Mannauður og jafnrétti

Mannauðsmál skipa alltaf mikilvægan sess í rekstri bankans. Við leggjum áherslu á þróun starfsfólks, aðbúnað og vinnustaðamenningu í öllum okkar verkefnum. Í starfsfólki bankans býr rík reynsla, fjölbreyttur bakgrunnur og jafnframt sterk hefð fyrir þjálfun í nýrri starfstengdri hæfni. Þannig tekst okkur að viðhalda góðu jafnvægi á milli reynslumikils fólks og nýrra liðsfélaga.

Starfsfólk Landsbankans

Á árinu 2023 var unnið að mörgum stórum verkefnum í mannauðsmálum. Þau sem bera hæst eru flutningur rúmlega sex hundruð starfsmanna í Reykjastræti 6, starfsdagur alls starfsfólks í september og innleiðing nýrrar mannauðsstefnu.

Mannauðsstefna

Markmiðið með nýrri stefnu er að fanga drifkraftinn og starfsumhverfið á vinnustaðnum.

Stefnan er unnin með hliðsjón af vinnufundum með starfsfólki þar sem fjallað var um hvað einkennir eftirsóknarverðan vinnustað, hvernig menningu við viljum viðhalda, hvernig við hlúum að velferð starfsfólks og búum starfsfólki gott starfsumhverfi.

Stefnan byggir á þremur stoðum: menningu, umhverfi og velferð. Samhliða mannauðsstefnu var gefin út aðgerðaáætlun þar sem við tilgreinum verkefni sem styðja við einstaka þætti stefnunnar og einnig mælikvarða á árangur í hverjum hluta.

Menning

Starfsþróun og fræðsla

Á árinu flutti meirihluti starfsfólks í nýtt hús við Reykjastræti 6 og kom þar saman undir eitt þak eftir að hafa unnið í mörgum húsum undanfarna áratugi, víðs vegar um Reykjavík. Á árinu var lögð rík áhersla á að huga vel að vinnustaðamenningunni sem getur tekið breytingum við svona stórt skref. Við nýttum þetta tækifæri til að móta sameiginlega menningu bankans undir einu þaki með því að birta tilgang bankans formlega: að vera traustur banki fyrir farsæla framtíð. Vinnustaðamenning er í stöðugri þróun og starfsumhverfið er stór og veigamikill þáttur sem hefur áhrif á menningu og árangur í starfi. Við berum öll ábyrgð á því að skapa heilbrigðan og skemmtilegan vinnustað og með öflugri fræðslu höfum við tækifæri til að móta menninguna.

Við lögðum mikla áherslu á fræðslu sem snýr að velferð og vellíðan, bæði líkamlegri og andlegri. Markmiðið sem við höfðum að leiðarljósi var að skapa starfsumhverfi þar sem starfsfólki líður vel, sem styður við vöxt, árangur og þróun starfsfólks og sem stuðlar að góðu jafnvægi á milli verkefna og einkalífs.

Þar að auki hefur starfsfólki staðið til boða að sækja fjölda starfstengdra námskeiða sem miða að því að auka hæfni í störfum, t.d. öryggisnámskeið og námskeið til að viðhalda verðbréfamiðlunarréttindum. Áhersla hefur verið á fræðslu um sjálfbærnimál á árinu, m.a. um hringrásarhagkerfið og um líffræðilegan fjölbreytileika og PBAF (Partnership for Biodiversity Accounting Financials) svo dæmi séu nefnd.

Haldinn var vel heppnaður starfsdagur í bankanum í september þar sem boðið var upp á fjölbreytta fræðsluviðburði sem höfðu það markmið að styðja við stefnustoðir og tengja við tilgang bankans. Dagurinn var góð blanda af fræðslu og skemmtun sem skilar okkur enn samstilltari hópi.

Öflug stjórnendaþjálfun hófst á árinu og mun halda áfram allt árið 2024. Lögð er áhersla á að auka þekkingu stjórnenda á jafnréttismálum, inngildingu og fjölbreytileika en sömuleiðis að efla almenna hæfni og færni þeirra í leiðtogahlutverkinu.

Ánægja og árangur

Stefna bankans í mannauðsmálum er í stöðugri þróun og endurskoðuð út frá hugmyndum og framlagi starfsfólks. Mikið er lagt upp úr öflugu félagslífi. Reglulegar greiningar og samtöl eiga sér stað til að mæla ánægju starfsfólks, veita endurgjöf og meta árangur. Niðurstöðurnar eru nýttar til að efla fræðsluframboð til starfsfólks, stuðla að lifandi og góðri vinnustaðamenningu og skerpa áherslur í ráðningum.

Þættir sem snúa að starfsánægju og öðrum þáttum starfsumhverfis eru mældir í fjórum könnunum yfir árið. Niðurstöður kannana í ár hafa verið góðar og heildaránægja og helgun hefur hækkað. Ákveðinn mælikvarði á ánægju starfsfólks er að kanna hvort það mæli með vinnustaðnum sem frábærum vinnustað og 88% starfsfólks er mjög eða nokkuð sammála þeirri fullyrðingu. Fjórar kannanir eru lagðar fyrir starfsfólk og er áherslan á ólík viðfangsefni. Ef talin er þörf á frekari greiningu er hún unnin ýmist með samtölum við hópa eða styttri viðbótarkönnunum. Þátttaka í könnunum er góð eða yfirleitt í kringum 85%.

Umhverfi

Okkur er umhugað um að starfsemin sé árangursrík og skilvirk og leggjum því áherslu á gagnkvæman sveigjanleika þar sem þarfir einkalífs og starfs fara saman. Aðbúnaður og aðstaða er eins og best verður á kosið og við nýtum snjallar lausnir til að koma til móts við starfsfólk sem hefur kost á að nýta sér ólíkar starfsstöðvar.

Vorið 2023 hófust flutningar á nýjan vinnustaði í Reykjastræti 6. Flutningarnir gengu vel og engin röskun varð á starfsemi í tengslum við þá enda góður undirbúningur að baki. Allt starfsfólk sem flutti úr Kvosinn og Borgartúni á nýjan vinnustað hafði tekið þátt í vinnustofum þar sem fjallað var um flutninga, samskipti í verkefnamiðuðu vinnuumhverfi og allt það sem nýr vinnustaður býður upp á. Í Reykjastræti 6 er boðið uppá verkefnamiðað vinnuumhverfi sem felur í sér að starfsfólk velur sér starfsstöð sem hentar verkefnum á hverjum tíma. Í því felst einnig val um að vinna fjarri vinnustað ef verkefni bjóða uppá það.

Starfsfólk kann vel að meta þennan möguleika og kannanir sýna að í kringum 85% starfsfólks telur að vinnusvæði auðveldi samvinnu við samstarfsfólk og að það geti unnið á skilvirkan hátt með samstarfsfólki hvort sem það vinnur heima eða á öðrum stað.

Reykjastræti 6

Nýr vinnustaður í Reykjastræti hefur reynst vel síðan hann var að fullu tekinn í notkun í sumar. Kannanir voru lagðar fyrir starfsfólk vorið 2021 og svo aftur í lok árs 2023, eða um það bil 6 mánuðum eftir flutninga. Niðurstaðan er mjög góð og starfsfólk metur alla tilgreinda þætti betri en á fyrri vinnustöðum í Kvosinni og Borgartúni. Auk kannana hafa verið haldnir rýnifundir með starfsfólki til að heyra viðhorf þeirra til þess sem gengur vel en einnig þess sem betur má fara. Niðurstöður þessara rýnihópa hafa verið nýttar til að forgangsraða verkefnum og breytingum sem nauðsynlegar eru til að tryggja góðan aðbúnað.

Á heildina litið, hversu vel eða illa finnst þér vinnuumhverfi þitt henta störfum þínum?

Velferð

Heilsueflandi vinnustaður

Við leggjum áherslu á að styðja starfsfólk við að rækta andlegt og líkamlegt heilbrigði á fjölbreyttan hátt. Heilsuefling á vinnustað er sameiginlegt og viðvarandi verkefni vinnuveitanda og starfsfólks. Bankinn býður upp á hollan mat, tækifæri til líkamsræktar og stuðlar að því vinnuaðstæður séu heilsusamlegar. Við bjóðum starfsfólki upp á árlegt heilsufarsmat og gott aðgengi að sálfræði- og læknisþjónustu.

Fjölbreytni og jafnrétti

Við höfum um árabil lagt áherslu á jafnréttismál og unnið eftir skýrri jafnréttisstefnu og -áætlun. Hjá okkur hafa öll jöfn tækifæri til starfsþróunar og hver einstaklingur er metinn að verðleikum. Mismunun sem byggir á kyni, kynþætti, kynhneigð, trúarbrögðum eða þjóðerni er aldrei liðin. Bankinn hefur verið jafnlaunavottaður frá upphafi árs 2019. Markmið Landsbankans er að til lengri tíma litið sé launamunur sem næst 0%, en þó aldrei meiri en 2,5%. Á árinu var launamunur á bilinu 1,1% - 1,8%. Á árinu var unnið að endurskoðun jafnréttisstefnu til að tryggja að stefnan sé í takt við áherslur bankans og stöðuga þróun í samfélaginu.

Jafnrétti í innri og ytri samskiptum

Undanfarin misseri hefur markvisst verið skráð hverjir koma fram fyrir hönd bankans í fjölmiðlum, á ráðstefnum og fundum utan bankans. Auk þess er skráð hverjir skrifa greinar á vefinn. Það hefur reynst gott aðhald. Kynjahlutfall þeirra sem komið hafa fram fyrir hönd bankans á undanförnum árum hefur verið mjög jafnt en á árinu 2023 hallaði á karla. Til lengri tíma er stefnt að því að þetta hlutfall verði sem jafnast.

Skýr viðbragðsáætlun

Við erum með skýra viðbragðsáætlun við einelti, kynbundnu áreiti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi (EKKO). Allt starfsfólk fær reglubundna fræðslu um málefnið og vinnustofur eru haldnar fyrir stjórnendur bankans. Vitund starfsfólks og stjórnenda um málefnið hefur aukist með reglubundinni miðlun upplýsinga og fræðslu og fagleg úrvinnsla verið tryggð. Starfsfólk býðst að ræða við óháðan ytri fagaðila ef upp koma erfið mál. Mæling á tíðni atvika, upplifana og tilkynninga er hluti af árlegri vinnustaðagreiningu. Fræðsla og upplýsingamiðlun fer reglulega fram á upplýsingaveitum bankans.

Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur