.
Vel sóttur sjálfbærnidagur
Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í þriðja sinn miðvikudaginn 4. september 2024 og var afar vel sóttur. Á fundinum fjölluðu stjórnendur fimm íslenskra fyrirtækja um árangur og áskoranir í sjálfbærnimálum og einn helsti loftslagssérfræðingur þjóðarinnar fjallaði um afleiðingar loftslagsbreytinga og nauðsynlegar aðgerðir.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, setti fundinn og fjallaði um hringrás grænnar fjármögnunar. Hún sagði stóra markmiðið liggja fyrir: Að búa til betri framtíð og takmarka hlýnun jarðar við innan við 1,5 gráður frá iðnbyltingu eins og Parísarsamkomulagið gerir ráð fyrir.

Áhrif líffræðilegrar fjölbreytni á starfsemi
Líffræðileg fjölbreytni lýsir breytileika vistkerfa, tegundum og gena í heiminum eða á ákveðnu búsvæði. Líffræðileg fjölbreytni og loftslagsmál haldast hönd í hönd en til þess að ná markmiðum í loftslagsmálum verður að stöðva hnignun líffræðilegrar fjölbreytni. Eitt aðalatriði sem aðgreinir líffræðilega fjölbreytni og loftslagsmál er að losun gróðurhúsalofttegunda hefur áhrif á allan heiminn óháð því hvar losunin á sér stað en hnignun líffræðilegrar fjölbreytni getur verið staðbundin. Þess vegna þarf að skoða vel og meta hvaða áhrif fyrirtæki hafa og geta orðið fyrir vegna hnignunar líffræðilegrar fjölbreytni út frá staðsetningu virðiskeðju starfseminnar. Landsbankinn starfar eingöngu á Íslandi og horfir því á íslenskar aðstæður í þessu samhengi.
Landsbankinn hefur verið aðili að PBAF (Partnership for Biodiversity Accounting Financials) síðan 2022, samtökum sem vinna að því að móta aðferð til að mæla áhrif útlána og eignasafna fjármálafyrirtækja á líffræðilega fjölbreytni. Í janúar 2024 skuldbatt Landsbankinn sig til að veita upplýsingar um hvernig starfsemin hefur áhrif á náttúrufar og líffræðilega fjölbreytni í samræmi við leiðbeiningar alþjóðlega starfshópsins TNFD (Taskforce on Nature-related Financial Disclosures). Landsbankinn mun birta náttúrutengdar fjárhagsupplýsingar frá og með árinu 2026.
Til að byrja með erum við að átta okkur á því hvort það séu að eiga sér stað breytingar sem munu hafa efnisleg áhrif á lánasafnið okkar í sjávarútvegi og hvort það sé eitthvað sem bankinn getur gert til að hafa jákvæð áhrif í gegnum viðskiptavini. Þá er einnig verið að meta hvort hlýnun og súrnun sjávar geti haft þau áhrif að tilteknir nytjastofnar flytji sig um set og hvort nýir komi í staðinn. Með þessu móti getum við betur áttað okkur á mögulegum breytingum í sjávarútvegi og áhrifum þeirra á útlán okkar til greinarinnar. Líkt og áður styðjumst við í þessu samhengi við gögn frá HAFRÓ og fjórðu skýrslu Vísindanefndar um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi.
Áhersla á ábyrgar fjárfestingar og lánveitingar
Við höfum lengi lagt áherslu á ábyrgar fjárfestingar, enda hefur sú aðferðafræði jákvæð áhrif á ávöxtun fjárfestinga til lengri tíma og dregur úr rekstraráhættu. Í okkar starfi höfum við til hliðsjónar leiðbeiningar Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI). Við viljum einnig vera í fararbroddi hvað varðar ábyrgar lánveitingar þar sem þær draga úr rekstraráhættu fyrirtækja.
Landsbankinn mælir hlutfall grænna lánveitinga samkvæmt flokkunarreglugerð ESB og hefur sett sér markmið um hlutfall sjálfbærra lánveitinga sem falla undir sjálfbæru fjármálaumgjörðina, sjá nánar í sjálfbærnimarkmiðum bankans.

Loftslagsmarkmið byggð á vísindum
Markmið Landsbankans um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda var samþykkt af Science Based Targets initiative (SBTi) í febrúar 2024. Markmið bankans styður við markmið Parísarsamkomulagsins.
Landsbankinn hefur skuldbundið sig til að draga úr losun í umfangi 1 og 2 um 95% fyrir árið 2030 miðað við viðmiðunarárið 2019, sem bankinn notar við setningu markmiðanna. Landsbankinn hefur einnig skuldbundið sig til að halda áfram að kaupa endurnýjanlega orku til ársins 2030.
Mestu áhrif bankans liggja í fjármagnaðri óbeinni losun í umfangi 3. Fjármögnuð losun bankans fellur í fimm flokka og SBTi fjallar nánar um skiptingu þeirra í samantekt sinni um markmiðin og staðfestingarferlið.
Að baki staðfestingar á vísindalegu markmiði um samdrátt í losun liggur mikil vinna. Vegferðin hófst við undirritun loftslagsmarkmiða Festu og Reykjavíkurborgar árið 2015 en þá var ekki einu sinni til aðferðafræði við að mæla fjármagnaða losun.
Landsbankinn tók þátt í að þróa samræmda aðferðafræði með fleiri fjármálafyrirtækjum á alþjóðlegum vettvangi. Afraksturinn er PCAF-viðmiðin sem eru nú notuð af flestum fjármálafyrirtækjum sem mæla fjármagnaða losun.
Þegar niðurstöður mælinga lágu fyrir hófst vinna við að setja markmið út frá þeim samkvæmt leiðbeiningum SBTi fyrir fjármálafyrirtæki.
Landsbankinn skuldbatt sig til að setja sér SBTi markmið og fá þau samþykkt í apríl 2022. Markmið bankans fengust staðfest 12. febrúar 2024 og birtust á vefsvæði SBTi þann 22. febrúar 2024.
Skýr rammi um sjálfbæra fjármögnun
Í ársbyrjun 2024 gaf bankinn út uppfærða sjálfbæra fjármálaumgjörð með ytra áliti matsfyrirtækisins Sustainalytics. Undir uppfærðri umgjörð lauk Landsbankinn sölu á grænum skuldabréfum að fjárhæð 600 milljónir evra í tveimur útgáfum og hefur þá gefið út fimm grænar skuldabréfaútgáfur í evrum.
Sjálfbærar fjármálaumgjarðir skilgreina með skýrum hætti hvernig fjármagni, sem aflað er í gegnum skuldabréfaútboð eða innlán, verður varið á opinberan og gagnsæan hátt.
Sjálfbær fjármálaumgjörð Landsbankans myndar ramma um fjármögnun bankans á umhverfisvænum og félagslegum verkefnum.
Fjármálaumgjörðin byggir á viðmiðum Alþjóðasamtaka aðila á verðbréfamarkaði (ICMA) og flokkunarkerfi Evrópusambandsins (EU Taxonomy) hvað varðar græna og félagslega fjármögnun og við skilgreiningu á sjálfbærum verkefnum.
Sjálfbær fjármálaumgjörð Landsbankans endurspeglar þannig þær leikreglur sem markaðurinn hefur sammælst um að séu áhrifarík skilgreining á verkefnum sem stuðla að sjálfbærni og rammann sem atvinnugreinar skuli styðjast við í þeim efnum. Í flestum tilfellum er horft til þess að færa hagkerfið í átt að markmiðum Parísarsamkomulagsins. Til þess að ná þessu markmiði er horft til orkunotkunar fyrirtækja, tilfærslu úr jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega orkugjafa, uppbyggingu innviða fyrir endurnýjanlega orkugjafa o.fl.
Gagnsæi við úthlutun á hæfu fjármagni
Bankinn gefur árlega út úthlutunarskýrslu sem greinir frá verkefnum sem grænu skuldabréfaútgáfurnar hafa fjármagnað. Áhættu- og fjármálanefnd Landsbankans starfrækir undirhóp sem ber ábyrgð á því að ákvarða hvaða fjármagn er hæft undir sjálfbæru fjármálaumgjörðinni og skiptingu þess niður á flokka. Hópurinn skilar árlega tillögu að úthlutun fjármagns á móti útistandandi grænum skuldabréfum til áhættu- og fjármálanefndar. Þegar samþykkt tillaga um úthlutun liggur fyrir er skýrsla þess efnis birt á ytri vef bankans til upplýsinga fyrir fjárfesta. Skýrslan er staðfest af þriðja aðila.
Landsbankinn birtir úthlutunar- og áhrifaskýrslu um útistandandi útgáfur og fjármögnuð verkefni í lok febrúar 2025.
Hæf verkefni í lánabók bankans
Í sjálfbærri fjármálaumgjörð Landsbankans er fjallað sérstaklega um hvaða kröfur hver verkefnaflokkur þarf að uppfylla til að teljast hæfur undir umgjörðinni. Verkefnaflokkar sem heyra undir græn eða blá verkefni eru sjö og flokkar sem heyra undir félagsleg verkefni eru þrír.
Útlán til hæfra verkefna undir sjálfbæru fjármálaumgjörðinni nema alls 251.220 milljónum króna.
Eignadreifing og Vaxtareikningur sjálfbær
Á árinu héldum við áfram að bjóða upp á sjálfbærar leiðir til ávöxtunar, annars vegar með sérhæfðum sjóði Landsbréfa, Eignadreifing sjálfbær, og hins vegar innlánsreikningnum Vaxtareikningur sjálfbær. Eignadreifing sjálfbær leit dagsins ljós árið 2021 sem sérhæfður sjóður fyrir almenna fjárfesta. Sjóðurinn skoðar áhrif á UFS-þætti við fjárfestingarákvarðanir og skilgreinist sem 8. gr. sjóður samkvæmt SFDR-reglugerðinni, þar sem hann stuðlar að sjálfbærni með fjárfestingum sínum. Eignasafn sjóðsins er á hverjum tíma með að lágmarki 80% af eignum í sjálfbærum fjárfestingum. Vaxtareikningur sjálfbær, sem einnig var kynntur til leiks árið 2021, ráðstafar innlánum til fjármögnunar á verkefnum sem stuðla að sjálfbærni. Með þessum leiðum geta viðskiptavinir okkar látið sparnaðinn sinn hafa góð áhrif á umhverfi og samfélag og á sama tíma fengið góða ávöxtun á sparnaðinn sinn.
Græn bílalán
Landsbankinn vill styðja við orkuskiptin. Rafmagnsbílar eru mikilvægur hluti af ferlinu þar sem þeir valda minni losun og eru hagkvæmari í rekstri, sér í lagi á Íslandi. Við veitum helmingsafslátt af lántökugjöldum á rafmagnsbílum og bjóðum upp á 0,6 prósentustiga afslátt á vöxtum við fjármögnun þeirra.
Hlutfall bílalána til kaupa á rafmagnsbílum uxu jafnt og þétt frá árinu 2020 og náðu hámarki 2023 þegar þau námu 46% af heildarfjárhæð bílalána til viðskiptavina Landsbankans. Í samræmi við samdrátt í sölu nýrra rafmagnsbíla á árinu 2024 minnkaði þetta hlutfall niður í 29,3%. Í lok árs 2024 er um þriðjungur bílalána til einstaklinga í heildarlánasafni bankans til fjármögnunar á rafmagnsbílum.
UFS-mat óháðra aðila
Undanfarin ár hafa fjárfestar stuðst við úttektir þriðja aðila á því hvernig fyrirtæki stýra UFS-þáttum. Er þá skoðað hvort fyrirtæki standi frammi fyrir fjárhagslegri áhættu tengt stýringu á UFS-þáttum.
Frá árinu 2019 hefur Landsbankinn fengið umbeðið UFS-mat (e. ESG risk rating) frá matsfyrirtækinu Sustainalytics. Í lok árs 2024 fór bankinn í gegnum allsherjar endurmat hjá Sustainalytics. Við það hækkaði einkunn bankans í 15,4 stig af 100, á skala þar sem 0 merkir engin áhætta, og matið var uppfært úr hverfandi í lága áhættu. Þar sem Landsbankinn hefur skerpt á sjálfbærnistarfi sínu á milli úttekta var beðið um rökstuðning og svar Sustainalytics var að breytt aðferðafræði leiddi til hækkaðs mats. Á sama tíma ætlar Sustainalytics að hætta að UFS-meta fyrirtæki sem eru ekki skráð á markað.
Landsbankinn fær einnig UFS-mat hjá íslenska matsfyrirtækinu Reitun og hélt þar framúrskarandi einkunn árið 2024, með 90 stig af 100 í flokki A3.
Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.