Skipuleg og skilvirk nálgun
Við leggjum okkur fram við að þekkja umhverfisáhrifin af starfsemi okkar. Við höldum áfram að greina kolefnisspor okkar og áhrif á samfélagið.

Landsbankinn gerir ítarlega greiningu á beinum og óbeinum umhverfisáhrifum bankans ofar í virðiskeðjunni út frá alþjóðlega viðurkenndri aðferðafræði GHG Protocol, en það er sú aðferðafræði sem fyrirtæki styðjast almennt við í útreikningi á kolefnisspori sínu. Við greinum einnig og birtum opinberlega losun gróðurhúsalofttegunda frá útlánum og eignasafni bankans samkvæmt aðferðafræði PCAF, samtaka um þróun loftslagsbókhalds (Partnership for Carbon Accounting Financials).
Aðferðafræði GHG Protocol
Umföngin eru skilgreind á eftirfarandi máta:

Heimild: WRI and WBCSD
Heildarlosun
Heildarlosun bankans (umfang 1 og 2) hefur aukist um 31% frá árinu 2023. Þessa hækkun má aðallega rekja til notkunar á heitu vatni. Losun frá umfangi 3, að undanskilinni fjármagnaðri losun, hefur dregist saman um 41% miðað við 2023. Losun bifreiða hefur aukist um 35% frá 2023 og verður fjallað um það síðar í kaflanum. Þar sem framkvæmdum við nýbyggingu bankans telst lokið er losun frá þeim ekki reiknuð fyrir árið 2024.
Landsbankinn hefur sett sér sjálfbærnimarkmið um samdrátt í beinni og óbeinni losun gróðurhúsalofttegunda. Bankinn setti sér það markmið að draga úr losun frá umfangi 1 um 80% fyrir árið 2025 miðað við árið 2018. Það markmið náðist ekki. Losun bankans í umfangi 1 stafar nær eingöngu af eldsneytisnotkun þar sem langstærsti hluti olíukaupanna fer í rekstur bílaflota bankans. Áætlanir um að endurnýja bílaflota bankans með bílum sem nýta endurnýjanlega orkugjafa hafa ekki gengið eins hratt og vonast var til þegar markmiðið var sett árið 2020. Við lok árs 2023 var ljóst að markmiðinu yrði ekki náð og því var gripið til aðgerða. Sjálfbærnimarkmið bankans voru uppfærð og ráðstafanir gerðar til að tryggja framgang þess í framtíðinni. Þessar ráðstafanir fela í sér að frá 1. janúar 2025 mun bankinn hætta að kaupa ökutæki sem ganga eingöngu fyrir jarðefnaeldsneyti og frá 1. janúar 2027 mun bankinn eingöngu kaupa ökutæki sem ganga fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum svo sem rafmagni.
Varaaflstöð sem gengur fyrir dísilolíu getur farið í gang ef rafmagn fer af byggingunni, en sú notkun er óverulegur hluti af heildarolíukaupum. Landsbankinn heldur enn fast í markmiðið um að draga úr losun frá umfangi 1 um tæplega 100% miðað við árið 2018 fyrir árið 2030. Bankinn telur að með þeim aðgerðum sem lýst er hér að ofan sé þetta markmið raunhæft.
Til að ná fram samdrætti í óbeinni losun gróðurhúsalofttegunda skuldbatt Landsbankinn sig til að setja sér markmið út frá aðferðafræði Science-Based Targets initiative (SBTi) fyrir fjármálafyrirtæki. Í ársbyrjun 2024 staðfesti SBTi markmið Landsbankans um samdrátt í losun og nær staðfestingin yfir bæði beina og óbeina losun. Markmiðið styður við framkvæmd Parísarsamningsins sem miðar að því að takmarka meðalhækkun hitastigs jarðar við 1,5°C fyrir árið 2100 miðað við tímabilið fyrir iðnbyltinguna.
Flokkun og endurvinnsla úrgangs
Landsbankinn hefur á síðustu árum lagt mikinn metnað í að lágmarka umhverfisáhrif sín vegna meðhöndlunar á úrgangi, bæði í formi minni losunar og með því að ýta undir frekari þróun á hringrásarhagkerfi með endurvinnslu og -nýtingu.
Hlutfall flokkaðs sorps hefur á aðeins fjórum árum aukist úr liðlega 55% upp í rétt tæplega 90% árið 2024. Samhliða hærra flokkunarhlutfalli hefur endurvinnslu- og endurnýtingarhlutfall á úrgangi bankans aukist og var 95% á árinu 2024 í stað 49% árið 2021. Þessi aukning í flokkun og endurvinnslu og -nýtingu átti sér stað á sama tíma og magn úrgangs frá bankanum jókst um rúmlega 25%, eða sem næst 28 tonn.
Samgöngur starfsfólks
Landsbankinn leggur áherslu á sveigjanleika og býður starfsfólki að nýta sér ólíkar starfsstöðvar sem felur í sér að starfsfólk geti unnið í fjarvinnu þegar störf og verkefni leyfa. Landsbankinn býður starfsfólki sínu einnig að gera samning um að nýta sér vistvænar samgöngur.
Landsbankinn er með samning við Hopp og starfsfólk getur nýtt hlaupahjól þeirra í vinnutengdum erindum sér að kostnaðarlausu frá kl. 8-17 á virkum dögum. Aðstaðan fyrir hjólreiðafólk er mjög góð í nýju húsi bankans við Reykjastræti, en þar er rúmgóð hjólageymsla með mismunandi hjólafestingum og þurrkskápum.
Við gerðum árlega samgöngukönnun á meðal starfsfólks í lok árs 2024 og svöruðu 526 könnuninni. Þegar skoðað var hvaða ferðamáta starfsfólk nýtti sér til og frá vinnu voru 7,4% sem nýttu sér almenningssamgöngur, 28,5% komu gangandi eða hjólandi, 55,1% komu á einkabíl og 8,6% starfsfólks fékk far með öðrum. Gangandi og hjólandi starfsfólk er tekið saman í einn flokk en 13,1% starfsfólks gengur í vinnuna, rúmlega 8% ferðast á hjóli og um 7% ferðast á rafmagnshjóli eða -hlaupahjóli.
Meirihluti starfsfólks sem ferðast á einkabíl til og frá vinnu er á bíl sem er knúinn jarðefnaeldsneyti. Fjórðungur starfsfólks er á rafmagnsbíl og tæplega 20% starfsfólks eru á tengiltvinnbíl eða tvinnbíl.
Heildarlosun vegna samgangna starfsfólks til og frá vinnu var 257 ktCO₂í árið 2024 sem er 4,8% hækkun frá árinu 2023.
Fjármögnuð losun
Við þekkjum heildarlosun frá útlánasafni okkar. Á árinu 2024 áætluðum við losun gróðurhúsalofttegunda frá útlánasafni bankans í fjórða skiptið. Við höfum tekið virkan þátt í þróun alþjóðlegs loftslagsmælis fyrir fjármálafyrirtæki innan vébanda PCAF, samstarfsvettvangs fjármálafyrirtækja. Helsta áskorun banka almennt í vegferðinni að kolefnishlutleysi hefur verið að meta óbein umhverfisáhrif sín. Í tilfelli Landsbankans kemur t.d. minna en 1% losunar frá beinum rekstri hans.
Sérfræðingar okkar taka þátt í að leiða þróun á loftslagsmæli PCAF sem gerir fjármálafyrirtækjum kleift að meta óbein umhverfisáhrif sín og setja tölfræðina fram á samræmdan hátt.
Yfir 550 fjármálafyrirtæki hafa nú skuldbundið sig til að nota aðferðafræði PCAF við mat á óbeinum umhverfisáhrifum sínum. Árið 2022 gerðumst við einnig aðilar að PCAF Nordic þar sem fjármálafyrirtæki á Norðurlöndunum leitast við að aðlaga umgjörðina að sínum veruleika og skapa samvinnuvettvang. Sérfræðingur Landsbankans er varaformaður (e. co-chair) hjá PCAF Nordic.
Greining Landsbankans á losun gróðurhúsalofttegunda nær einnig yfir efnahagsreikning bankans. Losun fyrir árið 2023 er reiknuð skv. aðferðafræði PCAF og er jafnan kölluð fjármögnuð losun. Hún telst til óbeinnar losunar undir fimmtánda og síðasta flokknum í umfangi 3 þar sem hún tekur til losunar í umföngum 1 og 2 frá viðskiptavinum og eignum í lána- og eignasafni bankans. Losun frá útlánum viðskiptavina bankans er áætluð að hafa verið 215 ktCO₂í á árinu 2023.
Líkt og þegar síðasta skýrsla um fjármagnaða losun bankans kom út hefur orðið uppfærsla á grunngögnum fyrir losunarstuðla sem bankinn notast við. Þessi breyting snertir eingöngu útreikning á fjármagnaðri losun tengdri íbúðalánum. Gerð er frekari grein fyrir nýju losunarstuðlunum í kaflanum fyrir íbúðalánin og til að gæta samræmis á milli ára hefur bankinn endurreiknað fjármagnaða losun íbúðalána á árunum 2019-2022. Stöðugt er leitað leiða til að betrumbæta stoð- og grunngögn fyrir kolefnisútreikninga. Bankinn innleiddi árið 2024 hjá sér nýtt sjálfbærniviðmót sem kallast Vera og veitir bankanum aðgengi að upplýsingum um UFS-þætti í rekstri íslenskra fyrirtækja á samræmdan máta.
Vísindalega samþykkt markmið (SBTi) bankans um samdrátt í kolefnislosun frá lána- og eignasafni sínu notast við árið 2019 sem viðmiðunarár. Fjármögnuð losun útlánasafns bankans á árinu 2023 er um 53 ktCO₂í lægri en viðmiðunarársins en það má helst rekja til lægri losunar frá ferðaþjónustufyrirtækjum í viðskiptum við bankann.
Þær þrjár atvinnugreinar í útlánasafni bankans sem losa mest eru ferðaþjónusta, sjávarútvegur og svo þjónusta, upplýsingatækni og fjarskipti. Þessar atvinnugreinar hafa losað mest á hverju ári frá því að bankinn byrjaði að reikna fjármagnaða losun sína árið 2019 og eru ábyrgar fyrir um 66% af áætlaðri heildarlosun frá útlánasafni bankans. Ferðaþjónusta annars vegar og þjónusta, upplýsingatækni og fjarskipti hins vegar eru áætlaðar losa hvað mest árið 2023, 66 ktCO₂í og 43 ktCO₂í. Ferðaþjónustan hefur í gegnum árin verið með mestu heildarlosunina en hefur þó verið sú atvinnugrein þar sem losun hefur dregist hvað mest saman frá árinu 2019, þegar hún var upp undir 130 ktCO2í.
Frekari upplýsingar eru birtar í skýrslu bankans um fjármagnaða losun.
Starfsemin áfram kolefnisjöfnuð
Við höfum kolefnisjafnað hefðbundna starfsemi bankans fyrir árið 2024 og endurnýjað hina alþjóðlega viðurkenndu CarbonNeutral® vottun okkar, auk þess sem starfsemi bankans er kolefnisjöfnuð með bindingu eða með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Kolefnisjöfnunin, sem unnin var í samstarfi við Climate Impact Partners, hefur þegar átt sér stað og er bindingin vottuð samkvæmt ströngustu alþjóðlegu stöðlum.
Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.