Helstu sjálfbærniverkefni

Árið 2023 héldum við sjálfbærnidag Landsbankans í annað sinn, áætluðum losun gróðurhúsalofttegunda frá útlánum okkar í þriðja skiptið og settum okkur vísindaleg loftslagsmarkmið sem voru samþykkt í febrúar 2024. Sex áhugaverð verkefni hlutu styrk úr Sjálfbærnisjóði Landsbankans í annarri úthlutun úr sjóðnum og við héldum áfram að vera í allra fremstu röð á heimsvísu samkvæmt UFS-áhættumati Sustainalytics sem tekur til áhættu vegna umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta.

Kona og barn úti í náttúru

Sjálfbærnistefna Landsbankans

Sjálfbærnistefna Landsbankans er innleidd í starfsemi allra sviða bankans, skilgreinir helstu áherslur bankans í sjálfbærni og lýsir því hvernig við hyggjumst tileinka okkur þær í starfseminni. Stefnan fjallar um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, loftslagsmál, félagslega þætti, stjórnarhætti, UFS-áhættumat, ábyrgar fjárfestingar og ábyrgar lánveitingar.

Til að ná árangri er nauðsynlegt að setja sér markmið, í sjálfbærnimálum eins og öðru. Við setjum okkur krefjandi markmið sem við endurskoðum með reglulegu millibili en markmiðin byggja á sjálfbærnistefnu bankans. Upplýsingagjöf Landsbankans er einnig tengd sjálfbærnimarkmiðunum, en við miðlum upplýsingum um gang mála, bæði með gagnsæi og fræðslu að leiðarljósi.

Sjálfbærnimarkmið

Núverandi sjálfbærnimarkmið eru átta og skiptast í flokkana sjálfbærni, umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti.

1
Vera upplýst og upplýsa um sjálfbærniáhrif bankans
2
Leggja áherslu á ábyrgar lánveitingar
3
Ná fram samdrætti í beinni losun gróðurhúsalofttegunda
4
Ná fram samdrætti í óbeinni losun gróðurhúsalofttegunda
5
Kynjahlutföll meðal stjórnenda skulu verða innan settra viðmiðunarmarka
6
Aðgerðir gegn mismunum – miðla skal upplýsingum um EKKO-stefnu
7
Endurskoða skal sjálfbærniupplýsingar
8
Viðskiptum skal beint til ábyrgra birgja

Markmið 1: Vera upplýst og upplýsa um sjálfbærniáhrif bankans

Við ætlum okkur að vera leiðandi í upplýsingagjöf á sviði sjálfbærni. Í því felst að:

  • Fylgja settum sjálfbærnireglugerðum þegar þær taka gildi með viðeigandi upplýsingagjöf, t.d. SFDR, flokkunarreglugerð Evrópusambandsins (EU Taxonomy) og CSRD
  • Bankinn birtir árlega GRI-skýrslu (Global Reporting Initiative).
  • Við fjöllum um loftslagsáhættu í Pillar III áhættuskýrslu bankans samkvæmt viðmiðum starfshóps um upplýsingagjöf vegna loftslagsbreytinga (TCFD).
  • Við birtum tölur um losun gróðurhúsalofttegunda og þær innihalda losun frá útlánasafni samkvæmt aðferðafræði samtaka um þróun loftslagsbókhalds.

Gera má ráð fyrir að upplýsingagjöf sem tengist sjálfbærni muni aukast í náinni framtíð, t.d. með framtakinu um vísindalega markmiðasetningu (SBTi), inngöngu okkar í samtök um þróun bókhalds fyrir líffræðilegan fjölbreytileika og með endurskoðuðu sjálfbærniuppgjöri, þ.m.t. GRI-skýrslunni og loftslagsbókhaldi, sem hvort tveggja er staðfest (e. reasonably assured) af Deloitte.

Markmið 2: Leggja áherslu á ábyrgar lánveitingar

Landsbankinn mun mæla hlutfall grænna eigna (e. GAR) líkt og honum ber skylda til og þegar komnar eru marktækar upplýsingar út úr þeim mælingum mun bankinn setja sér markmið um hlutfall ábyrgra lánveitinga.

Markmið 3: Ná fram samdrætti í beinni losun gróðurhúsalofttegunda

Við stefnum að því að losun frá umfangi 1, þ.e. bein losun bankans, lækki um 80% fyrir árið 2025 miðað við árið 2018 og um u.þ.b. 100% árið 2030. Landsbankinn skal viðhalda kolefnishlutleysi samkvæmt mati CarbonNeutral® frá og með árinu 2020.

  • Frá 1. janúar 2025 mun bankinn ekki kaupa ökutæki sem ganga eingöngu fyrir jarðefnaeldsneyti.
  • Frá 1. janúar 2027 mun bankinn eingöngu kaupa ökutæki sem ganga fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum, t.d. rafmagni.

Markmið 4: Ná fram samdrætti í óbeinni losun gróðurhúsalofttegunda

  • Árið 2022 sóttum við um að verða aðilar að framtaki um vísindalega markmiðasetningu, SBTi.
  • Árið 2023 setti Landsbankinn sér markmið um samdrátt í óbeinni losun í samræmi við staðal framtaksins fyrir fjármálafyrirtæki og sótti um samþykki. Samþykktarferlinu lauk í febrúar 2024. Aðalmarkmiðið á við um fjármagnaða losun (PCAF) en einnig setjum við markmið um samdrátt í óbeinni losun frá rekstri bankans.
  • Markmið sem bankinn setti sér í eigin rekstri var að minnka óbeina losun um 50% fyrir árið 2030 miðað við árið 2019.

Markmið 5: Kynjahlutföll meðal stjórnenda skulu verða innan settra viðmiðunarmarka

Fyrir 2030 viljum við að kynjahlutföll á efstu stjórnendastigum verði þannig að hvergi halli á eitt kyn umfram 60% og að það hlutfall haldist áfram eftir að því hefur verið náð. Efstu stjórnendastig eru flokkuð í eftirfarandi þrjá hópa: framkvæmdastjórar, forstöðumenn og útibússtjórar og aðrir millistjórnendur.

Markmið 6: Aðgerðir gegn mismunum – miðla skal upplýsingum um EKKO-stefnu

Við ætlum að gera sýnilegra hvernig við vinnum með EKKO-stefnu bankans, en EKKO stendur fyrir einelti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni og ofbeldi. Sjálfbærniskýrslan okkar mun innihalda upplýsingar um fjölda atvika sem tilkynnt eru til Mannauðs og hlutfall atvika sem mælast í vinnustaðagreiningu bankans.

Vinnustaðagreining

Niðurstöður sýna dæmi um að starfsfólk hafi upplifað EKKO-atvik árið 2023. Hluti þeirra atvika voru tilkynnt til Mannauðs og fengu viðeigandi meðferð en fóru ekki í formlegt ferli, í samræmi við óskir þeirra sem tilkynntu.

Einelti
2,16%
Kynferðisleg áreitni
0,72%
Kynbundin mismunun
1,57%
Ofbeldi
0,86%
Tilkynningar til mannauðs
0
EKKO mál

Markmið 7: Endurskoða skal sjálfbærniupplýsingar

Allar fjárhags- og sjálfbærniupplýsingar skulu staðfestar eða rýndar af þriðja aðila af þeirri dýpt sem eðlilegt þykir.

Núverandi staða:

  • GRI-skýrslan og loftslagsbókhaldið er staðfest af Deloitte með nægjanlegri vissu (e. reasonable assurance).
  • PRB-skýrsla bankans um ábyrga bankastarfsemi er staðfest með takmarkaðri vissu (e. limited assurance).
  • PCAF-skýrsla bankans er staðfest með takmarkaðri vissu (e. limited assurance).
  • Sjálfbær fjármálaumgjörð Landsbankans fær umsögn þriðja aðila.
  • Áhrifaskýrsla grænna skuldabréfa fær umsögn þriðja aðila.

Markmið 8: Viðskiptum skal beint til ábyrgra birgja

Við stefnum að því að 80% kostnaðar af keyptri þjónustu og vörum verði frá birgjum sem samþykkt hafa siðareglur bankans fyrir birgja fyrir 2025, eða hafa sett sér sambærilegar reglur.

Núverandi staða:

Siðareglur birgja voru teknar í notkun í lok árs árið 2021 og markmiðinu um hlutfall kostnaðar hjá ábyrgjum birgjum var náð árin 2022 og 2023. Við munum enn vinna í því að beina viðskiptum til ábyrgra birgja og stefnum aftur að því að 80% kostnaðar af keyptri þjónustu og vörum verði frá ábyrgum birgjum

Sjálfbærni á mikilli hraðferð og heldur manni á tánum!

„Sjálfbærni er í stöðugri og hraðri þróun og er orðin hluti af kjarnastarfsemi margra fyrirtækja. Það má bæði rekja til aukins regluverks og þeirrar þróunar að almenningur og viðskiptavinir gera sífellt meiri kröfur um að fyrirtæki tileinki sér sjálfbærni.

Á árinu 2023 var innleidd hér á landi ný sjálfbærnilöggjöf sem felur í sér innleiðingu á flokkunarkerfi Evrópusambandsins (e. EU Taxonomy). Hún setur auknar kröfur á fyrirtæki um sjálfbærni og skilgreinir betur sjálfbærniumhverfið og þær upplýsingar sem þurfa að liggja þar að baki.

Heimsmarkmiðin

Við fylgjum fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Markmiðin tengjast öll starfsemi bankans og því getur vinna að þeim hámarkað jákvæð áhrif bankans á umhverfi og samfélag. Við fylgjum einnig viðmiðum um ábyrga bankastarfsemi (PRB) sem hjálpa bönkum að vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og Parísarsáttmálanum.

Heimsmarkmið 5 - jafnrétti kynjanna
Heimsmarkmið 8 - góð atvinna og hagvöxtur
Heimsmarkmið 9 - nýsköpun og uppbygging
Heimsmarkmið 13: Aðgerðir í loftslagsmálum

Sjálfbærnidagur Landsbankans

Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í Grósku 7. september 2023. Á fundinum beindum við sjónum að því sem íslensk fyrirtæki hafa verið að gera til að auka sjálfbærni í sínum rekstri og hvernig gera megi enn betur. Meðal umfjöllunarefnis var útblástur frá flugsamgöngum, fasteignarekstri og framkvæmdum og hver framtíðin er í landflutningum. Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri, setti fundinn og í kjölfarið ávarpaði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og auðlindaráðherra, salinn. Við fengum fyrirlesara frá stórum fyrirtækjum sem standa frammi fyrir veigamiklum áskorunum í sínum rekstri en einnig frá minni fyrirtækjum sem eru að innleiða hringrásarhagkerfi í sína starfsemi.

Losun frá útlánasafni

Við þekkjum heildarlosun frá útlánasafni okkar. Á árinu 2023 áætluðum við losun gróðurhúsalofttegunda frá útlánasafni bankans í þriðja skiptið. Við höfum tekið virkan þátt í þróun alþjóðlegs loftslagsmælis fyrir fjármálafyrirtæki innan vébanda PCAF, samstarfsvettvangs fjármálafyrirtækja. Helsta áskorun banka almennt í vegferðinni að kolefnishlutleysi hefur verið að meta óbein umhverfisáhrif sín. Í tilfelli Landsbankans kemur t.d. minna en 1% losunar frá beinum rekstri hans. Sérfræðingar okkar taka þátt í að leiða þróun á loftslagsmæli PCAF sem gerir fjármálafyrirtækjum kleift að meta óbein umhverfisáhrif sín og setja tölfræðina fram á samræmdan hátt.

Yfir 450 fjármálafyrirtæki hafa nú skuldbundið sig til að nota aðferðafræðina við mat á óbeinum umhverfisáhrifum sínum. Árið 2022 gerðumst við einnig aðilar að PCAF Nordic þar sem fjármálafyrirtæki á Norðurlöndunum leitast við að aðlaga umgjörðina að sínum veruleika og skapa samvinnuvettvang. Sérfræðingur Landsbankans er varaformaður (e. co-chair) hjá PCAF Nordic.

Áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika

Á árinu 2022 urðum við fyrsti bankinn á Íslandi til að gerast aðili að PBAF (Partnership for Biodiversity Accounting Financials) sem eru samtök sem vinna að því að móta aðferð til að mæla áhrif útlána og eignasafna fjármálafyrirtækja á líffræðilegan fjölbreytileika. Líffræðilegur fjölbreytileiki lýsir breytileika vistkerfa, tegundum og gena í heiminum eða á ákveðnu búsvæði. Vistkerfi jarðar byggja á líffræðilegum fjölbreytileika sem hefur áhrif á velferð fólks.

Á árinu héldum við áfram að skoða líffræðilegan fjölbreytileika. Hafrannsóknarstofnun fór með okkur yfir stöðuna á sjónum í kringum Ísland og við kynntum okkur málin út frá fjórðu skýrslu vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Helsta verkefnið fram undan er því að átta okkur á stöðunni út frá þessum gögnum. Aðferðafræði PBAF tekur ekki enn til helstu áhrifa á lífríki sjávar. Við erum helst að súrnun sjávar, hlýnun sjávar og stöðu sjávarstrauma.

Tilgangurinn er að átta okkur á því hvort það séu að eiga sér stað breytingar sem munu hafa efnisleg áhrif á lánasafnið okkar í sjávarútvegi og hvort það sé eitthvað sem við getum gert til að hafa jákvæð áhrif í gegnum viðskiptavini.

Þá er einnig verið að meta hvort hlýnun og súrnun sjávar geti haft þau áhrif að tilteknir nytjastofnar flytji sig um set og hvort nýir komi í staðinn. Með þessu móti getum við betur áttað okkur á því hvaða breytingar geta mögulega orðið í sjávarútvegi og hvaða áhrif það gæti haft á útlán okkar til greinarinnar. Einnig tókum við þátt í viðburði á vegum Veðurstofu Íslands þar sem farið var yfir hvaða aðlögunaraðgerðir vegna breytinga á loftslagi koma til álita.

Næstu skref hjá okkur eru að vinna áfram með PBAF ásamt því að birta náttúrutengdar fjárhagsupplýsingar í samræmi við leiðbeiningar alþjóðlega starfshópsins TNFD (Taskforce on Nature-related Financial Disclosures). Leiðbeiningum TNFD er ætlað að stuðla að því að fyrirtæki geti lagt sitt af mörkum til að ná markmiðum samkomulags sem náðist á COP15-ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni. Með því að safna, greina og birta þessar upplýsingar munum við með tíð og tíma geta kortlagt áhættu bankans vegna breytinga á náttúrufari. Upplýsingarnar nýtast meðal annars við fjármögnun bankans enda horfa fjárfestar nú meira til áhættu fjármálafyrirtækja vegna breytinga á náttúrufari.

Starfsemin áfram kolefnisjöfnuð

Við höfum kolefnisjafnað hefðbundna starfsemi bankans fyrir árið 2023 og endurnýjað hina alþjóðlega viðurkenndu CarbonNeutral® vottun okkar, auk þess sem starfsemi bankans er kolefnisjöfnuð með bindingu eða með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Kolefnisjöfnunin, sem unnin var í samstarfi við Climate Impact Partners, hefur þegar átt sér stað og er bindingin vottuð samkvæmt ströngustu alþjóðlegu stöðlum.

Ábyrgar fjárfestingar og ábyrgar lánveitingar

Við höfum lengi lagt áherslu á ábyrgar fjárfestingar, enda hefur sú aðferðafræði jákvæð áhrif á ávöxtun fjárfestinga til lengri tíma og dregur úr rekstraráhættu. Í okkar starfi höfum við til hliðsjónar leiðbeiningar Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI). Við viljum einnig vera í fararbroddi hvað varðar ábyrgar lánveitingar þar sem þær draga úr rekstraráhættu fyrirtækja.

Landsbankinn ætlar að mæla hlutfall grænna lánveitinga samkvæmt flokkunarreglugerð ESB og setja sér markmið um hlutfall sjálfbærra lánveitinga, sjá nánar í sjálfbærnimarkmiðum bankans.

Loftslagsmarkmið byggð á vísindum

Til að ná fram samdrætti í óbeinni losun gróðurhúsalofttegunda hefur Landsbankinn gerst aðili að samtökunum Science-Based Targets initiative til þess að setja sér markmið um samdrátt í óbeinni losun í samræmi við staðal SBTi fyrir fjármálafyrirtæki. Með SBTi setjum við okkur vísindalegt og mælanlegt markmið um losun, byggt á raunverulegum gögnum úr okkar starfsemi. Samþykktarferlinu lauk í febrúar 2024 og er Landsbankinn kominn með markmið um samdrátt í óbeinni losun sem er samþykkt af SBTi.

Iðnaðarmaður að störfum

Úthlutunarskýrsla

Árið 2023 birtum við í annað skipti úthlutunarskýrslu (e. Allocation Report) fyrir grænar skuldabréfaútgáfur bankans. Þá voru þeim fjárfestum sem fjárfestu í grænum skuldabréfum bankans gefnar ítarlegar upplýsingar um nýtingu fjármagnsins. Deloitte staðfesti að nýting fjármagns var í samræmi við sjálfbæra fjármálaumgjörð bankans.

Á árinu lauk Landsbankinn sölu á grænum skuldabréfum að fjárhæð 300 milljónir evra, þriðju grænu skuldabréfaútgáfu bankans í evrum. Skuldabréfin eru gefin út til 3,5 ára með lokagjalddaga í mars 2027.

Eignadreifing og Vaxtareikningur sjálfbær

Á árinu héldum við áfram að bjóða upp á sjálfbærar leiðir til ávöxtunar, annars vegar með fjárfestingarsjóði Landsbréfa, Eignadreifing sjálfbær, og hins vegar með innlánsreikningi, Vaxtareikningur sjálfbær. Eignadreifing sjálfbær leit dagsins ljós árið 2021 en sjóðurinn skoðar áhrif á UFS-þætti við fjárfestingarákvarðanir. Vaxtareikningur sjálfbær, sem einnig var kynntur til leiks árið 2021, ráðstafar innlánum til fjármögnunar á verkefnum sem stuðla að sjálfbærni. Með þessum leiðum geta viðskiptavinir okkar látið sparnaðinn sinn hafa góð áhrif á umhverfi og samfélag.

Græn bílalán

Landsbankinn vill styðja við orkuskiptin. Rafmagnsbílar eru mikilvægur hluti af ferlinu þar sem þeir valda minni losun og eru hagkvæmari í rekstri, sér í lagi á Íslandi. Við höldum áfram að fella niður lántökugjald á rafmagnsbílum og bjóða upp á 0,6 prósentustiga afslátt á vöxtum við fjármögnun þeirra.

Á árinu 2023 var 46% af heildarfjárhæð bílalána vegna kaupa á rafmagnsbílum. Viðskiptavinir Landsbankans keyptu fleiri rafmagnsbíla árið 2023 en á árunum á undan.

UFS-áhættumat Sustainalytics

Samkvæmt UFS-áhættumati Sustainalytics höldum við áfram að vera í allra fremstu röð á heimsvísu. Árið 2023 fengum við 8,5 í einkunn í áhættumatinu, sem er lægsta einkunn sem við höfum fengið, en sóst er eftir því að vera með eins lága einkunn og mögulegt er. Við erum í efsta 1% af svæðisbundnum bönkum í Evrópu sem Sustainalytics metur. Sustainalytics telur hverfandi áhættu á að Landsbankinn verði fyrir fjárhagslegum áföllum vegna UFS-þátta sem eru þeir þættir sem skoðaðir eru í áhættumatinu

Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur