Verkefnið er ekki nýtt af nálinni en á árinu lögðum við aukna áherslu á að gera starfsfólki á landsbyggðinni kleift að vinna verkefni sem unnt er að vinna óháð staðsetningu.
Ef viðskiptavinur vill fá þjónustu eða ráðgjöf, en óskar ekki eftir að koma í útibú, er þeim verkefnum miðlað gegnum Miðjuna. Í Miðjunni sér starfsfólk í útibúum um allt land hvaða verkefni liggja fyrir og getur gripið þau, hringt í viðskiptavini vegna íbúðalánaráðgjafar, átt með þeim fjarfund eða afgreitt erindi í tölvupósti, svo dæmi séu nefnd. Það hefur munað gríðarlega mikið um þetta. Miðjan hefur stytt afgreiðslutíma og aukið og bætt aðgengi að þjónustu bankans og þannig gert bankanum mögulegt að veita enn betri þjónustu. Miðjan eykur líka fjölbreytni, tækifæri og ánægju í störfum á landsbyggðinni.
Þetta er ekki eina dæmið um hvernig útibúanetið styrkir þjónustu bankans. Þjónustuver bankans er bæði staðsett í Reykjavík og á Akureyri en starfsfólk þess vinnur víðar um landið. Mikill og góður árangur hefur verið af innleiðingu á nýju þjónustuverskerfi sem gerir starfsfólki allra útibúa kleift að tengjast Þjónustuverinu og taka þátt í að svara símtölum og erindum sem þangað berast. Þannig hefur starfsfólk í útibúum stytt bið eftir svörum sem kemur sér sérlega vel á álagstímum. Um 45 starfsmenn í útibúum um allt land tóku með þessum hætti þátt í starfi Þjónustuversins á síðasta ári.
Öll vitum við að heimsóknum í útibú hefur fækkað, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Með Miðjunni hefur okkur tekist að færa þjónustuverkefni til starfsfólks í öllu útibúanetinu óháð búsetu þess og þeirra viðskiptavina sem þiggja þjónustuna. Miðjan er ein af best heppnuðustu breytingum sem við höfum gert á útibúaneti bankans og þeirri þjónustu sem það veitir viðskiptavinum. Þetta er gott dæmi um hvernig hægt er að hagnýta tækni til að styrkja starfsemi á landsbyggðinni – og um leið að efla þjónustu á landsvísu.“