Lykillinn að þægilegri bankaþjónustu 

Á árinu 2024 héldum við áfram að bæta við nýjungum í Landsbankaappið og gera þjónustu bankans enn notendavænni og auðveldari í notkun. Nýju spjallmenni bankans var vel tekið, við héldum áfram að efla netöryggi og tækniumhverfi bankans var styrkt enn frekar, sem eykur skilvirkni og sveigjanleika í rekstri. 

Ungt fólk úti í náttúru

Landsbankaappið er langalgengasta leið viðskiptavina til að nýta sér þjónustu bankans en í hverjum mánuði skrá yfir 146 þúsund notendur sig inn í appið. Notkunin á appinu er mikil en að meðaltali voru 3,5 milljónir innskráninga í appið á mánuði, sem er 13% aukning á milli ára. Aukin notkun endurspeglar vaxandi eftirspurn eftir stafrænum lausnum sem einfalda lífið og bæta yfirsýn yfir fjármálin. 

Appið er fyrir alla

Nú geta allir notað Landsbankaappið, hvort sem þeir eru í viðskiptum við Landsbankann eða ekki. Hægt er að sækja það og skrá sig inn með rafrænum skilríkjum eða Auðkennisappinu án nokkurra skuldbindinga, skoða og prófa ýmsa þjónustu bankans. Nú er líka mun auðveldara að koma í viðskipti og virkja þannig alla möguleika appsins.

Í Landsbankaappinu er hægt að fylgjast með stöðu reikninga hjá öðrum bönkum og millifæra fjármuni af reikningum sínum í öðrum bönkum. Þetta er eitt af því sem hvergi er í boði nema í Landsbankaappinu. Þessi virkni appsins auðveldar viðskiptavinum að hafa raunverulega yfirsýn yfir og stjórna öllum fjármálum sínum á þægilegan hátt.

Maður í farsíma

Endurfjármögnun aldrei verið þægilegri

Við mælum með að viðskiptavinir fari reglulega yfir kjörin á íbúðalánum sínum og öðrum lánum og skoði hvort hagstætt geti verið að skipta um lánsform eða lánveitanda. Það skiptir máli að endurfjármögnun sé aðgengileg og það er hún svo sannarlega hjá Landsbankanum. Meðal nýjunga á árinu er nýtt umsóknarferli fyrir íbúðalán í appinu og á landsbankinn.is.

Við getum boðið upp á endurfjármögnun í appinu í krafti þess að bankinn hefur á undanförnum árum einfaldað undirliggjandi ferli og býr yfir öflugum upplýsingatæknikerfum sem gera honum kleift að sækja og meta nauðsynlegar upplýsingar með skjótum hætti. Þegar viðskiptavinur hefur valið þá lánaleið sem hentar best er hægt að yfirfara umsóknina áður en hún er send inn. Við höfum svo samband í kjölfarið.

Rafrænar lausnir í fyrirrúmi 

Endurfjármögnun í appinu byggir m.a. á rafrænni þinglýsingu íbúðalána, sem Landsbankinn var fyrstur til að bjóða upp á. Þegar frumvarp um rafrænar skuldaviðurkenningar verður að lögum, munu viðskiptavinir geta lokið endurfjármögnun að fullu í Landsbankaappinu eða á vefnum. Með þessum nýjungum erum við í fararbroddi við að bjóða framúrskarandi þjónustu og þægindi í endurfjármögnun íbúðalána. 

Ellí: Spjallmenni Landsbankans

Nýtt spjallmenni bankans, sem fékk nafnið Ellí, fór í loftið í febrúar og er hún nú orðin mikilvægur hluti af þjónustu bankans. Ellí svarar spurningum um bankaþjónustu og fjármál og leiðbeinir um notkun sjálfsafgreiðslulausna en svörin byggja á gagnagrunni sem er stöðugt í þróun. Nafnið Ellí vísar til arfleifðar bankans sem áður nefndist Landsbanki Íslands (L-Í).

Ellí er aðgengileg allan sólarhringinn. Frá febrúar og fram til áramóta spjallaði hún við viðskiptavini í 976 klukkustundir og hefur frá upphafi leyst úr tæplega 60% erinda sem henni berast í netspjalli. Ellí talar íslensku en getur í auknum mæli einnig svarað fyrirspurnum á ensku. Við höldum áfram að þróa Ellí með það markmið að bæta þjónustu og auka þægindi í samskiptum við bankann.

Ellí svaraði
285.358
spurningum
Endurgjöf viðskiptavina
87,5%
jákvæð
Heildarlengd samtala
976
klukkustundir

Nýjar samskiptaleiðir í appinu

Á árinu kynntum við fjölmargar nýjungar í Landsbankaappinu sem miða að því að bæta stafræna þjónustu og efla samskipti við viðskiptavini.

Ein helsta nýjungin er innhólf í appinu, sem veitir okkur tækifæri til að koma mikilvægum upplýsingum og tilkynningum til viðskiptavina með einföldum, sýnilegum og aðgengilegum hætti. Skilaboð í gegnum innhólfið geta beint viðskiptavinum í sjálfsafgreiðsluferli, sem sparar tíma og eykur skilvirkni. Til að tryggja enn betri sýnileika er einnig hægt að fylgja skilaboðum eftir með tilkynningarborða eða þrýstiboðum (e. push notification).

Meðmælaborðar eru önnur nýjung sem er hugsuð sem markviss leið til að kynna vörur og þjónustu bankans. Með meðmælaborða er hægt að senda sérsniðin skilaboð til ákveðinna markhópa með áberandi framsetningu sem styrkir tengingu við viðskiptavini. Loks kynntum við vöruspjöld, sem birtast á forsíðu appsins og veita viðskiptavinum einfaldan aðgang að þjónustu sem þeir eru ekki þegar með. Með einum smelli geta viðskiptavinir hafið sjálfsafgreiðsluferli og klárað það fljótt og örugglega.

Vöruspjöldin eru sérsniðin fyrir viðskiptavini og kynna meðal annars bankareikninga, kort, sparnað, lán og verðbréf. Verkefnið er hluti af stefnu bankans um að efla stafræna þjónustu og bæta samskipti við viðskiptavini í appinu.

Þessar nýjungar undirstrika áherslu bankans á að nýta tæknina til að auka gæði þjónustu og bæta upplifun viðskiptavina.

Skjámynd úr appi

Öryggisstillingar korta aðgengilegar í appi

Netsvikum og tilraunum til netsvika hefur fjölgað mikið og við höfum brugðist við með ýmsum hætti, bæði með tæknilausnum og fræðslu. Í júlí bættum við stillingarmöguleikum við Landsbankaappið sem auka enn frekar öryggi í korta- og bankaviðskiptum. Nýju stillingarnar gera korthöfum kleift að loka ýmist á notkun plastkorts, snertilausar greiðslur, erlendar greiðslur, greiðslur í netverslun eða notkun í hraðbönkum og stýra þannig notkun korta sinna.

Með því að takmarka notkun greiðslukorta geta korthafar aukið öryggi sitt og komið í veg fyrir misnotkun ef svindlarar komast yfir kortaupplýsingar eða kortið sjálft.

Til að auka enn frekar öryggi í appinu bættum við einnig við möguleikanum á neyðarlokun. Með honum geta viðskiptavinir lokað þegar í stað fyrir aðgang að appi og netbanka hvenær sem er sólarhringsins, t.d. ef grunur leikur á að óviðkomandi hafi komist yfir aðgangsupplýsingar. Hægt er að opna aftur fyrir aðgang með aðstoð starfsfólks bankans.

Við fjölguðum einnig auðkenningarleiðum sem standa viðskiptavinum til boða. Nú geta þeir t.a.m. notað lífkenni hvort sem það er til að staðfesta millifærslur eða aðrar greiðslur í netbönkum.

Skjámynd úr appi

Nýjungar sem auka sjálfvirkni, sveigjanleika og skilvirkni

„Á árinu innleiddum við mikilvægar nýjungar í tækniumhverfið sem styrkja okkur til framtíðar. Þar má nefna að nú byggir Landsbankaappið alfarið á nýju hönnunarkerfi bankans. Með slíku einingasafni sem hönnunarkerfið er styttist sá tími sem fer í þróun, greiningu og smíði notendaviðmóta. Meðal nýjunga má einnig nefna að nú er hægt að nýta appið bæði til innskráningar í netbanka og staðfesta greiðslur.

Fjölmargar nýjungar fyrir fyrirtækin

Meðal nýrra lausna fyrir fyrirtæki sem við kynntum á árinu eru kreditkortakvittanir beint í bókhaldið. Þessi virkni eykur skilvirkni í bókhaldi fyrirtækja en með því að smella á kortafærslu í færsluyfirliti er hægt að bæta við viðhengi eins og greiðslukvittun eða nótu, setja inn skýringu og velja viðeigandi bókhaldslykil. Lausnin er einföld og þægileg í notkun og sparar fyrirtækjum mikinn tíma auk þess að bæta ferla og rekjanleika í bókhaldi. Fyrirtæki sýndu þessari nýjung mikinn áhuga og voru fljót að tileinka sér lausnina.

Við kynntum einnig aðra nýjung sem gerir fyrirtækjum kleift að fá tilkynningar í appinu. Nú geta fyrirtæki auðveldlega fylgst með innlögnum á reikninga og fengið viðvaranir um ógreiddar kröfur. Þetta einfaldar fjármálaumsýslu og tryggir betri yfirsýn yfir stöðu viðskipta í rauntíma.

Netbanki fyrirtækja býður upp á mikla möguleika á sjálfsafgreiðslu og fyrirtæki nýta sér þá í síauknum mæli.

Í lok árs sinntu fyrirtæki 86,2% erinda sinna í sjálfsafgreiðslu sem er um 3 prósentustiga aukning frá fyrra ári. Liðlega 87% af þeim viðskiptagerningum sem fyrirtæki undirrituðu á árinu voru gerðir með rafrænni undirritun.

Þá hafa aldrei fleiri fyrirtæki stofnað bankareikninga í sjálfsafgreiðslu en það var gert í um 83% tilvika. Við gerum ráð fyrir að þessi hlutföll haldi áfram að hækka á næstu árum.

Meðal annarra nýjunga sem við kynntum var að fyrirtæki geta með auðveldum hætti sótt sér yfirdráttarlán í sjálfsafgreiðslu. Þetta er góð lausn fyrir fyrirtæki sem þurfa skammtímalán með sveigjanlegum lánstíma til að stýra greiðsluflæði í takt við sínar þarfir.

Nýr netbanki fyrirtækja

Fjölmargar fleiri nýjungar eru fram undan í netbanka fyrirtækja sem snúa meðal annars að nýju flæði, nýju útliti og nýrri tækni. Má í raun segja að um nýjan og notendavænni netbanka verði að ræða, þar sem aðgengi er einfaldað til muna og uppfært til að líkjast því sem notendur eru vanir í Landsbankaappinu. Meðal nýjunga sem var unnið að á árinu 2024 en kynntar snemma á árinu 2025 er að notendur munu geta framkvæmt allar helstu greiðsluaðgerðir frá einum og sama stað. Í stað RSA-lyklanna og leyninúmera verður hægt að velja á milli fingrafars eða andlitsgreiningar í síma, rafrænna skilríkja eða Auðkennisappsins við innskráningu og staðfestingu aðgerða.

Við teljum að þessar breytingar muni falla vel í kramið en við höfum unnið að þeim í góðri samvinnu við öflugan hóp viðskiptavina sem gaf okkur dýrmæta endurgjöf, alveg frá hugmyndavinnunni að prófunum á fullgerðri lausn. 

Landsbankinn heldur forystu sinni við að opna bankakerfið, í samræmi við PSD2-reglugerðina. Við héldum áfram að þróa og fjölga vefþjónustum okkar til að bæta þjónustu, einfalda aðgengi að fjárhagslegum lausnum og stuðla að nýsköpun og samkeppni í fjármálaþjónustu​​. Á árinu kynntum við nýjar vefþjónustur fyrir kreditkort og innheimtukröfur.

Fjölskylda

Þægilegri lífeyrissparnaður í appinu

Lífeyrismál geta verið flókin en með nýjum möguleikum í Landsbankaappinu stigum við stórt skref í þá átt að einfalda þau til muna. Síðan í júní 2024 hefur verið hægt að sækja um skyldu- og viðbótarlífeyrissparnað í appinu og einnig breyta núverandi samningi. Umsóknarferlið er mun einfaldara og auðveldara. Umsækjendum í skyldulífeyrissparnaði býðst að velja eina af algengustu samsetningunum eða sérstilla sína leið. Í viðbótarlífeyrissparnaði geta viðskiptavinir haldið sig við Lífsbrautina eða valið úr öðrum fjölbreyttum ávöxtunarleiðum. Samhliða þessari breytingu var viðmótið uppfært þannig að viðskiptavinir geti séð ítarlegri upplýsingar um þróun inneignar á lífeyrissparnaði sínum og reiknivél birt sem sýnir möguleg eftirlaun. Í reiknivélinni geta viðskiptavinir breytt forsendum og séð þannig hvernig lífeyrissparnaður mun þróast miðað við mismunandi breytur.

Eftir þessar breytingar tók sjálfsafgreiðsluhlutfall fyrir skyldu- og viðbótarlífeyrissparnað að hækka. Í lok árs var hlutfallið komið í 81% á mánuði, sem má teljast mjög góður árangur og greinilegt að viðskiptavinir kunna vel að meta þennan möguleika.

Nýjum viðskiptavinum í lífeyrissparnaði hélt áfram að fjölga á árinu og var aukningin um 6% frá fyrra ári. Áhugavert er að sjá aukningu á samningum um skyldulífeyrissparnað hjá fólki á aldrinum 16 til 24 ára en í þeim aldurshópi var aukningin 23% á milli ára.

Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur