Þá hafa aldrei fleiri fyrirtæki stofnað bankareikninga í sjálfsafgreiðslu en það var gert í um 83% tilvika. Við gerum ráð fyrir að þessi hlutföll haldi áfram að hækka á næstu árum.
Meðal annarra nýjunga sem við kynntum var að fyrirtæki geta með auðveldum hætti sótt sér yfirdráttarlán í sjálfsafgreiðslu. Þetta er góð lausn fyrir fyrirtæki sem þurfa skammtímalán með sveigjanlegum lánstíma til að stýra greiðsluflæði í takt við sínar þarfir.
Nýr netbanki fyrirtækja
Fjölmargar fleiri nýjungar eru fram undan í netbanka fyrirtækja sem snúa meðal annars að nýju flæði, nýju útliti og nýrri tækni. Má í raun segja að um nýjan og notendavænni netbanka verði að ræða, þar sem aðgengi er einfaldað til muna og uppfært til að líkjast því sem notendur eru vanir í Landsbankaappinu. Meðal nýjunga sem var unnið að á árinu 2024 en kynntar snemma á árinu 2025 er að notendur munu geta framkvæmt allar helstu greiðsluaðgerðir frá einum og sama stað. Í stað RSA-lyklanna og leyninúmera verður hægt að velja á milli fingrafars eða andlitsgreiningar í síma, rafrænna skilríkja eða Auðkennisappsins við innskráningu og staðfestingu aðgerða.
Við teljum að þessar breytingar muni falla vel í kramið en við höfum unnið að þeim í góðri samvinnu við öflugan hóp viðskiptavina sem gaf okkur dýrmæta endurgjöf, alveg frá hugmyndavinnunni að prófunum á fullgerðri lausn.
Landsbankinn heldur forystu sinni við að opna bankakerfið, í samræmi við PSD2-reglugerðina. Við héldum áfram að þróa og fjölga vefþjónustum okkar til að bæta þjónustu, einfalda aðgengi að fjárhagslegum lausnum og stuðla að nýsköpun og samkeppni í fjármálaþjónustu. Á árinu kynntum við nýjar vefþjónustur fyrir kreditkort og innheimtukröfur.