Áhættustjórnun
Áhætta er samofin allri starfsemi Landsbankans og öflug og traust áhættustjórnun er því lykilþáttur í rekstri bankans. Kjarnastarfsemi Áhættustýringar felst í áhættumælingum og eftirliti, greiningu og traustri upplýsingagjöf. Starfsemin byggir á þróun og innleiðingu áhættulíkana og gagnavinnslu ásamt áhættueftirliti.

Árið 2024 einkenndist af áskorunum í ytra umhverfi, til dæmis vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga, pólitískrar óvissu innanlands og erlendis, þrálátri verðbólgu og háum vöxtum á Íslandi. Þrátt fyrir framangreint eru áhættumælingar og mat bankans á mikilvægustu áhættuþáttum almennt jákvætt og horfur stöðugar.
Áhættustýring efldi enn frekar stuðning við meginmarkmið bankans um arðsemi á árinu með innleiðingu nýrra mælinga og upplýsingagjafar. Þá sinnti sviðið aukinni fræðslu til starfsfólks bankans og lagði grunn að frekari hagnýtingu með lykilstjórnendum.
Áhættustefna Landsbankans
Landsbankinn hefur sett sér áhættustefnu með það að markmiði að setja umgjörð um áhættustjórnun og áhættuvilja bankans, sem er undirstaða langtímaarðsemi og stöðugleika. Stefna bankans tekur líka til innleiðingar á áhættumenningu, áhættureglna og stjórnskipulags sem skilgreinir ábyrgð og eftirfylgni við áhættustjórnun.
Allir mikilvægustu áhættuþættir í starfsemi bankans eru skilgreindir, metnir og mældir, hvort sem þeir eru fjárhagslegir eða ófjárhagslegir. Mikilvægustu áhættuþættir bankans eru útlánaáhætta, markaðsáhætta, lausafjáráhætta, samþjöppunaráhætta, rekstraráhætta, viðskiptaáhætta, lagaleg áhætta, orðsporsáhætta, háttsemisáhætta, hlítingaráhætta, upplýsingaöryggisáhætta, gagnaáhætta, líkanaáhætta og sjálfbærniáhætta.
Innra stjórnskipulag Landsbankans lýsir ákvörðunarferli um helstu áhættuþætti, heimildum til ákvarðana- og áhættutöku, eftirfylgni og eftirliti bankaráðs, bankastjóra og einstakra nefnda bankans.
Bankaráð hefur samþykkt áhættuvilja sem endurspeglar áhættustefnu bankans og er stjórntæki til að stýra áhættutöku auk þess að skilgreina markmið um einstaka áhættuþætti og heildaráhættu í starfsemi bankans. Áhættuviljinn er endurskoðaður að lágmarki árlega. Megináhættumælikvarðar bankans koma fram hér að neðan en auk þeirra leggur bankinn mat á og mælir ýmsa aðra áhættuþætti sem styðja við áhættustjórnun og ákvarðanatöku.
Áhættumælingar og áhættuþættir
Áhættumælingar og mat bankans á mikilvægustu áhættuþáttum er almennt jákvætt og allir helstu áhættumælikvarðar voru í samræmi við markmið áhættuvilja í árslok 2024. Vanskil í útlánasafni bankans eru áfram í lágmarki, fjármögnun bankans er traust og lausafjár- og eiginfjárstaða bankans er sterk.
Sem fyrr er útlánaáhætta umfangsmesta áhætta bankans, en hún nemur 89,5% af áhættugrunni bankans. Vöxtur útlána var töluverður á árinu, en útlán jukust samtals um 177 milljarða króna. Eftirspurn eftir verðtryggðum útlánum jókst töluvert á árinu, sérstaklega í íbúðalánum en einnig í útlánum til fyrirtækja. Aukin eftirspurn jók umfang verðtryggðra eigna bankans verulega umfram aukningu verðtryggðra skulda bankans.
Næst umfangsmesta áhættan í rekstri bankans er rekstraráhætta, en þar undir falla fjölmargir áhættuþættir. Ein megináhersla bankans hefur verið að verja viðskiptavini fyrir netárásum sem eru áfram vaxandi ógn. Bankinn hefur uppfyllt ISO 27001 vottun um upplýsingaöryggi í rúm 15 ár og er vottunin, ásamt fræðslu um upplýsingaöryggi til starfsfólks og viðskiptavina, ein af meginstoðum varna bankans þegar kemur að netöryggi.
Ófjárhagslegir áhættuþættir skipta verulegu máli í rekstri bankans og hafa aukist að umfangi, sér í lagi hvað varðar netöryggi og upplýsingatækniáhættu. Bankinn vinnur nú að innleiðingu reglugerðar ESB nr. 2022/2554 um rekstraröryggi fyrirtækja á fjármálamarkaði (Digital Operational Resilience Act, eða DORA), sem mun taka gildi á Íslandi þann 1. júlí 2025. Bankinn hefur einnig undirbúið gildistöku reglugerðar ESB nr. 2024/1623 (CRR III) á árinu 2025 og væntir þess að áhrif innleiðingarinnar á áhættugrunn bankans verði óveruleg.
Í árslok 2024 var eiginfjárhlutfall bankans 24,3% sem er vel yfir gildandi eiginfjárkröfum (20,4%). Lausafjárstaða bankans var mjög sterk í árslok og lausafjárhlutföll vel umfram lögbundin mörk og innri áhættumörkum bankans. Hlutfall heildarlausafjárþekju var 164% í árslok, 133% í íslenskum krónum og 951% í evrum.
Mat er lagt á áhættuþætti í rekstri bankans með ýmsum mælikvörðum, eftir umfangi þeirra og eðli, og mælikvarðarnir mynda grunn fyrir áhættumörk, greiningu áhættuþátta, upplýsingagjöf og stjórnun áhættu. Sameiginleg mæling allra áhættuþátta er innra mat bankans á eiginfjárþörf sem ætlað er að mæta óvæntu tapi í rekstri bankans. Á árinu 2024 voru niðurstöður eigin mats bankans á eiginfjárþörf umtalsvert lægri en eiginfjárkröfur bankans.
Mat á sjálfbærniáhættu
Bankinn hefur innleitt mat og stjórnun sjálfbærniáhættu í áhættuumgjörð bankans. Sjálfbærniáhætta felur í sér áhættu vegna umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS-þátta). Innleiðingin felur m.a. í sér sérstakt mat á sjálfbærniáhættu við lánveitingar til stærri fyrirtækja.
Virkt innra eftirlit
Virkt innra eftirlit er einn af hornsteinum öflugrar áhættustjórnunar og er ætlað að stuðla að því að bankinn starfi í samræmi við áhættustefnu og áhættuvilja.
Innra eftirlit er ferli sem er mótað af stjórnendum og starfsfólki bankans og felur í sér allar þær aðgerðir sem gripið er til með það að markmiði að styðja við, stjórna, takmarka eða vakta tiltekna starfsemi og styðja þannig bankann í að ná settum markmiðum.
Þá leggur Landsbankinn áherslu á góð og uppbyggjandi samskipti við eftirlitsaðila ásamt réttri og tímanlegri upplýsingagjöf til þeirra.
Áhættumælikvarðar í áhættuvilja Landsbankans
Megin áhættumælikvarðar bankans koma fram hér að neðan en auk þeirra leggur bankinn mat á og mælir ýmsa aðra áhættuþætti sem styðja við áhættustjórnun og ákvörðunartöku.
Áhættuþáttur | Mæling | |
---|---|---|
Útlánaáhætta | Vænt tap | |
Meðallíkur á vanefndum | ||
Eiginfjárþörf útlánaáhætta | ||
Samþjöppunaráhætta | Stærsta áhættuskuldbinding (hlutfall af eigin fé þáttar 1) | |
Stórar áhættuskuldbindingar alls (hlutfall af eigin fé þáttar 1) | ||
Markaðsáhætta | Eiginfjárþörf markaðsáhætta |
Áhættuþáttur | Mæling | |
---|---|---|
Lausafjár- og fjármögnunaráhætta | Lausafjárþekja alls | |
Lausafjárþekja í krónum | ||
Lausafjárþekja í evrum | ||
Fjármögnunarþekja alls | ||
Eiginfjáráhætta | Eiginfjárhlutfall alls | |
Rekstraráhætta | Eiginfjárþörf rekstraráhætta | |
Sjálfbærniáhætta | Hlutfall hæfra eigna fyrir græna fjármögnun | |
Arðsemi | Arðsemi eigin fjár eftir skatta |
Ítarlegri upplýsingar í áhættuskýrslu
Landsbankinn gefur út áhættuskýrslu þar sem gerð er ítarleg grein fyrir öllum áhættuþáttum bankans og þeim aðferðum sem beitt er við mat á áhættu.
Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.