Styðjum atvinnuvegi með framúrskarandi þjónustu

Samhliða sífelldri þróun á netbankanum og Landsbankaappinu hélt notkun fyrirtækja á sjálfsafgreiðslulausnum áfram að aukast. Á árinu jukust útlán bankans til fyrirtækja um 13,4%, góður gangur var í fyrirtækjaráðgjöf og sífellt fleiri fyrirtæki velja færsluhirðingu Landsbankans.

Kona að versla

Eitt helsta hlutverk bankans er að styðja við fjárfestingar í atvinnuvegum landsins. Útlán bankans til fyrirtækja í árslok 2024 voru alls 921 milljarður króna og höfðu hækkað um 109 milljarða króna á árinu. Útlánaaukningin var þvert á atvinnugreinar og jafngildir 13,4% útlánavexti.

Á árinu sem leið komu 2.049 fyrirtæki í viðskipti við bankann og 430 einyrkjar.

Lítil og meðalstór fyrirtæki mikilvægir viðskiptavinir

Alls eru um 18.000 lítil og meðalstór fyrirtæki og félög í virkum viðskiptum við Landsbankann og undanfarið hefur bankinn lagt sérstaka áherslu á að bæta þjónustu við þennan mikilvæga viðskiptavinahóp. Markmið okkar er að einfalda líf viðskiptavina með aðgengilegri þjónustu og góðri ráðgjöf. Á árinu lögðum við áherslu á þjónustusímtöl við nýja og gamla viðskiptavini, auk fjölda heimsókna og annarra daglegra samskipta.

Almennt eru vanskil hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum í viðskiptum við bankann mjög lítil.

Ánægjulegt að geta stutt við stækkun fyrirtækja

„Eitt af því ánægjulegasta við starfið mitt er að fá að aðstoða fyrirtæki við að stækka og þróast. Þegar kemur að slíkum tímamótum í rekstri fyrirtækis, skiptir miklu máli að traust ríki í samskiptum á milli bankans og fyrirtækisins og að rekstraráætlanir séu vel unnar og trúverðugar.

Áhersla á tæknilausnir – en líka persónulega þjónustu

Nýju stafrænu lausnirnar sem bankinn kynnti á árinu gagnast ekki síst litlum og meðalstórum fyrirtækjum og við leggjum okkur fram um að aðstoða viðskiptavini við að taka nýjar lausnir í notkun og kynna þær vel. Persónuleg þjónusta til viðskiptavina er ekki síður mikilvæg. Allir okkar viðskiptavinir hafa beinan aðgang að viðskiptastjóra eða fyrirtækjaráðgjafa sem sjá um þeirra mál. Við erum með frábæran hóp sérfræðinga sem hafa áralanga reynslu og mikla þekkingu í að aðstoða og þjónusta viðskiptavini.

Við leggjum mikla áherslu á að þróa tæknilausnir fyrir fyrirtæki og á árinu 2024 kynntum við fjölda nýjunga sem einfalda fyrirtækjarekstur og umsýslu með fjármuni. Fyrirtækin nýta tæknilausnir bankans mikið. Notkun fyrirtækja á rafrænum undirritunum hélt áfram að aukast en á árinu undirrituðu tæplega 86% fyrirtækja viðskiptagerninga sína við bankann á rafrænan hátt.

Í B2B-þjónustu Landsbankans er gagnvirkum samskiptum komið á milli bókhaldskerfa og netbanka fyrirtækja. Fyrirtækjum sem nýta sér B2B fjölgar stöðugt og á árinu 2024 nýttu liðlega 13% fleiri fyrirtæki sér þessa þjónustu.

Fyrirtæki kjósa í æ ríkari mæli að notast við Landsbankaappið. Notkun á fyrirtækjalausnum appsins jókst á árinu og í lok árs hafði fyrirtækjum, sem nota bæði appið og netbankann, fjölgað um liðlega 24%.

Nánar er fjallað um stafræna þjónustu og aðrar tæknilausnir í kaflanum um stöðuga framför.

Áfram sterk staða í bíla- og tækjafjármögnun

Verulegur samdráttur varð í sölu nýrra fólksbifreiða á árinu 2024, en um 46% færri fólksbílar voru nýskráðir samanborið við árið 2023, sem reyndar var metbílasöluár. Samdrátturinn var mun meiri í sölu fólksbíla til einstaklinga en til fyrirtækja. Þrátt fyrir mikinn samdrátt í sölu nýrra fólksbifreiða jukust útlán til fyrirtækja vegna bíla- og tækjafjármögnunar um 7,5% og voru um 47 milljarðar króna í árslok 2024.

Fjöldi nýrra viðskiptavina í verslun og þjónustu

Á undanförnum árum hefur verslunar- og þjónustufyrirtækjum sem eru í viðskiptum við bankann fjölgað jafnt og þétt og bankinn styrkt stöðu sína í þessum geira. Árið 2024 bættust fjölmargir viðskiptavinir við og útlán til þessara fyrirtækja jukust um tæplega 10%. Til verslunar og þjónustu telst fjölbreyttur hópur viðskiptavina á sviði smásölu, flutninga, upplýsingatækni og annarrar þjónustu. Þrátt fyrir talsverðar áskoranir í formi breyttra innkaupa- og neysluvenja, auk hækkana á hráefnisverði erlendis, gekk rekstur fyrirtækja í viðskiptum við bankann almennt vel.

Sveigjanleiki og þekking skiptir sjávarútveginn miklu máli

Í árslok 2024 voru útlán Landsbankans til sjávarútvegsfélaga, að eldisfélögum meðtöldum, um 190 milljarðar króna og stóðu nánast í stað á milli ára. Útlán til sjávarútvegs eru um 23% af heildarútlánum bankans til fyrirtækja. Bankinn er með sterka markaðshlutdeild í sjávarútvegi en hlutdeildin hefur heldur minnkað vegna aukinnar samkeppni frá erlendum fjármálastofnunum. Erlendar fjármálastofnanir geta í krafti stærðar og lægri skatta boðið mun hagstæðari kjör. Samkeppnisforskot Landsbankans felst í miklum sveigjanleika, viðbragðsflýti og þekkingu á greininni og fyrirtækjum sem í henni starfa.

Stefna okkar er að vera áfram leiðandi í fjármögnun í íslenskum sjávarútvegi og að auka útlán til greinarinnar samhliða auknum fjárfestingum.

Afkoman í sjávarútvegi árið 2024 var lakari en árið áður en helstu skýringarnar eru loðnubrestur og lægra fiskverð. Vegna minnkandi framboðs af fiski úr Barentshafi hefur eftirspurn aukist og fiskverð er tekið að hækka að nýju. Horfur eru því almennt góðar. Þar sem fiskistofnar eru takmörkuð auðlind eru fá tækifæri til vaxtar í hefðbundnum sjávarútvegi. Sjávarútvegsfélög hafa því nýtt góða afkomu til að fjárfesta í skyldum greinum, svo sem sjávarlíftækni og fiskeldi.

Ferðafólk á hálendi
Fjöldi ferðamanna og spá til 2027
2019 2.013.200
2020 486.308
2021 687.789
2022 1.696.785
2023 2.224.036
2024 2.287.341
2025 2.300.000*
2026 2.350.000*
2027 2.400.000*
*Spá Greiningardeildar Landsbankans

Aftur góðar horfur í ferðaþjónustu

Jarðhræringar á Reykjanesi og neikvæð umfjöllun fjölmiðla erlendis höfðu mikil áhrif á bókunarstöðu og eftirspurn á fyrstu mánuðum ársins. Hátt raungengi á Íslandi en lágt í Noregi hafði einnig áhrif á ferðir til Íslands. Ísland og Noregur hafa um margt upp á svipað að bjóða og keppa því um sömu ferðamennina en samkeppnisstaða Noregs hefur verið mun betri undanfarin misseri.

Þegar líða tók á árið fjöruðu áhrif jarðhræringa að mestu út og eftirspurn tók við sér að nýju. Sumarið var þokkalegt en heldur lakara en árið áður. Haustið var á hinn bóginn mjög gott og horfur eru áfram góðar fyrir veturinn 2025. Munar þar mestu um talsverða aukningu ferðamanna frá Asíu sem ferðast nú að nýju eftir heimsfaraldur. Ferðamannafjöldi ársins 2024 var tæplega 2,3 milljónir sem er svipaður fjöldi og árið áður.

Landsbankinn er nokkuð umsvifamikill í útlánum til ferðaþjónustu og jukust útlán til ferðaþjónustunnar um 3% á árinu. Við stefnum að því að halda áfram að styðja við vöxt atvinnugreinarinnar með svipuðum hætti og áður, en taka þarf hæg og örugg skref til vaxtar þar sem greinin er sveiflukennd eins og dæmin sanna.

Öflugur stuðningur við byggingariðnaðinn

Mjög góður gangur var á fasteigna- og byggingarmarkaði á síðasta ári og jukust útlánin til byggingarstarfsemi um 8% á árinu. Sem fyrr eru umsvifamestu verkefni Landsbankans í byggingargeiranum fjármögnun á stórum íbúðarhúsaverkefnum á höfuðborgarsvæðinu. Mikil hækkun útlána skýrist helst af nýjum og stórum verkefnum, hægari sölu og hærra vaxtaumhverfi.

Byggingarfélög halda sínu striki þrátt fyrir háa vexti en lóðaskortur setur þeim nokkrar skorður. Við gerum ráð fyrir að lækkandi vextir muni færa enn meira líf í markaðinn með aukinni sölu og lægri framleiðslukostnaði íbúða.

Stór byggingarverkefni
37
verkefni
Minni byggingarverkefni
70
verkefni
Íbúðir sem við fjármögnum
3.700
íbúðir

Fasteignafélög héldu áfram að vaxa og réði þar mestu annars vegar gott aðgengi að lánsfé og hins vegar stefna þeirra um að ná fram kostnaðarhagræðingu með auknum umsvifum. Fasteignafélög hafa aðallega verið fjármögnuð á skuldabréfamarkaði og hafa kaupendur að skuldabréfunum einkum verið lífeyrissjóðir og sérhæfðir skuldabréfasjóðir.

Háir vextir síðustu misseri hafa gert það að verkum að fasteignafélög hafa ekki viljað sækja sér fjármögnun til lengri tíma á skuldabréfamarkaði og hafa í auknum mæli leitað til banka um fjármögnun, m.a. Landsbankans. Útlán til fasteignafélaga jukust umtalsvert á árinu eða um 32% en útlán til Fasteignafélagsins Þórkötlu útskýra hluta aukningar útlána til fasteignafélaga. Gera má ráð fyrir að útlán haldist stöðug næstu misseri en fari svo lækkandi samfara lækkandi vöxtum.

Annasamt ár hjá Fyrirtækjaráðgjöf

Fyrirtækjaráðgjöf hélt utan um tvær hlutafjáraukningar fyrir auðlindafélagið Amaroq Minerals á árinu 2024, en það félag er skráð í kauphöllum í London, Toronto og Reykjavík. Í upphafi árs seldi félagið nýtt hlutafé að upphæð 7,5 milljarðar króna og svo aftur 4,9 milljarðar króna í lok árs. Einnig sá Fyrirtækjaráðgjöf um hlutafjáraukningu fyrir íslenska lyfjafyrirtækið Coripharma og söfnuðust yfir 12 milljónir evra með útgáfu og sölu á nýju hlutafé.

Af öðrum verkefnum sem Fyrirtækjaráðgjöf sá um og lauk á árinu 2024 má nefna sölu á hvalaskoðunarfyrirtækinu Special Tours til ferðaþjónustusamstæðunnar Arctic Adventures, kaup fjárfestingafélagsins Stekks á öllu hlutafé Securitas á Íslandi og umsjón með gerð grænnar skuldabréfaumgjarðar og grunnlýsingar fyrir fasteignafélagið Kaldalón.

Einnig kom Fyrirtækjaráðgjöf að fjölmörgum skuldabréfa- og víxlaútgáfum, ásamt skráningum fyrir félög eins og Kaldalón, Kviku eignastýringu, Ölmu íbúðafélag, Reykjavíkurborg, Landsbréf og Landsbankann. Fyrirtækjaráðgjöf gegndi einnig mikilvægu hlutverki við gerð kauptilboðs bankans í TM tryggingar. Þá var Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans ráðinn ráðgjafi fjármála- og efnahagsráðuneytisins við sölu á eftirstandandi hlut íslenska ríkisins í Íslandsbanka.

Verkefnastaða Fyrirtækjaráðgjafar er góð og útlit fyrir að árið 2025 verði hagfellt.

Færsluhirðing

Færsluhirðingin hefur stimplað sig inn

Færsluhirðing Landsbankans hefur vaxið hröðum skrefum frá því henni var hleypt af stokkunum í febrúar 2023. Á árinu 2024 komu 757 ný fyrirtæki í viðskipti vegna færsluhirðingar, þar af nokkrir af stærstu söluaðilum landsins. Velta söluaðila í færsluhirðingu hefur rúmlega 16faldast milli áranna 2023 og 2024. Á sama tíma hefur færslufjöldi 32faldast.

Færsluhirðingin hefur gengið betur en áætlanir gerðu ráð fyrir og ljóst að bankinn hefur stimplað sig rækilega inn á markaðinn með sterkum tæknilausnum og framúrskarandi þjónustu. Það er því ljóst að þessi nýsköpun styrkir bankann enn fremur og sýnir að bankinn heilt yfir er sterkur í að sækja ný viðskipti fyrir nýja vöru og þjónustu. Færsluhirðingin hefur gefið bankanum ný sóknarfæri en 38% af fyrirtækjum sem eru með færsluhirðingu hjá bankanum eru nýir viðskiptavinir.

Við héldum áfram að þróa og bæta þjónustuna á árinu 2024. Fleiri tengingar við afgreiðslu- og sölukerfi litu dagsins ljós sem eykur breidd og styrk vörunnar. Tækninýjungar sem bankinn vinnur að í samstarfi við Verifone eru í nánari skoðun hjá nokkrum völdum söluaðilum og verða kynntar betur fljótlega.

Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur