Ávarp formanns bankaráðs

Íslensk heimili og fyrirtæki eiga mikið undir efnahagslegum stöðugleika og að sama skapi skiptir miklu máli að hér verði áfram góð skilyrði fyrir verðmætasköpun sem stuðlar að hagsæld samfélagsins. 

Jón Þorvarður Sigurgeirsson, formaður bankaráðs

Jón Þorvarður Sigurgeirsson, formaður bankaráðs

Eftir snarpt hagvaxtarskeið hægði verulega á umsvifum á árinu 2024. Flest bendir þó til þess að þrátt fyrir krefjandi aðstæður muni hagkerfið ná mjúkri lendingu. Horfurnar fyrir árið 2025 eru góðar og að mati Greiningardeildar bankans má gera ráð fyrir hagvexti í kringum 2%. Horfur í alþjóðahagkerfinu eru jafnframt góðar að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem gerir nú ráð fyrir 3,3% hagvexti á árinu 2025. Verðbólgan hefur reynst þrálátari en í nágrannalöndunum en merki eru um að baráttan gegn henni sé að bera árangur og hefur það gefið Seðlabankanum langþráð svigrúm til að lækka vexti. Óvissuþættirnir eru þó margir, bæði á innlendum og ekki síður á alþjóðlegum vettvangi, og geta reynst krefjandi. 

Traustur rekstur og öflugur banki  

Rekstur Landsbankans gekk vel á árinu 2024, ef litið er til helstu mælikvarða. Hagnaður samstæðunnar var 37,5 milljarðar króna og arðsemi eigin fjár var 12,1%, samanborið við 11,6% árið 2023. Kostnaður hefur ekki aukist í samræmi við aukin umsvif. Aukin stærðarhagkvæmni birtist m.a. í því að kostnaðarhlutfall á árinu 2024 var 32,4% og lækkaði úr 33,7% frá fyrra ári. Með góðum árangri styrkist staða bankans. Í lok árs 2024 nam eigið fé 325 milljörðum króna og eiginfjárhlutfallið var 24,3%, sem er vel yfir mörkum eftirlitsaðila. Heildareignir voru um síðastliðin áramót hátt í 2.200 milljarðar króna og höfðu tvöfaldast að nafnverði á um áratug og aukist um 30% að raungildi. Lánshæfi bankans hjá S&P Global Ratings var hækkað í BBB+ í apríl og undir lok árs var horfum á lánshæfi breytt í jákvæðar.

Sterk staða bankans gerir honum kleift að greiða út arð í samræmi við arðgreiðslustefnu bankans og mun bankaráð leggja til við aðalfund að bankinn greiði um 50% af hagnaði fyrra árs í arð til eigenda eða tæplega 19 milljarða króna.

Verði tillagan samþykkt munu arðgreiðslur bankans á árunum 2013-2025 alls nema um 210,5 milljörðum króna.  

Styður við heimili og fyrirtæki 

Arðgreiðslurnar eru hluti af þeim jákvæðu áhrifum sem bankinn hefur á samfélagið en þau birtast einnig í því að bankinn getur, í krafti stærðarhagkvæmni og hagkvæms reksturs, stutt myndarlega við fjárfestingar og framþróun í íslensku efnahagslífi. Útlánastarfsemi bankans til fyrirtækja byggir á traustum grunni því hjá bankanum býr starfsfólk yfir góðri þekkingu á íslenskri fyrirtækjastarfsemi og áhættustýring bankans er traust, eins og sýnir sig m.a. í því að vanskil hafa lengi verið í lágmarki. Bankinn er sem fyrr leiðandi á byggingamarkaði og með sterka stöðu í sjávarútvegi, þrátt fyrir harða samkeppni frá erlendum lánastofnunum. Á árinu 2024 jukust útlán bankans um 177 milljarða króna. Af þeirri fjárhæð voru um 109 milljarðar króna vegna útlána til fyrirtækja og skiptist útlánaaukning nokkuð jafnt á milli atvinnugreina. Þessi aukning væri ekki möguleg nema vegna þess að fjármögnun bankans gekk vel, bæði hvað varðar innlán og markaðsfjármögnun. 

Landsbankinn er þó ekki síður mikilvægur lánveitandi og þjónustuveitandi til einstaklinga og heimila. Stefna bankans er að setja ánægju viðskiptavina í forgang og kannanir sýna að viðskiptavinir virðast ánægðir með þjónustuna. Bankinn nýtur einnig mikils trausts, sem m.a. sést á því að innlán frá einstaklingum hafa vaxið, en aukin innlán byggja ekki síður á samkeppnishæfum kjörum og góðri og aðgengilegri þjónustu. Alls jukust innlán um 180 milljarða króna á síðasta ári og var rúmlega helmingurinn af aukningunni vegna innlána frá einstaklingum og heimilum. Á fyrri hluta ársins var tilkynnt um kaup bankans á TM tryggingum. Kaupin eru háð samþykki eftirlitsaðila, en kaupin boða frekari breytingar og meiri breidd á þjónustu bankans. 

Sífelld áhersla á netöryggisvarnir 

Upplýsingatækni er sífellt mikilvægari þáttur í starfsemi fjármálafyrirtækja og ljóst að vægi hennar mun enn frekar aukast á næstu árum. Landsbankinn hefur fjárfest mikið í upplýsingatækni á undanförnum árum sem hefur skilað sér í hagkvæmari og sveigjanlegri rekstri og betri þjónustu við viðskiptavini. Mikil áhersla hefur jafnframt verið lögð á netöryggismál, og það af ærnu tilefni, því rekstraráhætta og ófjárhagslegir áhættuþættir hafa aukist að umfangi, sér í lagi hvað varðar netöryggi og upplýsingatækniáhættu. Netárásir eru áfram vaxandi ógn og bankinn mun áfram leggja áherslu á að efla netöryggisvarnir og verja viðskiptavini og innviði bankans. 

Framúrskarandi tæknilausnir og persónuleg þjónusta um allt land 

Áhersla bankans á uppbyggingu á fjölbreyttum tæknilausnum sem gera viðskiptavinum lífið einfaldara hefur borið góðan ávöxt. Áhersla bankans á mannlega þáttinn og að vera til staðar um allt land er þó óhögguð, enda er hún bæði til hagsbóta fyrir bankann og hefur mælst vel fyrir hjá viðskiptavinum. Bankinn rekur alls 35 útibú og afgreiðslur um allt land.

Mun færri viðskiptavinir eiga erindi í útibúin en áður, enda mun einfaldara að sinna bankaerindum í appinu eða á netinu. Bankinn hefur ekki brugðist við þessu með því að fækka og loka útibúum, heldur með því að aðlaga starfsemina að nýjum veruleika og gera starfsfólki í útibúum á landsbyggðinni kleift að veita þjónustu sem er óháð staðsetningu.

Árangurinn er eftirtektarverður. Eins og fjallað er um í þessari árs- og sjálfbærniskýrslu, er verkefnum sem unnt er að vinna án tillits til staðsetningar miðlað í gegnum svokallaða Miðju. Þar sér starfsfólk í útibúum hvaða verkefni liggja fyrir og getur gripið þau, hringt í viðskiptavini vegna íbúðalánaráðgjafar, átt með þeim fjarfundi eða afgreitt erindi í tölvupósti. Við þetta má bæta að bankinn rekur öflugt Þjónustuver með starfsfólki sem bæði er staðsett í húsakynnum bankans í Reykjastræti og á Akureyri. Eftir að nýtt þjónustuverskerfi var tekið í notkun getur starfsfólk í útibúum um allt land raunar tengst Þjónustuverinu og svarað erindum og símtölum sem þangað berast. Tölurnar tala sínu máli. Um 45 starfsmenn í útibúum víða um land tóku með þessum hætti þátt í starfi Þjónustuversins á síðasta ári og starfsfólk á landsbyggðinni sá um 80% af þeim um 7.600 fjarfundum sem viðskiptavinir óskuðu eftir, svo nokkur dæmi séu nefnd. Miðjan er vel heppnað verkefni og styrkir starfsemi bankans á landsbyggðinni sem er mikils virði, bæði fyrir samfélagið og fyrir bankann.  

Sjálfbærni er mikilvægur þáttur 

Á undanförnum árum hefur sjálfbærni orðið mikilvægari þáttur í starfsemi bankans og tengist í auknum mæli fjárstýringu og fjármögnun með beinum hætti en um 60% af erlendri fjármögnun á árinu 2024 var græn. Málaflokkurinn hefur einnig fallið undir evrópskt regluverk og setti bankaráð sjálfbærninefnd tímabundið á laggirnar á meðan verið var að kortleggja innleiðingu regluverksins svo sem flokkunarreglugerðir Evrópusambandsins, upplýsingagjöf um sjálfbærni og mat á sjálfbærniáhættu. Störf nefndarinnar hafa nú verið færð undir endurskoðunarnefnd og bankaráð. Ljóst er að það verður áframhaldandi hluti af starfsemi bankans að vinna að sjálfbærnimálum og samþætta daglegri starfsemi. Mikilvægt er að það sé gert á markvissan hátt og árið 2024 var skerpt á því í gegnum uppfærslu á sjálfbærnistefnum bankans. 

Hærri skattar en í öðrum Evrópulöndum 

Eins og fram kemur í skýrslu Intellecon, sem unnin var fyrir Samtök fjármálafyrirtækja og birt á árinu 2024, eru skattar sem lagðir eru á íslenska banka hærri en í öðrum Evrópulöndum. Miklu munar um að íslenskir bankar greiða ýmsa sértæka skatta, sem ýmist eru ekki lagðir á í nágrannalöndum okkar eða eru þar miklu lægri. Við þetta bætist að íslenskir bankar starfa undir strangari eiginfjárkröfum. Þá felur hækkun á bindiskyldu, sem Seðlabankinn tilkynnti um á síðasta ári, í sér aukinn kostnað. Vegna hennar þá hækkaði sú fjárhæð sem Landsbankanum er gert að geyma vaxtalaust á reikningum Seðlabankans um 38 milljarða króna. Miðað við vaxtastigið á árinu 2024 hefðu vaxtatekjur af slíkri fjárhæð numið allt að þremur milljörðum króna.  

Spennandi tímar fram undan 

Nýtt bankaráð tók við á aðalfundi Landsbankans í apríl sl. Fyrir hönd bankaráðs þakka ég starfsfólki og stjórnendum kærlega fyrir gott starf og góða viðkynningu á árinu sem leið. Ég þakka jafnframt hluthöfum og eftirlitsaðilum fyrir góð samskipti. 

Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur