Aukin umsvif og góður árangur

Viðskiptavinir brugðust vel við herferðum til að auka sparnað í sjóðum og lífeyrissparnað á árinu. Áfram var lögð mikil áhersla á að treysta sambönd við viðskiptavini og bjóða upp á bæði traust og tímanlegt upplýsingaflæði ásamt fræðslu fyrir sérstaklega yngri kynslóðina. 

Fólk að taka ljósmyndir

Árið einkenndist líkt og svo oft áður af töluverðum sveiflum á mörkuðum, nú vegna jarðhræringa, kosninga og pólitísks óróa hér heima og erlendis, háu vaxtastigi og verðbólgu á Íslandi. Auk þess hefur þetta verið viðburðaríkt ár á innlendum markaði, með sameiningarviðræðum JBT og Marel, samþykki bandaríska lyfjaeftirlitsins á líftæknilyfjahliðstæðulyfi Alvotech og svo bæði skráningu félaga á markað og eins tilvika þar sem hætt var við skráningu. 

Segja má að ákveðin þáttaskil hafi orðið á íslenskum hlutabréfamarkaði þegar seðlabankar hér heima og erlendis vaxtalækkunarferli. Um leið og ársverðbólgutakturinn fór að lækka hækkaði markaðurinn um tæp 26% frá lægsta punkti um miðjan september og um tæp 16% frá síðustu áramótum. Velta bankans á hlutabréfamarkaði jókst um 32% á meðan velta á skuldabréfamarkaði lækkaði lítillega á milli ára, eftir að hafa aukist um 33% árið áður. Vísitölur vestanhafs hækkuðu um og yfir 20% á meðan hækkun vísitalna austanhafs var nær 5%.

Umtalsverður vöxtur eignastýringar

Umsvif eignastýringar bankans hafa vaxið umtalsvert á árinu og gengið vel. Eignir í stýringu hjá samstæðunni jukust umtalsvert sem verður að teljast góður árangur þegar sveiflur í ytra umhverfi eru jafn miklar og raun ber vitni. Gjaldeyrisflæði og þar með tekjur af gjaldeyrisviðskiptum hefur haldist sterkt. Aukið umfang í eignastýringu og miðlun skilar sér í auknum þjónustutekjum, en þjónustutekjur samstæðunnar hafa vaxið um 8% á árinu.

Frábær árangur í sparnaðarherferðum ársins

Á árinu lögðum við í nokkrar sparnaðarherferðir. Í einni þeirra var viðskiptavinum bankans boðinn 100% afsláttur af gjaldi við kaup í sjóðum Landsbréfa ef keypt var í gegnum appið eða netbankann og hinar herferðirnar snéru að því að auka fræðslu til yngri kynslóðanna, kynna sparnað fyrir börnum á fermingaraldri og ungu fólk í sumarvinnu. Sjóðir eru áhrifarík leið til ávöxtunar og með sparnaði í sjóðum er áhættunni dreift og ávöxtunarmöguleikar aukast.

Mikil áhersla var lögð á auglýsingar og markaðssetningu á lífeyrissparnaði sem skilaði rúmlega 14% aukningu í lífeyrissparnaði hjá ungu fólki á aldrinum 18 til 24 ára. Lífeyrissparnaður getur haft mikil áhrif á það svigrúm sem fólk hefur til að njóta lífsins eftir starfslok og skapar möguleika á að hætta fyrr að vinna.

Ánægjulegt er að sjá jákvæð viðbrögð viðskiptavina við herferðum og þá aukningu sem varð í sparnaði á árinu í kjölfarið.

Ung kona að störfum

Lífeyrissamningar og aðrar lausnir í appinu

Á árinu var kynnt ný virkni í appinu sem gerir viðskiptavinum kleift að sækja um bæði viðbótar- og skyldulífeyrissparnað, breyta um ávöxtunarleið á mjög einfaldan hátt og sjá ítarleg yfirlit yfir greiðslur og réttindi, allt á einum stað. Þessari nýju virkni hefur verið vel tekið af viðskiptavinum og hefur fjöldi nýrra samninga ekki verið meiri á einu ári. Samhliða þessari lausn kynntum við einnig reiknivél fyrir lífeyrissparnað og uppfærðum viðmót lífeyrissparnaðar.

Á árinu var unnið að þróun lausna sem auðvelda viðskiptavinum að fylgjast með viðburðum á markaði og bregðast við þeim. Sú vinna heldur áfram á árinu 2025 og gert er ráð fyrir að nýjar lausnir líti dagsins ljós á næstunni.

Fyrst til að birta rauntímagengi

Landsbankinn hóf í byrjun árs 2024 að birta rauntímagengi hlutabréfa á vef sínum ásamt því að vera með birtingu í verðbréfahluta appsins og netbanka. Landsbankinn er fyrsti bankinn á Íslandi sem birtir þessar upplýsingar á vef sínum og hefur fjölda heimsókna á síðuna fjölgað um 21% frá breytingu. Önnur skemmtileg virkni á vefnum og í sjálfsafgreiðslulausnum bankans er hversu auðvelt er að bera saman gengisþróun mismunandi fjármálagerninga. Þetta getur komið viðskiptavinum að góðum notum við val á fjárfestingu í tilteknum sjóði eða hlutabréfum. Samanburðurinn getur líka sýnt hvernig ólíkir sjóðir hafa þróast í gegnum tíðina. Slíkan samanburð er gott að hafa til hliðsjónar til að gera sér grein fyrir mismunandi sveiflum á milli eignaflokka.

Skrifstofa

Gott framboð á áhugaverðri fræðslu

Fundaröð um netöryggis- og lífeyrismál, sem haldin var víða um land, var einkar vel sótt. Einnig voru birtar fróðlegar greinar um verðbréfaviðskipti, m.a. um kosti þess að fjárfesta í eignadreifingarsjóðum.

Vel heppnaðir fundir um allt land

„Við leggjum mikið upp úr að halda góðum tengslum við viðskiptavini, m.a. með því að bjóða á minni og stærri viðburði, fræðslufundi og í heimsóknir. Á haustmánuðum og fram undir árslok bauð bankinn til Fjármálamóts víðs vegar um landið og í þetta sinn var áhersla fræðslufundanna á lífeyrismál og netöryggi.

Góður árangur Landsbréfa

Rekstur Landsbréfa hf., dótturfélags bankans gekk vel á árinu 2024, þrátt fyrir krefjandi aðstæður á mörkuðum og þá einkum innanlands framan af ári. Verðbólga lækkaði hægar á árinu en væntingar stóðu til, markaðsaðstæður voru erfiðar og vextir héldust háir fram eftir ári hér á landi. Íslenskur hlutabréfamarkaður fór að taka við sér í september og styrktist enn frekar þegar vaxtalækkunarferli seðlabanka hér heima og erlendis hófust á haustmánuðum. Reyndist ávöxtun frá miðjum september til ársloka einstaklega góð og gerði það að verkum að árið í heild skilaði góðri ávöxtun og þá sérstaklega fyrir þá sem áttu gott safn hlutabréfa.

Í fararbroddi á íslenskum sjóðamarkaði

Rekstur Landsbréfa er í grófum dráttum tvíþættur, þ.e. sjóðastýring og svo eignastýring. Á sviði sjóðastýringar Landsbréfa má segja að ávöxtun hafi verið mjög góð með tilliti til markaðsaðstæðna og eins í samanburði við samkeppnisaðila. Almennt var árið ekki neitt sérstakt á skuldabréfamarkaði en skuldabréfasjóðir Landsbréfa skiluðu almennt góðri ávöxtun í samanburði við samkeppnisaðila. Erlendir hlutabréfasjóðir Landsbréfa með virka stýringu gengu mjög vel á árinu. Hlutabréfasjóðir Landsbréfa skiluðu almennt mjög góðum árangri og var sérstaklega ánægjulegt að sjá Landsbréf – Heklu skila vel yfir 20% ávöxtun. Þessi hlutabréfasjóður, sem Landsbréf hafa rekið í rúman áratug, stóð almennum fjárfestum fyrst til boða frá því í nóvember á árinu 2024, en hann hafði áður verið einskorðaður við fagfjárfesta.

Blandaðir sjóðir Landsbréfa, þ.e. sjóðir sem fjárfesta bæði í innlendum og erlendum hlutabréfum og skuldabréfum, skiluðu framúrskarandi árangri á árinu og voru í fararbroddi á íslenskum sjóðamarkaði.

Á sviði sérhæfðra fjárfestinga gekk reksturinn mjög vel. Það var einstaklega ánægjulegt að ljúka slitum á Landsbréf – Hvatningu slhf. sem var einn stærsti fjárfestirinn í Bláa Lóninu hf. Með slitunum fengu hluthafar afhent hlutabréf í Bláa Lóninu hf. og hafði sjóðurinn skilað mjög góðri ávöxtun til fjárfesta sinna. Þá voru seldar stórar eignir úr framtakssjóðnum Horni III slhf. og í kjölfarið voru greiddir rúmir 2 milljarðar króna til hluthafa í formi arðs og vegna lækkunar hlutafjár. Í desember var síðan lækkað hlutafé í nýsköpunarsjóðnum Brunni vaxtarsjóði og fengu hluthafar við þá lækkun framseldan allan eignarhlut sjóðsins í Oculis, en sú fjárfesting hefur reynst sjóðnum og fjárfestum í honum einstaklega farsæl.

Fjölskylda úti í náttúru

Metnaðarfull og viljum standa undir trausti

Landsbréf ráku í árslok alls 41 sjóð, bæði verðbréfasjóði og sérhæfða sjóði. Sjóðaframboð Landsbréfa er mjög breitt og þar er hægt að finna fjárfestingakosti sem henta vel flestum fjárfestum. Á árinu var einum framtakssjóði, Landsbréf – Hvatningu slhf. slitið. Nýr framtakssjóður, Horn V slhf., var stofnaður í lok árs, en stefnt er að því að ljúka söfnun áskriftaloforða í þann sjóð á fyrsta ársfjórðungi. 

Ávöxtun á eignasöfnum í eignastýringu var almennt mjög góð, en eignastýring Landsbréfa sinnir eingöngu eignastýringarverkefnum fyrir viðskiptavini Landsbankans, en þar á meðal eru lífeyrissjóðir í rekstri bankans. Virk og ábyrg stýring með góðri eignadreifingu skiptir miklu máli við ávöxtun fjármuna. Þar eru Landsbréf í fararbroddi og starfsfólk félagsins leggur metnað sinn í að standa undir því trausti sem þúsundir sjóðfélaga hafa sýnt félaginu með því að fjárfesta í sjóðum félagsins. Sjóðaframboð Landsbréfa er mjög breitt og þar er hægt að finna fjárfestingakosti sem henta vel flestum fjárfestum. 

Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur