Ávarp formanns bankaráðs
Það var þrautseigja og kraftur í íslensku efnahagslífi á árinu 2023, þrátt fyrir krefjandi áskoranir. Þótt hægt hafi á hagvexti eru horfurnar fyrir árið 2024 ágætar, að því gefnu að það takist að ná niður verðbólgu og skapa forsendur fyrir vaxtalækkunum.
Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs
Óvissuástand ríkir í efnahagslífinu vegna stríðsástands í heiminum, kjarasamninga sem hafa runnið út en ekki síst vegna yfirstandandi jarðhræringa á Reykjanesi. Hugur okkar í Landsbankanum hefur verið hjá Grindvíkingum frá því 10. nóvember sl. en þar eigum við fjölmarga góða viðskiptavini, bæði meðal einstaklinga og fyrirtækja, og einnig mikilvægt starfsfólk.
Landsbankinn hefur með ýmsum hætti komið til móts við Grindvíkinga á þessum erfiðu tímum. Bankinn bauð strax öllum einstaklingum með íbúðalán greiðsluskjól í sex mánuði. Í kjölfarið ákvað bankinn að fella niður vexti og verðbætur af íbúðalánum í Grindavík í þrjá mánuði. Eftir eldsumbrotin í janúar sl., sem teygðu sig inn í byggðina, var ákveðið að framlengja niðurfellinguna um aðra þrjá mánuði. Þá er gert ráð fyrir að bankinn komi að fjármögnun á uppkaupum ríkissjóðs á íbúðarhúsnæði í Grindavík samkvæmt frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra þess efnis sem enn er í vinnslu þegar þessi skýrsla birtist. Ég vona að Grindvíkingar nái vopnum sínum sem fyrst, fjölskyldur og fyrirtæki, enda hefur Grindavík lagt mikið til samfélagsins alls.
Rekstur Landsbankans gekk vel á árinu 2023. Arðsemi bankans var 11,6% sem er í samræmi við markmið bankans um að langtímaarðsemin sé yfir 10%. Þetta markmið er í takt við það sem gerist hjá öðrum álíka stórum norrænum bönkum og það er eðlilegt að eigendur bankans vænti ávöxtunar af þeirri miklu eign sem er bundin í honum.
Traustur og arðsamur rekstur gerir bankanum kleift að borga út arð sem kemur öllu samfélaginu til góða, en er ekki síður nauðsynlegur bankanum sjálfum.
Aðeins ef reksturinn er arðsamur getur bankinn haldið áfram að fjárfesta, þróast og mæta aukinni samkeppni af fullum krafti með því að bjóða viðskiptavinum sínum framúrskarandi þjónustu.
Staða bankans er sterk á alla mælikvarða. Fjármögnun bankans gekk vel á árinu og útgáfur á skuldabréfum í erlendri mynt voru vel heppnaðar. Einnig má nefna samning við Norræna fjárfestingarbankann (NIB) um langtímalán í tengslum við nýbyggingu bankans og lánasamning bankans og NIB vegna fjármögnunar lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Íslandi og verkefna sem tengjast umhverfismálum. Útgáfa á 12 milljarða króna víkjandi skuldabréfi heppnaðist vel auk þess sem innlán, stærsti fjármögnunarliður bankans, uxu um 8,3% á árinu.
Mikilvægt að ná verðbólgu niður
Margir viðskiptavinir bankans sem tóku óverðtryggð íbúðalán á breytilegum vöxtum á meðan vextir voru hvað lægstir hafa, í kjölfar hækkandi vaxtastigs, glímt við hærri greiðslubyrði af lánum sínum. Þá mun fastvaxtatímabili hjá fjölda viðskiptavina ljúka á þessu ári og að óbreyttu mun greiðslubyrði þeirra hækka umtalsvert. Þrátt fyrir hærra vaxtastig eru vanskil á íbúðalánum í algjöru lágmarki sem bendir til þess að flestir viðskiptavinir okkar hafi haft borð fyrir báru. En þótt fólk og fyrirtæki geti tekist á við hærri vexti, að minnsta kosti tímabundið, ætti öllum að vera ljóst hversu mikilvægt er að stuðla að stöðugleika og skapa forsendur fyrir vaxtalækkanir. Niðurstöður kjaraviðræðna á almennum vinnumarkaði munu ráða miklu um hvort það takist.
Áfram í fararbroddi
Undanfarin ár hafa fjármálaþjónusta og fjármálamarkaðurinn einkennst af miklum og hröðum breytingum, bæði á alþjóðavettvangi og hérlendis. Fleiri fyrirtæki bjóða nú fjármálaþjónustu og í tilteknum afmörkuðum þjónustuþáttum hefur samkeppnin aukist töluvert. Í slíku samkeppnisumhverfi býr bankinn vel að því að hafa á undanförnum árum fjárfest mikið í upplýsingatækni og framþróun stafrænnar þjónustu. Það gerir það að verkum að bankinn er kvikari og fljótari að bregðast við tæknibreytingum og lagalegum kröfum. Ekki síður mikilvægt er að hann er fljótari að hrinda nýjum og góðum hugmyndum í framkvæmd. Bankinn hefur einnig brugðist við aukinni samkeppni með því að fjölga tekjustoðum, meðal annars með því að bjóða upp á færsluhirðingu greiðslukorta sem hefur farið vel af stað. Til að tryggja áframhaldandi velgengni er mikilvægt að bankinn hugi áfram að því að fjölga tekjustofnum sem styrkja reksturinn og gera honum kleift að bjóða enn fjölbreyttari og betri fjármálaþjónustu.
Þjónustugjöld og vaxtamunur standa undir frábærri þjónustu
Við erum stolt af því að Landsbankinn hefur öflugasta þjónustunet fjármálafyrirtækja á Íslandi og við munum áfram kappkosta að bjóða framúrskarandi bankaþjónustu, hvort sem fólk nýtir sér stafrænar lausnir eða þjónustu ráðgjafa og annars starfsfólks bankans. Á sama tíma og bankinn hefur fjárfest verulega í uppbyggingu fjármálainnviða og nýrri tækni, hefur vaxtamunur til heimila lækkað og þjónustugjöld lækkað að raungildi. Það fær stundum lítið rými í opinberri umræðu að vaxtamunur og þjónustutekjur standa bæði undir mjög umfangsmikilli og flókinni þjónustu og jafnframt hærri skattbyrði en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Samanburður á þjónustugjöldum og vaxtamun, sem kom fram í skýrslu sem unnin var af starfshópi menningar- og viðskiptaráðherra á síðasta ári, kom vel út fyrir Landsbankann og er okkur hvatning til að gera enn betur.
Flókið regluverk
Miklir og flóknir lagabálkar gilda um fjármálafyrirtæki. Stór hluti þeirra á uppruna sinn í Evrópureglugerðum sem taka mið af fyrirtækjum sem starfa á mun fjölmennari mörkuðum. Að sjálfsögðu stefnir bankinn ávallt að því að innleiða allar þær nýju lagalegu kröfur sem til hans eru gerðar en því er ekki að leyna að það getur verið ærið verkefni. Umfangsmesta verkefnið á þessu sviði á síðasta ári var innleiðing PSD2-löggjafarinnar sem er ætlað að opna bankakerfið og stuðla að aukinni samkeppni. Í innleiðingunni fólst töluverð tæknileg áskorun og miklu þurfti að kosta til en vinnan gekk vel og árangurinn var góður.
Bankinn varð í haust fyrstur til að bjóða upp á nýja þjónustu sem byggir á löggjöfinni þegar við gerðum viðskiptavinum kleift að vera með alla bankareikningana sína, bæði hjá okkur og öðrum bönkum, á einum og sama staðnum – í Landsbankaappinu.
Starfsfólk bankans getur verið stolt af því að hafa verið í fararbroddi á þessu sviði, eins og svo mörgum öðrum.
Á þessu ári verður áframhaldandi þungi í innleiðingu á evrópsku regluverki sem snýr meðal annars að stafrænum viðnámsþrótti, greiðsluþjónustu og ekki síst sjálfbærni. Sjálfbærni hefur á undanförnum árum orðið sífellt mikilvægari þáttur í starfsemi bankans og tengist í auknum mæli fjárstýringu og fjármögnun með beinum hætti. Fram undan ber helst að nefna vinnu vegna innleiðingar flokkunarreglugerðar ESB, upplýsingagjöf um sjálfbærni og mat á sjálfbærniáhættu. Taldi bankaráð því rétt að setja á laggirnar sjálfbærninefnd sem mun starfa tímabundið í eitt til tvö ár sem undirnefnd bankaráðs. Nefndin mun ljúka störfum þegar nýir sjálfbærnimælikvarðar, sem fylgt er eftir af bankaráði og undirnefndum þess, hafa verið innleiddir innan bankans og þegar fyrir liggur hvernig tilskipun ESB um fjárhagslega upplýsingagjöf verður innleidd í íslensk lög og ljóst hvernig kröfum þar að lútandi verður fylgt eftir innan bankans.
Traust, fagmennska og góð áhættumenning
Landsbankinn leggur mikla áherslu á að innleiða nýjar reglur fljótt og faglega og einnig á öfluga fræðslu til að tryggja að þeim sé fylgt í hvívetna. Traust, fagmennska og góð áhættumenning er í fyrirrúmi. Þetta hefur áhrif á allt starf bankans og samskipti við viðskiptavini, þær stofnanir sem hafa eftirlit með starfseminni og hluthafa.
Á síðasta ári birti fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands niðurstöður tveggja umfangsmikilla úttekta á starfsemi bankans, annars vegar varðandi varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og hins vegar á þætti Landsbankans í sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka árið 2022. Niðurstöður í báðum þessum athugunum voru gerðar opinberar í desember. Fjármálaeftirlitið gerði tilteknar athugasemdir við varnir bankans gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þá var litið svo á að í útboðinu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hefði mat Landsbankans á verðgildi fjármálagerninga og tímamark flokkunar fjögurra viðskiptavina sem fagfjárfesta ekki verið í samræmi við fyrirmæli laganna. Bankinn féllst á niðurstöður fjármálaeftirlitsins og hefur lokið við að gera úrbætur á þeim atriðum sem þær taka til. Í hvorugu tilfellinu var talin ástæða til að beita bankann sektum eða öðrum viðurlögum.
Landsbankinn er traustur banki og við finnum að hann nýtur meðbyrs. Bankinn er í sterkri stöðu til að sækja fram, styðja við framfarir og takast á við þær margvíslegu breytingar sem nú eiga sér stað í íslensku þjóðfélagi. Landsbankinn er traustur banki fyrir farsæla framtíð.
Fyrir hönd bankaráðs þakka ég Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra, öðrum stjórnendum og starfsfólki bankans fyrir gott, skemmtilegt og árangursríkt samstarf. Þá vil ég einnig þakka hluthöfum, eftirlitsaðilum og öðrum haghöfum fyrir afar góð samskipti á liðnu ári.
Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.