Við heimsóttum Reykjanesbæ, Akureyri, Selfoss og Reyðarfjörð og héldum líka fund í Landsbankanum við Reykjastræti í Reykjavík. Vegna mikils áhuga var fundurinn í Reykjavík endurtekinn, því færri komust að en vildu í upphafi. Þetta hefur heppnast mjög vel og við höfum fullan hug á að halda þessari fundaröð áfram.
Fræðslan sem snéri að lífeyrismálum var sérstaklega sniðin að þörfum þeirra sem sjá fram á lífeyristöku á næstu árum. Ég fór meðal annars yfir hvers er að vænta við starfslok og hvaða ráðstafanir þarf að gera áður en kemur að lífeyrisaldri og starfslokum. Þetta eru atriði sem mjög margir eru að velta fyrir sér, meðal annars með tilliti til frítekjumarks og skerðinga hjá Tryggingastofnun ríkisins. Við fórum líka yfir kosti og galla, sem og áhrif snemmbúinnar lífeyristöku og skiptingu lífeyrisréttinda. Töluvert er um að fólk bóki fundi með lífeyrisráðgjafa í kjölfar fundanna, til nánara skrafs og ráðagerða. Það er gaman að sjá hversu fundirnir eru vel sóttir og fundargestir duglegir að taka þátt og spyrja spurninga.“