Loftslagsmál

Við leggjum okkur fram við að þekkja umhverfisáhrifin af starfsemi okkar. Við höldum áfram að greina kolefnisspor okkar og áhrif á samfélagið.

Hjón úti í náttúru

Við gerum ítarlega greiningu á beinum og óbeinum umhverfisáhrifum okkar ofar í virðiskeðjunni út frá alþjóðlega viðurkenndri aðferðafræði GHG Protocol, en það er sú aðferðafræði sem fyrirtæki styðjast almennt við í útreikningi á kolefnisspori sínu. Við greinum einnig og birtum opinberlega losun gróðurhúsalofttegunda frá útlánum og eignasafni bankans samkvæmt aðferðafræði PCAF, samtaka um þróun loftslagsbókhalds (Partnership for Carbon Accounting Financials).

Aðferðafræði GHG Protocol

Umföngin eru skilgreind á eftirfarandi máta:

Umfang 1
Bein losun frá rekstri okkar, þ.e. losun sem á sér stað undir kennitölu og rekstri bankans.
Umfang 2
Óbein losun gróðurhúsalofttegunda vegna framleiðslu raforku og hita sem við kaupum.
Umfang 3
Óbein losun vegna aðfanga og þjónustu ofar og neðar í virðiskeðju. Óbein losun vegna útlána fellur í umfang 3.

Heimild: WRI and WBCSD

Heildarlosun

Heildarlosun bankans, að undanskilinni nýbyggingu höfuðstöðva og fjármagnaðri losun (umfang 1 og 2), hefur dregist saman um 24% frá árinu 2019. Losun vegna bifreiða hefur minnkað um 47% en losun vegna húsnæðis hefur aukist um 25%. Markmið bankans er að losun frá umfangi 1 lækki um 80% fyrir árið 2025 miðað við árið 2018 og u.þ.b. 100% árið 2030.

Óbein losun bankans undir umfangi 3 jókst frá síðasta ári en þá aukningu má nær eingöngu rekja til aðkeyptrar vöru og þjónustu. Bankinn endurnýjaði tækjabúnað á starfsstöðvum starfsfólks og fundarrýmum í nýjum höfuðstöðvum ásamt því að fjárfesta í nýjum tölvum. Losun frá nýbyggingu höfuðstöðva hélt áfram að dragast saman og er nú nær eingöngu unnið við framkvæmdir á lóðinni utandyra. Losun vegna viðskiptaferða hefur aukist frá því að heimsfaraldrinum lauk en losunin jókst lítillega milli 2022 og 2023. Losun vegna flugferða innanlands og millilanda ásamt leigubílum telst til losunar vegna viðskiptaferða, ásamt gistingu.

Bankinn greinir nú í fyrsta sinn frá losun vegna gistingar starfsfólks í viðskiptaferðum á vegum hans. Ferðir starfsfólks til og frá vinnu ásamt heimavinnu teljast til losunar vegna samgangna starfsfólks. Undir losun aðkeyptrar vöru og þjónustu eru pappírsnotkun, gagnaflutningur, framleiðsla eldsneytis, framleiðsla tölvubúnaðar og fráveita.

Flokkun og endurvinnsla úrgangs

Landsbankinn hefur á síðustu árum lagt mikinn metnað í að lágmarka umhverfisáhrif sín vegna meðhöndlunar á úrgangi, bæði í formi minni losunar og með því að ýta undir frekari þróun á hringrásarhagkerfi með endurvinnslu og -nýtingu. Hlutfall flokkaðs sorps hefur á aðeins þremur árum aukist úr liðlega 55% upp í rétt tæplega 90% árið 2023. Samhliða hærra flokkunarhlutfalli hefur endurvinnslu- og endurnýtingarhlutfallið af úrgangi bankans aukist og var 85% á árinu 2023 í stað 49% árið 2021. Þessi aukning í flokkun og endurvinnslu og -nýtingu átti sér stað á sama tíma og magn úrgangs frá bankanum jókst um rúmlega 20%, eða sem næst 18 tonnum.

Samgöngur starfsfólks

Landsbankinn leggur áherslu á sveigjanleika og býður upp á að starfsfólk nýti sér ólíkar starfsstöðvar sem felur í sér að starfsfólk geti unnið í fjarvinnu þegar störf og verkefni bjóða upp á það. Landsbankinn býður starfsfólki sínu einnig að gera samning um að það nýti sér vistvænar samgöngur.

Landsbankinn er með samning við Hopp og starfsfólk getur nýtt hlaupahjól þeirra í vinnutengdum erindum sér að kostnaðarlausu frá kl. 8-17 á virkum dögum. Aðstaðan fyrir hjólreiðafólk er mjög góð í nýju húsi bankans, en þar er rúmgóð hjólageymsla með mismunandi hjólafestingum og þurrkskápum.

Við gerðum árlega samgöngukönnun á meðal starfsfólks í lok árs 2023 og svöruðu 509 könnuninni. Þegar skoðað var hvaða ferðamáta starfsfólk nýtti sér til og frá vinnu voru 8,4% sem nýttu sér almenningssamgöngur, 31% komu gangandi eða hjólandi, 52,8% komu á einkabíl og 7,8% starfsfólks fékk far með öðrum. Gangandi og hjólandi starfsfólk er tekið saman í einn flokk en 15% starfsfólks gengur í vinnuna, rúmlega 8% ferðast á hjóli og tæplega 8% ferðast á rafmagnshjóli eða -hlaupahjóli.

Meirihluti starfsfólks sem ferðast á einkabíl til og frá vinnu eru á bíl sem er knúinn jarðefnaeldsneyti. Tæplega fjórðungur starfsfólks er á rafmagnsbíl og tæplega 20% starfsfólks eru á tengiltvinnbíl eða tvinnbíl.

Heildarlosun vegna samgangna starfsfólks til og frá vinnu var 245 tCO₂í árið 2023 sem er 23,5% lækkun frá árinu 2022.

Fjármögnuð losun

Greining Landsbankans á losun gróðurhúsalofttegunda nær einnig yfir efnahagsreikning bankans. Losun fyrir árið 2022 er reiknuð skv. aðferðafræði PCAF og er jafnan kölluð fjármögnuð losun. Hún telst til óbeinnar losunar undir fimmtánda og síðasta flokknum í umfangi 3 þar sem hún tekur til losunar í umföngum 1 og 2 frá viðskiptavinum og eignum í lána- og eignasafni bankans. Losun frá útlánum viðskiptavina bankans er áætluð 247 ktCO₂í á árinu 2022.

Frá því að síðasta skýrsla um fjármagnaða losun bankans kom út fyrir ári síðan hafa orðið uppfærslur á grunngögnum fyrir losunarstuðla sem bankinn notast við. Stöðugt er leitað leiða til að betrumbæta stoð- og grunngögn fyrir kolefnisútreikninga. Bankinn notar árið 2019 sem viðmiðunarár í sinni markmiðasetningu í tengslum við kolefnislosun frá lána- og eignasafni. Fjármögnuð losun útlánasafns bankans á árinu 2022 var um 20 ktCO₂í lægri en viðmiðunarársins en það má rekja til lægri losunar frá bíla- og tækjalánum.

Þær þrjár atvinnugreinar í útlánasafni bankans sem losa mest eru ferðaþjónusta, sjávarútvegur og svo þjónusta, upplýsingatækni og fjarskipti. Þessar atvinnugreinar eru ábyrgar fyrir yfir 70% af áætlaðri heildarlosun frá útlánasafni bankans. Ferðaþjónusta annars vegar og þjónusta, upplýsingatækni og fjarskipti hins vegar voru áætlaðar losa hvað mest árið 2022, eða hvor um sig um 69 ktCO₂í. Ferðaþjónustan hefur í gegnum árin verið með mestu heildarlosunina en hefur þó dregist saman frá árinu 2019 þegar hún var upp undir 130 ktCO₂í.

Frekari upplýsingar eru birtar í skýrslu bankans um fjármagnaða losun.

Starfsemin áfram kolefnisjöfnuð 

Við höfum kolefnisjafnað hefðbundna starfsemi bankans fyrir árið 2023 og endurnýjað hina alþjóðlega viðurkenndu CarbonNeutral® vottun okkar, auk þess sem starfsemi bankans er kolefnisjöfnuð með bindingu eða með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Kolefnisjöfnunin, sem unnin var í samstarfi við Climate Impact Partners, hefur þegar átt sér stað og er bindingin vottuð samkvæmt ströngustu alþjóðlegu stöðlum. 

Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur